Að eiga við leigusala
9.10.2007 | 19:40
Mér er haldið í gíslingu. Sökudólgarnir eru Goldman fólkið - leigusalarnir mínir. Leiguverð hefur hækkað svo mikið í borginni á síðustu árum að maður þorir ekki að gera neitt sem gæti leitt til þess að maður missti húsnæðið. Ég borga tæpar 50.000 krónur á mánuði en meðalverð á tveggja herbergja íbúðum í hverfinu mínu er líklega komið upp í sirka 80.000 krónur. Ég er með samning þannig að leigusalinn getur ekki hækkað verðið nema um ákveðnar prósentur á ári og því borga ég minna en ég þyrfti að borga ef ég væri að byrja að leigja núna. Þetta gerir það að verkum að leigusalar í borginni nota hvaða tækifæri sem þeir finna til þess að losna við núverandi leigjendur og fá nýja, því þá geta þeir búið til nýjan samning við nýju leigjendurna og hækkað verðið eins og þeim sýnist.
Á föstudaginn gerðist það að ég fékk símtal frá karlfjandanum þar sem hann sagði að það hefði ekki verið innistaða fyrir leigutékkanum sem ég sendi honum. Það var mér að kenna. Ég fæ styrk frá Rannís inn á íslenska reikninginn minn og þarf svo alltaf að millifæra hingað í hverjum mánuði. Ég gleymdi því í þetta sinn. Var svolítið rugluð og fannst ég vera búin að færa en það var bara ekki rétt. Þessi misstök kostuðu mig 4000 krónur (bankinn tók 40 dollara og leigusalinn 20) plús símtal frá herra Goldman. Hann bað mig um að senda nýjan tékk upp á þar sem ég bætti þessum 20 dollurum við leiguna. Ég gerði það umsvifalaust. Þetta var sem sagt á föstudag. Í gær var þakkagjörðarhátíð og flestar opinberar stofnanir lokaðar. Þar af leiðandi engin póstþjónusta. Í gær fékk ég svo annað símtal frá Goldman (á símsvarann) um að ég yrði að hringja í hann sem fyrst. Svo ég í morgun og þá kvartaði hann yfir því að vera ekki búinn að fá tékkann. Ég benti mannfjandanum á að ég hefði sent hann á föstudaginn. Og hvað segir hann: En ég er ekki búinn að fá hann. Svo ég bendi mannfýlunni auðvitað á að það væri ekki kominn neinn póstur síðan þá. Hann hlyti að vita að það væri engin póstþjónusta á þakkagjörðarmánudeginum. Mikið rosalega geta sumir verið vitlausir (og gráðugir). Og þessi maður var læknir.
Jæja, þetta er ekki búið. Ég ákvað að nota tækifærið og kvarta yfir risastóru holunni á veggnum sem liggur úr eldhúsinu og út. 20x12 sentímetrar. Fimm rottur geta farið þarna í gegn á sama tíma. Og nú þegar verkfall ruslakarla hefur staðið í yfir 80 daga, og rottum hefur fjölgað meir en kanínum, þá hafa komið tilkynningar frá borginni um að fólk skuli passa sig á öllum inngönguleiðum í húsin. Nú þegar hefur kólnað flýja rotturnar inn í hitann og neyta allra leiða. Ég hafði ekki viljað kvarta yfir þessu þar sem ég vil helst ekki tala við fólkið, en fyrst karlinn var í símanum ákvað ég að láta mig hafa það. Þetta er þeirra mál. Þau eiga að sjá um að þetta sé fyllt inn. Ég varð að segja herra Goldman tvisvar sinnum frá þessu og hann náði því samt ekki um hvað ég var að tala. Konan hans hringdi fimm mínútum síðan. Og hvað haldiði að hún hafi sagt: Þú ert nú klár manneskja. Þú ættir nú að geta bjargað þér aðeins!!!!!! Djöfulsins kerlingadruslan. Hvað hef ég oft kallað til viðgerðarmann á þessum þremur árum? Tvisvar. Einu sinni þegar eldavélin hætti að virka (leigusalar eiga að sjá um hún sé í lagi) og einu sinni vegna þess að það var ekki hægt að spenna gluggann í svefnherberginu opinn. Það er allt og sumt. Öðru hef ég bjargað sjálf. Mér finnst að þegar eldhúsið hefur 12x20 sentímetra gat út um vegginn þá sé það leigusalans að sjá um að fylla þetta (þetta er frá einhverri viftu sem áður var sett út). Og samt samþykkti ég að ég skyldi laga þetta ef kerlingafýlan kæmi með timbrið sem þyrfti til þess að laga þetta. Mig langaði að segja henni að éta táfýlusokka karlsins síns en ég þorði ekki að vera með leiðindi. Vil ekki gera neitt sem gefur þeim ástæðu til þess að henda mér út.
Já, svona er Vancouver í dag.
Athugasemdir
Leiðinda leigusalar eru þetta. Gangi þér vel að sleppa við rotturnar!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.10.2007 kl. 19:58
Eg hef thig nu grunada um ad hafa gert thetta gat a vegginn sjalf...snyr ekki eldhusid ad idnadarmannaflorunni i nybyggingunni vid hlidina? Taktu skrefid bara lengra og settu almennilega kiki i gatid stelpa...og segdu svo upp ollum nyju sjonvarpsrasunum...sparnadur i thvi!! Annars skil eg vel hvad thu att i basli med. Vid Helga attum mjog svo skemmtileg samskipti vid pakistanskan leigusala okkar i Oslo a sinum tima...thad atti ad setja okkur a gotuna med viku fyrirvara og afann i ibudina i stadinn en med hjalp laganema-straetosins (juss-bussen) var ollu kippt i lidinn og aevintyrid fekk anaegjulegan endi. Her i Pavia er eg med alveg einstaklega yndislegan leigusala sem kemur askvadandi med vini sina idnadarmenn a eftirlaunum i eftirdragi thegar kallad er eftir henni ad lata gera vid eitthvad, hun kemur og reitir arfa hja okkur thegar henni fer ad bloskra hvad vantar alla graenku i fingurna a okkur, hun kippir ser ekki upp vid thad thott eg thui hana i bak og fyrir, og hun er ordin ein af fimmhundrud ommum Oscars!
Rut (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 20:17
Athyglisverður pistill frá útlandinu.
Mér fannst um stund sem ég væri að lesa sögu systurs Olivers Twist!
Júlíus Valsson, 9.10.2007 kl. 20:22
Hvað ætlarðu að búa þarna lengi? Er raunhæft að kaupa?
Berglind Steinsdóttir, 9.10.2007 kl. 20:45
Berglind, ég verð a.m.k. hérna fram á haustið en ég veit ekki hvort ég verð hér lengur. Það er ekki raunhæft að kaupa hér því verð á húsnæði hefur aldrei verið hærra. Húsin í hverfinu mínu (sem er oft fremur lítil timburhús) eru flest í kringum 65 milljónir. Ungt fólk sem er að kaupa íbúðir í dag hefur yfirleitt ekki efni á að kaupa í Vancouver og hefur flutt i útborgirnar. Þar er ekki gott að búa ef maður þarf upp í UBC því það tekur um einn til einn og hálfan tíma að komast hvora leið. Ég þrauka hér áfram og þegar ég lýk námi þá verð ég bara að meta stöðuna. Líklegast er að ég flyti eitthvert annað.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.10.2007 kl. 20:58
Rut, jú, það er rétt að gatið snýr að húsinu sem verið er að byggja, en tvennt mælir gegn þessari kenningu þinni. Annars vegar það að gatið er alveg niður við gólf inni í skáp þannig að ef ég ætla mér að horfa í gegn þá yrði ég liggja á gólfinu með hausinn inni í skápnum og það virðist ekki þægilegt. Ég hefði þá alla vega borað gatið annars staðar. Í öðru lagi, hér er orðið of kalt til þess að vinnumennirnir geti verið hálfnaktir og það er ekkert sérstaklega skemmtilegt að horfa á dúnklædda kalla byggja hús. Við þetta má bæta að vinnumennirnir sem eru hér núna eru aðrir en þeir sem voru hér í sumar, og þessir eru miklu ljótari. Ekkert gaman að horfa á þá. Annars sé ég þá næstum aldrei hvort eð er. Búið er að reysa húsið. Þeir eru að vinna inni!
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.10.2007 kl. 21:05
Ég verð bara að viðurkenna að ég man ekkert eftir þessu Osló-dæmi, amk mjög óljóst.. Svona er nú minnið orðið þegar ég er komin undir fertugt.. ;) Sendi annars skondna slóð hér á "heitasta" sjónvarpsatriðið í Noregi (og víðar) um þessar mundir, úr þætti sem heitir Rikets røst (Rut kannast nú við það), skvísan sem tekur viðtalið er aldeilis búin að fá sínar 15 mínútur í USA, komst m.a.s í Fox News ;) http://www.youtube.com/watch?v=a1iNH7W9SC8
Helga (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 21:28
Hahaha, þetta var fyndið. Takk fyrir hlekkinn.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.10.2007 kl. 00:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.