Besta stjörnusýnin hingað til

Ég veit reyndar ekki hvað 'celebrety spotting' kallast á íslensku en 'stjörnusýn' verður að duga. Hér kemur sagan. Ég hringdi í Juliönnu í kvöld og þá var hún á leið í Richmond Centre verslunarmiðstöðina og spurði mig hvort ég gæti ekki hent mér upp í strætó og hitt hana þar. Tim, maðurinn hennar var í strákapartýi með vini sínum sem varð fertugur um daginn. Svo ég mætti Juliönnu en það tók sinn tíma svo klukkan var að nálgast átta þegar ég komst loks til Richmond. Og auðvitað var lokað klukkan níu. Julianna ætlaði þá að fara í Red Rock spilavítið þarna í Richmond og dró mig með. Ég hef aldrei farið í spilavíti áður og aldrei haft áhuga. Er ekki mikill gamblari. En ég fór með Juliönnu. Þar hittum við Tim og vini hans þrjá sem voru þarna komnir eftir go-cart og hlaðborð. Julianna er fjárhættuspilari og settist að einni vélinni sem byggð er á þáttunum The Munsters sem ég held við höfum aldrei séð á Íslandi. Alla vega, við sitjum þarna við vélina og skipumst á að ýta á takkann. Við unnum stundum og töpuðum stundum og ég held að þegar uppi er staðið höfum við tapað um 20 dollurum. Ég spilaði náttúrulega ekkert enda hef ég ekki efni á að spila upp á þessa fáu dollara sem ég á, en Juliönnu fannst skemmtilegra að ég tæki virkan þátt svo við gerðum þetta svona saman.

Og hér kemur að stjörnusýninni. Ég hef sagt frá því áður að ég hafi séð fræga fólkið en yfirleitt hef ég ekki orðið neitt sérlega spennt því oftast eru þetta smástjörnur sem mér er nokk sama um (nema þegar ég sá Janet Wright úr Corner Gas). Að þessu sinni sá ég leikara sem skiptir öllu meira máli. Hann er skoskur leikari sem ég kynntist um leið og ég flutti til Kanada því hann lék Mr. Vicks í þáttunum um Drew Carey. Eftir það sá ég hann í nokkrum bíómyndum og hef alltaf lagt mig fram eftir því að sjá allt það sem hann gerir. Nú síðast fékk hann svo starf sem umsjónarmaður þáttarins The Late Late Show á CBS. Ég sé hins vegar aldrei þessa þætti því þeir byrja ekki fyrr en um eitt eða tvö á næturnar.

Ef þið vitið ekki enn hver þetta er þá mun nafnið ekkert hjálpa ykkur en hann heitir Craig Ferguson og það er hann sem er á myndinni hér á síðunni. Magnaður grínisti og hann var einmitt með uppistand í spilavítinu þetta kvöld. Ég hefði þekkt hann strax þótt ég hefði ekki vitað það, en það var ferlega gaman að sjá hann þarna. Hann labbaði nokkrum sinnum fram hjá okkur og einu sinni stóð hann næstum því við hliðina á Jóhönnu þegar einhverjar kerlingar stoppuðu hann til að lýsa yfir hrifningu sinni. Ég sagði ekki neitt enda finnst mér að fræga fólkið eigi að fá að vera í friði, en það var gaman að sjá hann þarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Íha, hunk of a man.  Ómæómæ.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.11.2007 kl. 09:01

2 identicon

Aldrei heyrt á hann minnst. En hann er voða sætur

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 11:40

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ójá, hann er mjög aðlaðandi. Og býsna vel á sig kominn miðað við það sem ég sá í gær. Svolítið farinn að grána en það er nú oft bara betra. Auður, leigu þér bresku myndina Saving Grace með Brendu Blethyn í aðalhlutverki. Dásamleg mynd um nýlega ekkju sem skellir sér í marijúana framleiðslu til að reyna að bjarga sveitasetri sínu. Þetta er án efa þekktasta bíómyndin með Craig Ferguson. Hann leikur hitt aðalhlutverkið, garðyrkjumanninn hennar. Aðrar góðar myndir með honum eru Born Romantic og The Big Tease. Báðar mjög skemmtilegar myndir.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.11.2007 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband