Um dvalarleyfi og framtíðina

Í morgun fékk ég póst frá kanadíska innflytjendaeftirlitinu þar sem þeir biðja mig um að senda passann minn og tvær ljósmyndir á skrifstofu þeirra í London. Þetta er væntanlega lokaáfanginn í  því að fá varanlegt dvalarleyfi í landinu. Mér skilst reyndar að fyrst fái ég bara einhvern pappírssnepil en svo komi kortið sjálft þar sem kemur fram að ég sé 'permanent resident'. Ef ég vil get ég svo sótt um ríkisborgararétt tveimur eftir tvö ár, nema ég verði þá þegar komin heim - þá gæti ég nefnilega misst öll þessi réttindi. Því vil ég helst vera hér áfram í nokkur ár í viðbót svo ég fái kanadísk réttindi og þá get ég komið og farið eins og mér sýnist. En ég viðurkenni að mig langar alltaf af og til að flytja heim. Hins vegar er ekki besti tíminn núna. Íbúðarverð á Íslandi er geðveikt og ég vil ekki fara heim og hokra einhvers staðar. Fremur vil ég bíða aðeins og vona að markaðurinn lagist. Þess vegna er ég að hugsa um að sækja um postdoc stöður fyrir næsta ár. Postdoc stöður eru tímabundnar kennslustöður og eru hugsaðar til þess að veita nýútskrifuðum doktorum tækifæri til þess að hafa lága kennsluskyldu og nota tímann til rannsókna, svo þeir geti aukið líkurnar á góðum háskólastöðum síðar. Ég mun ekki klára nógu snemma til þess að geta sótt um SHHRC styrk (þá þarf maður að vera búinn í apríl) en ég get hugsanlega sótt um Killam postdoc stöðu. Fjórar eru auglýstar við kanadíska háskóla í ár: í Calgary, Edmononton og Dalhousie í Halifax. Calgary og Dalhousie hljómar vel en ég vil síður búa í Edmonton. Finnst það ekki spennandi borg. Calgary er alla vega nálægt frábærum skíðasvæðum og Halifax er eins og lítil Reykjavík. Þar að auki er beint flug þangað frá Íslandi sem væri magnað. En bara tilhugsunin um að fara setur hnút í magann á mér. Ég vil ekki fara frá Vancouver. Ekki strax. Þetta er svo dásamlegur staður.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Svona er lífið Stína mín, alltaf verið að velja og hafna.

Láttu þér líða vel

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.10.2007 kl. 22:53

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Fróðlegt væri að vita, hvað t.d. 3ja herbergja íbúð kostar á góðum stað í Canada?

Júlíus Valsson, 20.10.2007 kl. 11:35

3 identicon

Stina min, vertu bara anaegd med ad vera med hnut i maganum yfir tilhugsuninni um ad thurfa ad fara fra Vancouver, thad thydir einfaldlega ad thar lidur ther vel og thar hefur thu att gott lif. Mer thaetti leidinlegra ad heyra ad thu gaetir ekki bedid eftir ad komast i burtu! Svo er thad onnur spurning hvort thu tharft ad fara edur ei...aldrei ad vita nema ad a naesta halfa ari dukki upp draumastada fyrir thig i Vancouver!!

Rut (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 12:56

4 Smámynd: Mummi Guð

Það er mikið til í þessu sem Rut segir.

Júlíus, ég væri meira forvitinn um hvað vextirnir eru háir á íbúðalánum í Kanada. Íbúðarverðið má vera töluvert hærra ef vextirnir eru eðlilegir.

Mummi Guð, 20.10.2007 kl. 13:01

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þegar ég bjó í Winnipeg fyrir nokkrum árum voru vinir mínir að kaupa sér hús með þremur til fjórum svefnherbergjum, borðstofum, leikherbergjum og stórum kjöllurum á kannski fjórar og hálfa milljón (sem þá var verð á lítilli íbúð í Reykjavík.) Þá seldi kunningi minn risastóra húsið sitt í sömu borg og keypti sér litla tveggja herbergja íbúð í Vancouver fyrir peninginn. Vancouver var þá orðin mjög dýr og hefur farið hækkandi. Ég sá nýlega auglýstar íbúðir í blokk á þokkalegum stað þar sem íbúðirnar voru frá 24 milljónum upp í 50 milljónir króna. Litlu húsin í mínu hverfi eru öll meira og minna yfir 60 milljónir (get ekki ímyndað mér verð á stærri húsum og húsum með útsýni). Ástandið er þannig í borginni að ungt fólk hefur ekki efni á að kaupa sér í vesturhluta borgarinnar né í miðbænum. Það þarf að fara býsna austarlega, yfir í slömmin, til að hafa efni á íbúðum og flestir flytja í útverfin og eyða svo miklum peningum í að komast á milli staða. 

Um vexti veit ég í raun ekkert.

Rut, það að ég vil ekki fara frá borginni þýðir ekki endilega að mér líði svo frábærlega hér, því ég var miklu hamingjusamari í Winnipeg. Það hefur auðvitað meira með persónulega hluti að gera en borgina sjálfa. Ég held að málið sé að hluta til það að hér er svo margt frábært hægt að gera ef maður á pening og ég get lítið af því gert þar sem ég er fátækur námsmaður. ég held því að hluti ástæðunnar fyrir því að é´g vil ekki fara strax er sá að ég vildi gjarnan prófa að vinna hér í smá tíma og hafa efni á því að gera allt sem borgin býður upp á. Ég vildi geta farið oftar á skíði, leigt bát, farið á fleiri tónleika, farið oftar út að borða og á fínni staði, átt bíl svo ég geti farið í fjallgöngur eða í litlar ferðir til allra skemmtilegu staðanna í nágrenninu, o.s.frv. o.s.frv.

En hvað draumastöðuna snertir þá mun hún ekki verða til í Vancouver, það er nokkuð ljóst - nema áhugamál mín breytist. En eins og er vildi ég helst kenna í háskóla og staðan er sú að UBC mun ekki ráða í mínu fagi, og þótt þeir gerðu það þá myndu þeir ekki ráða fyrrum nemanda (ekki nógu mikil breidd að hafa fólkið sem maður kenndi sjálfur), SFU kæmi til greina en það er ekki draumastaður - ekki mjög gott fólk þar, litlu skólarnir hafa yfirleitt ekki málvísindadeildir. Sem sagt, verð að breyta markmiðinu ef ég vil vera hér áfram.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.10.2007 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband