Jarðskjálftar og þrumuveður

Þegar ég bjó í Reykjavík kom það iðulega fyrir að ég vaknaði nokkrum sekúndum fyrir jarðskjálfta. Það hlýtur að vera að einhverjar bylgjur hafi komið á undan skjálftanum sem vöktu mig. Alla vega átti ég það til að glaðvakna um miðja nótt og rétt náði að furða mig á því hvað hafði vakið mig þegar skjálftinn reið yfir.

Í nótt gerðist nokkuð svipað nema ekki vegna skjálfta. Ég glaðvaknaði allt í einu og lá þarna í myrkrinu og hlustaði á regnið bylja á húsinu í örfáar sekúndur þegar yfir reið þessi ógurlega þruma sem virtist hrista húsið. Og síðan ekki sögunni meir. Ég rölti fram á klósett fyrst ég var vöknuð, leit út um gluggann á hellidembuna fyrir utan en sá engar eldingar og heyrði engar fleiri þrumur.

Í Winnipeg voru þrumuveður mjög algengt, sérstaklega á heitum sumardögum. Þá áttum við Tim það til að draga gluggatjöldin vel frá herbergisglugganum og lágum svo upp í rúmi og horfðum á borgina lýsast upp. VIð vorum á elleftu hæð í borg með ekki mörgum háhýsum. Gluggarnir voru til suðurs og meira og minna eintóm einbýlishús eða þriggja hæða bloggir til suðurs. Það er svo skemmtilegt að horfa á þrumuveðrið á sléttunum. Himininn er svo stór og lýsist allur upp í svona veðrum. Maður sá æðarnar í eldingunni ótrúlega vel. Yfirleitt töldum við sekúndurnar á milli eldingarinnar og þrumunnar og gátum þannig séð hversu nálægt okkur veðrið var. Stundum kom þruma beint yfir blokkinni og hún titraði öll. Þá fannst okkur gaman.

Einu sinni vorum við að keyra heim frá Lethbridge í Alberta til Winnipeg og þegar við vorum nálægt Brandon, Manitoba sáum við þrumuveður beint suður af okkur. Það virtist fara á sama hraða og við þannig að í langan tíma gátum við horft á eldingarnar í suðrinu. Það var pínulítið erfitt fyrir Tim að keyra því þetta var svo fallegt. En algjörlega öruggt. Það er hins vegar ekki skemmtilegt að keyra inn í þrumuveður. Þrumuveður er eins og birnir. Frábært í fjarlægð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mer lidur alltaf eins og a jolunum thegar thad er thrumuvedur herna, hleyp ut og verd ad sja nokkur leiftur! Kannski vegna thess ad madur er ekki vanur thrumum fra Islandi. Eg man reyndar bara eftir thvi ad hafa sed thrumuvedur einu sinni heima. Thad var thegar eg var a fyrsta ari i haskolanum og vid stelpurnar sem eg leigdi med a Unnarstignum lagum med nefin klistrud uppvid gluggann sem sneri ad Akranesi og nutum thess ad sja thetta sjonarspil i fjarska. Annars er mer ekki vel vid ad vera uti i thrumuvedri. Eg lenti einusinni i thvi i Noregi ad vera ad hjola heim ur vinnunni thegar skall a thrumuvedur, thad var nu meira svona eins og ad halda jol i helviti. Mer fannst eldingum sla nidur allt i kringum mig og thad rigndi svo mikid ad eg vard blaut inn ad nyrum! Eg hjoladi eins og um sidustu metrana i tour de france vaeri ad raeda og gullverdlaunin i spilinu og vard fegin thegar eg komst heim an thess ad hafa fengid heilsars rafmagnseydslu storborgar i gegnum kroppinn a mer! 

Goda skemmtun svo a leiknum i kvold, hann verdur vonandi rafmagnadur! 

Rut (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband