Hvað er að gerast með mína menn?

Þangað til í gær hafði ég aðeins sé einn Canucks leik um ævina (með eigin augum, þ.e., ekki í gegnum sjónvarp) og það var 4-0 sigurleikur gegn Calgary í haust. En síðan þá hefur allt legið niður á við hjá Canucks og í gær töpuðu þeir sjötta heimaleik sínum. Skil ekki hvernig þetta er með þá, þeir hafa betra hlutfall í útileikjum en heima. Og nú hafa þeir tapað þremur leikjum meira en þeir hafa unnið og það hefur ekki gerst síðan 2002. Það eru því allir pirraðir og aðdáendur eru farnir að snúast gegn þeim. Ég skil reyndar ekki hvernig á því stendur. Áhorfendur eiga að standa með sínu liði þótt á móti blási og ég var virkilega hneyksluð þegar salurinn fór að púa á liðið í gær. Sérstaklega var púað á Roberto Luongo sem þó er mest elskaðasti leikmaður liðsins enda talinn besti markvörður í heimi af mörgum. Hann var hins vegar arfaslakur í gær og fékk á sig mörk úr fyrstu tveim skotunum í gær. Eins og myndin af videotron skjánum hérna sýnir þá skoraði Nashville úr fyrstu tveim skotum sínum að marki. Vancouver, hins vegar, sem ekki hefur gengið nógu vel að skjóta að marki það sem af er, hamraði á markið megnið af leiknum án nokkurs árangurs. Á myndinni hér hafa þeir skotið sjö sinnum að marki (þar sem stendur sog - shots on goal) og þau skot áttu eftir að komast á annan tuginn bara í fyrsta leikhluta. Allt í allt urðu skot að marki 29 á móti 15 hjá Nashville en staðan samt sem áður 0-3. Það var meira að segja svo slæmt að þegar Nashville skoraði þriðja markið þegar aðeins átta sekúndur voru eftir að leiknum, þá fagnaði salurinn. Fólki var greinilega misboðið.

En mér misbauð afstaða fólksins. Að púa á liðið þótt það tapi leik er skammarlegt. Að púa á liðið þótt þeir tapi nokkrum leikjum er skammarlegt. Maður á að standa með sínum mönnum, sérstaklega þegar aðeins um einn fimmti tímabilsins er liðinn. Margt getur enn gerst. Í fyrra gekk liðinu hrikalega illa fram að jólum en eftir jól settu þeir í spíttgírinn og enduðu á því að vinna norðvestur titilinn og komast í aðra umferð umspilsins um Stanley bikarinn. Þetta er langt frá því búið enn og fólk verður bara að hafa smá þolinmæði.

Auðvitað hefði ég viljað sjá þá vinna. Það er hreinlega miklu skemmtilegra að fara heim eftir sigurleik og andrúmsloftið í höllinni er gjörólíkt o.s.frv. En eins og ég segi, maður verður að reyna að vera jákvæður. Og mér fannst frábært að vera þarna.

Eins og sést hér á síðunni tók ég myndavélina mína með mér og tók myndir af svellinu. Var ákaflega ánægð með mitt 12x zoom enda hefði ég ekki getað náð neinum skemmtilegum myndum með gömlu vélinni. Bara ef ég ætti enn sterkari lensu eða ef ég hefði setið neðar. En hey, ég sá vel og skemmti mér vel (fyrir utan tapið) og það er pottþétt mögnuð skemmtun að fara á leik. 

Verst var að tveir varnarmanna Canucks meiddust í leiknum og báðir gætu verið fjarri góðu gamni í einhvern tíma. Kevin Bieksa lenti í samstuðu við Nashville leikmann og skauti hins skar djúpt inn í kálfavöðvann á honum. Síðast þegar ég heyrði var ekki vitað hversu alvarlegt þetta var en það leit illa út. Sami Salo sem var bara að leika sinn þriðja leik eftir meiðsli fékk pökk á milli auga og nefs og fékk djúpan skurð og var sendur á spítala. Óljóst með hann. Þetta þýðir að þrír af sex varnarmönnum liðsins munu ekki geta spilað á næstunni og það verður að kalla í varnarmann frá Manitoba að koma og spila með liðinu í Colarado í vikunni. Þvílík óheppni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vonandi fer þínum mönnum að ganga betur.

Íshokkí er allra meina bót (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 23:28

2 identicon

Þetta er ekki gott... en annars veit ég um lið sem hefur bara tapað einum leik af ellefu, hvernig væri að halda með því eins og ég geri??? :-) 

AuðurA (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 02:42

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk Íshokkí.

Auður mín, þínir menn taka þetta í vor. Og ég mun þá halda með þeim (nema þeir spili á móti Canucks) en þeir verða að vera þínir menn áfram því ég yfirgef ekki liðið mitt á ögurstundu. Þar að auki hef ég svo rosalegt álit á Vigneault að ég veit að hann mun ná að sparka þessum strákum í gang.

Bárður, Forsberg er hvergi eins og er. Samningurinn hans var liðinn og hann fór til Svíþjóðar að spila með landsliðinu (eftir að vera frá lengi vegna meiðsla) en tali er að að því loknu muni hann gera samning við eitthvert NHL lið. Ekki er talið ólíklegt að það verði Colarado Avalanche. Meira og minna öll liðin vilja fá hann og ég veit að Svíarnir í Canucks hafa lagt sitt af mörkum til að fá hann til liðs við okkur, en flestum þykir líklegra að hann fari til liðs sem á meiri möguleika á að vinna Stanley bikarinn. Við erum einfaldlega ekki í þeim hópi.

Nazzi er að verða gamall. Þetta er síðasta árið hans á samningi og margir hafa búist við að hann yrði frábær þar sem hann þarf að sanna sig, en hann hefur alls ekki byrjað vel. Er seinn til, hægur á skautum og hefur gert töluvert af mistökum. Inn á milli hafa komið flottir Naslund taktar en það er of sjaldan. Henrik og Daniel Sedin, tvíburarnir, eru frábærir leikmenn en hafa ekki gert mikið hingað til. Hafa ekki nema um níu stig hvor. Það er langt fyrir neðan þeirra getu. Aðrir Svíar í liðinu hafa heldur ekki verið svo góðir. Matthias Ohlund, varnarmaðurinn sterkur, hefur verið tiltölulega lélegur og Alexander Edler hefur verið OK. Svíaliðið hefur því ekki staðið sig svo frábærlega í vetur - ekki eins og í fyrra þar sem þeir voru magnaðir. Finninn Sami Salo hefur meira og minna verið meiddur en ungur Dani hefur verið sóttur frá Manitoba, Jannek Hansen, og hefur staðið sig þokklega þegar hann hefur spilað.

Gallinn er að nú eru átta leikmenn meiddir og ástandið er jafnvel verra en svo því nokkrir leikmenn varaliðsins Manitoba Moose eru líka meiddir og því erfitt að kalla menn frá þeim. Ekki gott ástand. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.11.2007 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband