Nýju íþróttarásirnar mínar
2.10.2007 | 16:20
Í sumar skipti ég um sjónvarpsþjónustuaðila. Í stað þess að vera með kapal frá Shaw ákvað ég að prófa stafrænu rásirnar hjá Telus, aðallega vegna þess að ég var þegar með símann minn og internetið hjá Telus og þeir bjóða upp á góða pakka þegar maður tekur allt þrennt saman. Ég er að borga undir fimmþúsund krónum fyrir allt - sjónvarp (um 30 stöðvar), ADSL internet og heimasímann. Fyrstu þrjá mánuðina eftir að ég skipti fékk ég allar rásirnar frá Telus sem eru um 250 sjónvarpsrásir og svipað af útvarpsrásum. Það stóð auðvitað aldrei til að halda þessu öllu enda margt sem ég horfði aldrei á. Ég reyndi því að nota sumarið í að velja úr hvað ég teldi að ég myndi nota. Það var nokkuð ljóst frá upphafi að mig vantaði fleiri íþróttastöðvar því engin íþróttarás var á grunnkaplinum. CBC sýnir reyndar reglulega frá íþróttum en bara svipað og RÚV gerir, t.d. Rogers Sportsnet er t.d. alveg bráðnauðsynleg stöð því þeir sýna alltaf reglulega frá enska boltanum og þar að auki sýna þeir næstum því alla hokkíleikina hjá Vancouver. Ég vildi líka gjarnan bæta við mig pakkanum 'popular choices' þar sem fá má stöðvar eins og Bravo, Showcase og A&E sem ég horfði alltaf mikið á þegar ég var með allar stöðvarnar fyrir þremur árum (þá fékk ég þær ókeypis af því að fólkið fyrir ofan mig borgaði fyrir stöðvarnar og það var bara einn kapall þar sem ég bjó þá).
Ætlunin var að vera án þessa stöðva í einn mánuð og bæta svo þessum tveim pökkum við í næstu viku þegar nýtt tímabil hefst. En í gærkvöldi sá ég að Sportsnet sýndi klukkutímalangan þátt um Canucks og var sérstaklega tekið fram að það ætti að fylgjast með þjálfaranum í einn dag. OK, eins og þið vitið sem nennið að lesa bloggið mitt þá er þetta nokkuð sem ég hreinlega get ekki misst af. Klukkutímaþáttur með Vigneault. Það er betra en að sjá bíómynd með Ralph Fiennes. Þáttinn á að endursýna klukkan eitt í dag svo ég fór að hugsa um hver væri með kapal og væri heima um miðjan dag (klukkan var orðin of margt í gær svo ég gæti hringt í einhvern og beðið þá um að stilla vídeóið). Marion er heima á daginn en er ekki með Sportsnet. Ég held að Lína hafi sagt vera með fullt af stöðvum en hún er ekki heima á daginn. Rosemary er möguleiki! Hún hefur Sportsnet og er oft heima á daginn. En áður en ég hringdi í hana ákvað ég að prófa að hringja í Telus og sjá hversu fljótt þeir tengja nýjar stöðvar. Ég ætlaði að fá mér þessa stöð hvort eð var svo kannski gæti ég fengið hana fyrir hádegið. Svo ég hringdi og var sagt að það gæti tekið upp í 24 tíma að ná þessu í gegn. Svo ég sagði konunni að ég þyrfti endilega að sjá þátt klukkan eitt í dag og að ég væri að leita af vinum sem gætu tekið hann upp fyrir mig en það væri enn betra ef ég væri búin að fá stöðin fyrir þann tíma. Hún sagðist ætla að gera það sem hún gæti. Um tíu mínútum seinna var stöðin komin inn!!!!
Ég er ekki alltaf mjög hrifin af Telus sem fyrirtæki en þarna brugðust þeir mér ekki. Þið vitið hvað ég verð að gera klukkan eitt í dag!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.