Um fótbolta og tölvuleiki

Þetta er fimmta árið mitt í fótboltanum og síðastliðin fjögur ár hafa flestir leikja okkar verið spilaðir klukkan tíu á laugardagsmorgnum. Það hefur stundum verið erfitt að vakna fyrir leik en gott að vera kominn heim rúmlega tólf og eiga alla helgina framundan. Í vetur hafa flestir leikja okkar verið settir á sunnudagseftirmiðdegi klukkan tvö. Maður fer því ekki neitt á undan leik og getur lítið gert eftir hann. Mér þykir þetta mjög óþægilegt og þótt það sé gott að sofa út myndi ég nú fremur velja laugardagsmorgna en sunnudagseftirmiðdegi.

Við lékum annars okkar þriðja leik í dag og unnum hann 3-0. Ég skoraði fyrstu tvö mörkin og hefði átt að eiga tvö þrjú í viðbót því ég fékk býsna mörg góð tækifæri. Sonya skoraði þriðja markið og það var gott því hún skorar ekki oft. Henni veitir ekki af að setja nokkur inn svo hún fái meira sjálfstraust. Við erum efstar í okkar riðli, þær einu sem hafa unnið alla leikina hingað til. Um næstu helgi eigum við að spila við North Shore Saints sem hefur alltaf verið þyrnir í augum okkar. Bæði af því að þær vinna okkur yfirleitt og vegna þess að þær eru tíkur sem spila óheiðarlega. Við þolum þær ekki.

Ég gerði annars mest lítið í dag. Vann reyndar svolítið að ritgerðinni minn - mér hefur miðað vel áfram að undanförnu. Horfði aðeins á sjónvarp (Law & Order:CI og Desparate Housewifes) og spilaði tölvuleik. Heroes of might and magic sem ég held að sé með skemmtilegri tölvuleikjum sem búnir hafa verið til. Þegar ég bjó í Winnpeg átti ég svona tröppuvél. Mér þótti ekkert sérlega gaman að nota hana og gerði það of sjaldan þar til ég uppgötvaði að ef ég setti fartölvuna mína uppá kommóðu og tröppuvélin fyrir framan þá gat ég spilað Heroes of might and magic og stundaði leikfimi á meðan. Einu sinni fór Tim á fund að kvöldi til og ég var á tröppuvélinni. Hann kom heim tveimur tímum síðar og ég var enn að. Besta leiðin til að fá hreyfingu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að það hljóti að vera ótrúlega gaman að vera í kringum þig, því sannarlega gæti ég hugsað mér að fara á knattspyrnuleik og hvetja vinkonu mína, eiga samt nær alla helgina eftir, horfa á sjónvarpsþætti og spila tölvuleiki. Gæti jafnvel tekið í tröppuvél við og við En að spila tölvuleik og stunda líkamsrækt ... það er eitthvað sem ég gæti held ég ekki, eða hvað? 

kveðjur frá Íslandi!  

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband