Málverksýning og útisigur
4.11.2007 | 07:08
Ég fór á opnun málverkasýningar í dag. Listamaðurinn er Heidi Maddess, fyrrverandi nemandi minn í íslensku hér í Vancouver. Sýning á verkum hennar opnaði í New Westminster í dag og eru öll verkin unnin á Íslandi eða undir íslenskum áhrifum og sýna íslenska náttúru. Margar myndanna voru alveg rosalega flottar.
Ég hef ekki séð hana síðan við sáum Björk á tónleikum hér í sumar og við tölum alltaf um að við þurfum að hittast oftar en svo verður aldrei neitt úr því. En við höldum alltaf sambandi samt sem áður og hún býður mér alltaf á opnanir sýninga sinna.
Það tók reyndar stóran hluta dagsins að fara þetta. Ég lagði af stað á sýninguna um þrjú leytið og var ekki komin heim fyrr en klukkan sjö, þrátt fyrir að hafa varla stoppað nema um hálftíma eða fjörutíu mínútur á sýningunni. Þetta er spölur að ferðast og hjálpar ekki til að strætó gengur sjaldnar á laugardögum.
Ég kom tímalega heim til að horfa á leik Vancouver við Colarado Avalanche sem leikinn var í Denver. Colarado var ósigrað á heimavelli og Vancouver liðið búið að missa 50% varnarmanna sinna í meiðsli. Það var því ljóst að þetta yrði uppávið. Reyndar var ég ekki sannfærð um að það væri svo slæmt að missa þessa leikmenn. Liðinu hefur ekki gengið sem skyldi og margir orðnir neikvæðir. Ég taldi því mögulegt að ungu strákarnir úr Manitoba gætu komið með neistann sem á þyrfti að halda. Það reyndist rétt og bæði Luc Bourdon, Alexander Edler og Jannik Hansen eru allt ungir strákar um tvítugt með takmarkaða reynslu í efstu deild en þeir spiluðu frábærlega. Vigneault lék líka snilldarleik þegar hann setti Naslund á línu með tvíburunum (Svíalínan) og þessir þrír frábæru leikmenn sem allir hafa spilað langt undir getu í haust, náðu svona frábærlega saman að þeir skoruðu og lögðu upp þrjú af fjórum mörkum liðsins í 4-3 sigri. Hann er búinn að breyta stöðugt um línur í allt haust í von um að finna sigurlínuna en það er alveg sama hver hefur spilað með tvíbbunum, ekkert hefur almennilega fengið þá til að smella í gang. Fyrir leikinn í kvöld voru þeir sameiginlega með níu stig (mörk og stoðsendingar) en fengu sex í leiknum í kvöld. Loksins mátti sjá Vancouver spila eins frábærlega og þeir gerðu eftir jólin í fyrra. Á fimmtudaginn spila þeir í Calgary og svo á föstudag spila þeir aftur við Colarado nema á heimavelli. Ég mun sjá þann leik og það er reyndar leikurinn sem ég keypti upphaflega miða á (leikurinn á fimmtudaginn var aukaleikur fyrir mig af því að ég fékk miða á hálfvirði). Ég vona að þeir sigri þar því ég mun ábyggilega ekki hafa efni á að fara á fleiri leiki í vetur, nema aftur verði boðið upp á miða á hálfvirði.
Núna ætla ég að fara að sofa því ég spila leik á morgun (í fótbolta) á móti United Tigers og það er vissara fyrir okkur að vinna þann leik ef við viljum halda okkur í toppbaráttunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.