Hugsa sér frið
4.10.2007 | 16:49
Í morgun fékk ég tölvupóst frá Beatles.com þar sem minnt var á Friðarturninn hennar Yoko í Viðey. Var þar gefin upp slóðin http://www.imaginepeace.com/ og allir hvattir til þess að fara á síðuna og fylgjast með. Þar er meðal annars hægt að senda friðarkveðjur og svo eru allir kvattir til að koma á síðuna þann níunda október, á afmælisdag Johns, þegar súlan verður afhjúpuð. Nú þegar hafa komið yfir 20.000 manns þarna og þar sem tölvupósturinn fór út í dag til allra Bítlaáhugamanna má búast við enn fleiri heimsóknum á næstu dögum.
Þótt þetta sé átak um frið þá er þetta verkefni allt saman ótrúleg landkynning fyrir Ísland. Yoko talar svo fallega um landið í myndbandi á síðunni; hún talar um hversu hreint landið sé, hversu hreint loftið sé, og um það hvernig maður yngist um tíu ár við það að koma til Íslands. Og að sjálfsögðu er íslenska eitt tuttugu málanna sem valin voru til þess að senda friðarkveðjur á súlunni - þótt ég viti ekki af hverju nafnháttur var valinn (hugsa sér frið) í stað boðháttar (hugsaðu þér frið). Reyndar held ég að ég hefði valið sögnina ímynda í staðinn (ímyndaðu þér friði) sem er öllu nær enskunni (imagine peace). En það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er hugsunin á bakvið verkið, og minningin um John.
Athugasemdir
Yndisleg hugmynd og lagið er auðvitað það flottasta.
Jenný Anna Baldursdóttir, 4.10.2007 kl. 17:19
Ímyndunarfriður?
Már Högnason (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.