Þetta gerðist bara ekki í Vancouver
20.10.2007 | 17:25
Þetta er nú ekki alveg rétt, nema Kópavogsbúar og Garðbæingar séu til í að vera sagðir í úthverfi Reykjavíkur. Þetta fólk fannst í Surrey sem er borg í nágrenni Vancouver - ekki úthverfi borgarinnar. Surrey er 317.4 ferkílómetrar að flatarmáli og þarna búa 394,976 manns, og borgin er þar með sú tólfta fjölmennasta í landinu (og Vancouver sú áttunda).
Við höfum alveg nóg af glæpum hér í Vancouver svo ekki sé verið að bæta á okkur glæpum þeirra yfir í Surrey.
Hér má sjá nánar um þetta.
Reyndar gerðist það líka í gær að flugvél flaug á blokk í Richmond sem er nágrannaborg okkar hér í suðri. Alþjóðlegi flugvöllur stórvancouversvæðisins er í Richmond og þessari Piper Seneca vél var hreinlega flogið inn í íbúð á sjöttu hæð. Flugmaðurinn lést og tveir íbúar íbúðarinnar voru fluttir á sjúkrahús. Enn er ekki vitað nákvæmlega hvað gerðist en vitni hafa lýst því þannig að vélinni hafi verið flogið á miklum hraða inn í íbúðahverfi og að hún hafi rétt misst af öðru fjölbýlishúsi áður en hún endaði inni í þessari íbúð. Margir sögðust hafa hugsað til ellefta september þegar þetta gerðist.
Sex fundust látin í kanadísku húsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
mbl er þó aðeins nær því en visir.is, þeir segja að þetta hafi verið í Toronto :o)
Birna (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 19:11
Hehe, kannski RUV hafi haft þetta rétt (ef þeir nenntu að segja frá því).
Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.10.2007 kl. 19:29
Í fréttum á Stöð2 í hádeginu var sagt frá þessu flugslysi og þar var sagt að það hefði gerst í Vancouver!!
Mummi Guð, 20.10.2007 kl. 19:46
Fyndið. Þeir líta greinilega á allar borgir í BC sem Vancouver.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.10.2007 kl. 23:01
Ég held nú að menn aðgreini yfirleitt ekki nágrannabæji, sem eru því sem næst samvaxnir, frá nærliggjandi borgum. Íslendingar sem búa í Nacka eða Botkyrkja segjast td. oftast búa í Stokkhólmi og þeir sem búa í Bærum telja sig margir hverjir vera íbúar í Ósló þó að þeir séu ekki einu sinni í sama fylkinu.
Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 19:04
Þetta er líka gert í sambandi við Seattle, ef það væri verið að segja frá einhverju sem gerst hafði í Bellevue eða Tacoma þá mundi það aldrei vera tíundað heldur bara sagt að þetta hefði gerst í Seattle!
Frakar asnalegt
Hrabba (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 19:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.