Er líf eftir Superóva?

Netið hefur legið niðri hjá mér í allt kvöld (sennilega af því að ég var að brenna dvd disk og það tók ógurlegan tíma og mikið minni) svo ég hef ekkert getað bloggað.

Ég ætlaði auðvitað að skrifa um Supernova. Ég er ekkert sár yfir því að Magni vann. Hann var meðal fjögurra góðra tónlistarmanna og hvert þeirra sem var átti skilið að vinna.  Hins vegar var ég ekki sátt við hvernig þeir skildu við hann. Í fyrsta lagi, að honum skuli hafa verið gefið það að sök að hann var meira eins og hluti af bandinu en sem aðalmaðurinn. Hvað á það að þýða? Er það ekki gott mál þegar allir smella svo vel saman að allir eru jafnmikilvægir. Þar að auki hefði ég viljað sjá þá gefa honum góð orð í farteskið, eins og þeir gerðu við hina. Storm sem datt út í síðustu viku fékk miklu meira hól þegar þeir létu hana fara en Magni fékk. Það hefði verið skemmtilegra ef þeir hefðu hælt honum aðeins meira því hann á það skilið. Hann er alveg jafn góður og hin þrjú.

En ég hef lúmskt gaman af Lúkasi og ég veit hvað verður á forsíðu kanadísku blaðanna á morgun. Á það skal líka benda að sá sem vann Rockstar Inxs var líka kanadískur. Kanadamenn er einfaldlega góðir tónlistarmenn og fólk veit oft ekki af því vegna þess að ef einhver slær í gegn vestra þá halda allir að þeir séu Bandaríkjamenn. En lítið bara á þessi nöfn: Bryan Adams, Backman-Turner-Overdrive, Barenaked Ladies (ég ætla á tónleika með þeim í febrúar - ef ég verð í Vancouver þá), Leonard Cohen, Celine Dion (Ok, margir hafa ekki hátt um það), The Guess Who, Diana Krall, Chantal Kreviazuk, Glenn Gould (frábær píanisti), K.D. Lang, Sarah McLachlan, Joni Mitchell, Alanis Morissette, Nickelback, Oscar Peterson (spyrjið bara mömmu um föstudagskvöld á Ríkissjónvarpinu með Oscari Peterson),  Robbie Robertson, Rush, Shania Twain (ég þoli hana ekki), The Tragically Hip (kannski eru þeir aðallega frægir í Kanada), Neil Young. Og það er allt fullt af frábærum tónlistarmönnum hér. Kannski verður Lúkas frægur -  með eða án Supernova.

Annars voru Áströlsku blöðin víst með fréttir af úrslitunum í Supernova þættinum þegar þeir vöknuðu á morgun (hehe - þeirra 14. sept., okkar eftirmiðdegi í dag). Sem er eiginlega fáránlegt því þá var ekki búið að sýna þáttinn neins staðar hér. Bein útsending hvað!

Og nú verð ég að finna mér eitthvað annað að blogga um. Af nógu verður líklega að taka. Ég á afmæli á morgun - nei í dag, það er komið fram yfir miðnætti. Þar að auki fæddist ég á Íslandi og þar er búiinn að vera 14. september í marga klukkutíma núna. Ég get sem sagt bloggað um það hvernig ég eldist með hverju árinu. Í næstu viku fer ég til Barcelona þar sem ég mun halda fyrirlestur á ráðstefnu. Þá verður hægt að blogga alveg helling. Nú og svo þarf ég endilega að skrifa um menntamál og hvernig Íslendingar eru á rangri leið. En það verður að bíða eitthvað.  



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband