Þakkagjörðarhátíð
8.10.2007 | 15:06
Í dag er þakkagjörðarhátíð í Kanada, um mánuði á undan kananum í suðri. Hátíðin hér er býsna mikilvæg en kannski ekki eins stór eins í Bandaríkjunum þar sem fólk þeytist þvert yfir landið til að geta verið með fjölskyldunni á þessum degi. En að öðru leyti er þetta svipaður dagur. Hátíðin er haldin til að fagna haustuppskerunni og þar af leiðandi er haustgrænmeti eins og grasker og annað rótargrænmeti mjög vinsælt. Graskersbaka er t.d. algengasti eftirrétturinn á þessum degi. Að öðru leyti er borðaður kalkúnn með ýmsu ómissandi meðlæti: fyllingu, trönuberjasultu, kartöflustöppu, yam-kartöflustöppu, rósakáli og brúnni sósu. Mér þótti þetta ekkert sérstakur matur þegar ég flutti út fyrir átta árum en nú finnst mér þetta glettilega gott. Yam-kartöflurnar eru mitt uppáhald en maður bakar þær fyrst, stapar svo og blandar saman við það smjöri og púðursykri (sykrinum má sleppa ef maður vill halda óhollustunni í lágmarki).
Ég fór í mat til Brynjólfssons fólksins sem eru fjarskyldir ættingjar. Þeir einu sem ég á í Kanada (nema maður fari mjög langt aftur). Þau bjóða mér alltaf í mat á stórhátíðum. Yfirleitt muna þau reyndar ekki að bjóða mér fyrr en í fyrsta lagi daginn áður (núna um það bil fimmtán mínútum áður en ég var að ná strætó til að komast til þeirra) svo mér var sagt í gær að ég væri hér með boðin í mat á öllum þakkagjörðarhátíðum, jólum og páskum. Hér með væri það mitt starf að hringja og fá upplýsingar um hjá hvaða systur borðað væri (þær eru fjórar systurnar en vanalega er borðað hjá annað hvort Kathy eða Dianne).
Í gær var maturinn hjá Dianne og ég greip strætó niður að Heather götu þar sem Carol greip mig með það sem eftir var ferðarinnar. Það er hérumbil nauðsynlegt þar sem Dianne og fjölskylda búa í White Rock í suður Surrey - hérumbil niður við landamærin. Ég hef einu sinni farið þetta með strætó og það tók um tvo klukkutíma. Á einkabíl má reikna með um 50 mínútum.
Ég passaði mig á að éta ekki alveg yfir mig þar sem ég er að reyna að léttast (en það er þó erfitt þegar svo margt er á borðum því þótt maður taki bara pínulítið af öllu þá er þetta samt svo mikill matur), og ég drakk vatn með matnum en hvorki gos né vín (má hvort eð er alveg missa sín). Leyfði mér samt graskeraböku með rjóma á eftir. Iss, ég er nú ekki beinlínis í megrun þannig að það er allt í lagi að leyfa sér gott af og til.
Núna á eftir er ég hvort eð er að fara í fjallgöngu með Línu og Axel þannig að ég mun brenna af mér bökuna.
Athugasemdir
Sukkjöfnun, Stína. Það er málið.
Gísli Ásgeirsson, 8.10.2007 kl. 15:54
Sukkjöfnun, eða MÓTVÆGISAÐGERÐIR Stína mín.
Jenný Anna Baldursdóttir, 9.10.2007 kl. 00:38
Át er gott, át er ljúft. Ganga getur verið það líka, en maður má aldrei vera í stöðugri jöfnun ... mikið vildi ég að ég hefði getað smakkað á þessu. Graskersbaka er eitthvað sem ég hef held ég alveg örugglega ekki smakkað.
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.