Að fá far hjá löggunni

Hér í gamla daga fékk ég oft far hjá lögreglu. Var hins vegar aldrei drukkin þegar þannig bar undir (enda aldrei drukkin). Í þessum tilfellum var yfirleitt um að ræða lögregluna á Ísafirði og skutlið oftast upp fjallið í skíðaskála þeirra Ísfirðinga.

Þegar keppt var á skíðamótum á Ísafirði gistum við alltaf í skíðaskálanum uppi í fjallinu og þangað gengu ekki mjög reglulegar rútuferðir. Því var það svo að ef við krakkarnir vildum skreppa niður í bæ var ekki um annað að ræða en að labba eða húkka far. Það var svo sem ekki mikið tiltökumál að rölta þetta niður brekkuna en gangan var löng til baka og þá áttum við það til að stoppa lögregluna og biðja hana að skutla okkur upp í fjallið. Þetta var yfirleitt ekki vandamál og Ísafjarðarlögreglan einstaklega væn. Ég man eftir því að einu sinni þurftu þeir fyrst að sinna einhverju erindi í nýjasta hverfi bæjarins (nálægt flugvellinum) og þá hrúguðu þeir okkur krökkunum bara inn í bílinn og tóku okkur með þangað áður en þeir brunuðu upp í fjall. Þessir menn voru alltaf yndislegir og komu virkilega vel fram við okkur. 

Lögreglan á Sigló var ekki eins skemmtileg. Einu sinni sem oftar gistum við inni á Dal (þáverandi skíðasvæði Siglufjarðar sem síðar varð fyrir snjóflóði) og það var líka býsna langt að ganga. Þetta var á skíðalandsmóti og við höfðum öll skellt okkur á einhvern skemmtistað undir lok keppninnar. Það hafði enginn efni á leigubíl (ef það eru einhverjir leigubílar á Sigló) og fólk var of þreytt til að labba alla leið inn á Dal. Við sáum hins vegar lögreglubíl sem búið var að leggja og báðum þá um að skutla okkur frameftir. Þeir héldu nú ekki. Sögðust of uppteknir. Það sem þeir voru að gera var að fylgjast með pöbb bæjarins ef ske kynni að einhver kæmi fullur út. Það fannst okkur nú ekki merkilegt og gátum ekki séð að allt færi úr skorðum ef þeir skutluðu okkur þetta en þeim var ekki haggað. Við fengum að lokum far með gömlum manni á rússajeppa. 


mbl.is Vildi fá far með lögreglunni til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hin Hliðin

Sérstakt þetta íslenska viðhorf að halda að lögreglan sé með ókeypis leigubílaþjónustu.

Hin Hliðin, 4.11.2007 kl. 16:49

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég held ekki að neinn haldi það. Annars hefur þessi fulli kannski haldið það. En sagan úr fortíðinni sem ég var að segja frá var bara saga af fimmtán ára gömlum krökkum sem áttu enga peninga og báðu lögregluna um smáaðstoð. Og yfirleitt var tekið vel í það. Við urðum kannski fúl við Siglufjarðarlögregluna en vorum ekki með neitt vesen og fórum og húkkuðum annað far. Ekki misskilja það sem ég segi.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.11.2007 kl. 16:59

3 identicon

mér finnst það nú í góðu lagi að lögreglan sýni smá hjálpsemi út á landi þar sem engir leigubílar eru til staðar. Lögreglan á að mínu mati ekki bara að gera mönnum erfitt fyrir heldur mætti hún hjálpa til öðru hverju.

Egill (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 22:22

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Vel sagt Egill.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.11.2007 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband