Um glæpaheima
25.10.2007 | 16:31
Eins og margir hafa kannski séð í fréttum um daginn þá fundust lík sex karlmanna í íbúðarblokk í Surrey (ekki Vancouver) fyrir skemmstu. Lögreglan varðist fyrst allra frétta en nú hefur komið í ljós að fjórir karlmannanna voru tengdir glæpastarsemi og tveir voru óvart á svæðinu. Annar hinna saklausu var viðgerðarmaður sem var þarna til að gera við gas-arinn, og hinn, rúmlega tvítugur maður, bjó í sömu blokk og hafði ætlað út í körfubolta en endaði einhvern veginn í dauðaíbúðinni. Hinir fjórir voru allir góðkunningjar lögreglunnar og hafa sérstaklega komið að krakk-kókaín málum.
Þessi óhugnarlegu morð hafa vakið mikla athygli á glæpastarfsemi á svæðinu, og Vancouver Province, dagblaðið sem ég fór nýlega að kaupa, hefur verið með rannsóknargreinar á hverjum degi þar sem undirheimar stórborgarsvæðisins eru skoðaðir. Þar sér maður að til er heimur sem fólk eins og ég hreinlega þekkir ekki. Þetta er heimur eiturlyfja, vændis og glæpastarfsemi. Hér eru stundaðir undirheimaklúbbar þar sem allt er vaðandi í eiturlyfjum, 'slömmlávarðar' leigja út gömul hálffallin hótelherbergi til hinna fátæku þar sem allt er vaðandi í skordýrum og ódaunninn er svo sterkur að lyktin næst ekki úr fötunum í marga daga. Fjöldi glæpagengja er yfir 100 og þeir hafa verið að plamma hver annan niður undanfarið. Og dömur veita þjónustu sína hverjum þeim sem getur borgað.
Það eina sem ég hef komist nálægt því að sjá, utan við allt heimilislausa fólkið sem betlar á götunum, er ástandið í lestinni á næturnar. Ég þarf ekki oft að taka lestina eftir miðnætti, sem betur fer, og þegar ég tek hana kem ég inn eða fer út á stóru stöðvunum þar sem skjól er í fjöldanum. Það er verra á minni stöðvum sem hafa séð margar árásirnar á undanförnum mánuðum. 56 ára gömul kona er nýkomin úr dái eftir að hafa verið fórnarlamb fólskulegrar árásar í vor. Ungur drengur var skotinn til bana og fjöldi annarra var rændur eða laminn á leið í lestina eða úr henni.
Eins og ég segi þá sé ég lítið af þessu enda sjaldan á ferðinni eftir miðnætti, og betlararnir á götunum eru þeir einu sem ég verð vör við. Ég bý líka í góðu hverfi þar sem fólk er tiltölulega vel sett og það er eins og við séum vernduð frá umhverfinu. Maður les um ástandið en verður annars lítið var við það. Og mér finnst ég yfirleitt nokkuð örugg, jafnvel á kvöldin. En ég fer helst ekki í austurhluta miðbæjarins ef ég kemst hjá því, og alls ekki eftir myrkur.
Athugasemdir
Yndislegt land sem þú ert að lýsa! -- Vona að þú sleppir heil heim.
Sigurður Hreiðar, 26.10.2007 kl. 14:04
Ég er bara að lýsa því ljótasta sem hér gerist. Það sama má finna í flestum löndum og yfirleitt verra. Glæpir hér í Kanada eru t.d. fremur smávægilegir miðað við nágranna okkar í suðri. Það er bara svo skrítið að vita til þess hvað gerist í undirheimum borga þegar maður sjálfur verður ekki mikið var við það. Reykjavík er svipuð hvað það snertir. Þ.e. fæstir verða vitni að því sem gerist á ákveðnum stöðum hjá ákveðnu fólki.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.10.2007 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.