Klukkubreyting

Ég man aldrei eftir helvítis klukkubreytingunni. Það er alveg sama hversu oft ég heyri um það hvenær klukkunni verður breytt, þegar að deginum kemur man ég ekki neitt og stundum lendi ég í vandræðum út af þessu. Á haustinn er það reyndar ekki mikið vandamál því þá eru klukkurnar færðar aftur og það eina sem ég missti við það að breyta ekki klukkunni í gærkvöld var klukkutíma svefn. Ég stillti vekjaraklukkuna á átta og hún hringdi á réttum tíma, nema hvað þá var klukkan bara sjö. Ég sem hefði haft svo gott af því að sofa klukkutíma lengur.

Á vorin getur þetta valdið meiri vandræðum því þá er klukkan færð fram og maður mætir of seint á staði. Einu sinni náði ég að gleyma breytingunni svo kyrfilega að það var komið fram á mánudag þegar klukkan náði í skottið á mér. Þá bjó ég í Winnipeg og klukkunni hafði verið breytt á sunnudegi að vori, eins og alltaf, og ég hafði ekki gert neitt á sunnudeginum sem krafðist þess að maður mætti á ákveðnum tíma. Kennsla var búin og ég mætti því bara í vinnu þegar mér hentaði og enn krafðist þess ekkert að ég væri á neinum ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Það var því ekki fyrr en á mánudagskvöldinu að klukkan skipti máli. Þá var kóræfing í Skandinavíukórnum og ég var vön að keyra á æfingar og grípa Gígju Sigurðar með mér. Í þetta skiptið hringdi hún í mig tæpum klukkutíma fyrir æfingu (hélt ég) og spurði hvort ég væri á leiðinni. Ég sagðist vera að borða morgunverð en ég kæmi fljótlega að sækja hana. Ætlaði að fara að tygja mig af stað svona korteri seinna. Hún benti mér á að það væru aðeins tíu mínútur þar til æfing hefðist og ég kom af fjöllum. Leit á klukkuna og sagði nei nei, það væri rúmur klukkutími þangað til. Ég varð auðvitað að hendast út í bíl, keyra á fullu til Gígju og rjúka síðan á æfingu þangað sem við komum alla vega fimmtán mínútum of seint.

En það að klikka á klukkunni hefur ekki breytt neinu því ég man enn aldrei eftir því þegar henni er breytt. Í morgun kom ég við á Facebook eftir að ég skoðaði tölvupóstinn minn og sá þá að einn vinkona mín hafði sett inn eitthvað um það hversu ánægð hún væri með það að geta sofið klukkutíma lengur. Þá leit ég  á klukkuna á tölvunni sem breytist sjálfkrafa og allt í einu mundi ég hvað gerðist í nótt. En í staðinn fékk ég lengri tíma til að lesa morgunblaðið (the Province, ekki Moggann) og fann tíma til að blogga. Það er svo sem ekkert til að kvarta yfir. Og hvað er líka að því að vakna klukkan sjö á sunnudagsmorgni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þú ert aldeilis ekki ein um þessa ómeðvitund. Ég var einu sinni stödd á hóteli í Tallinn þessa helgi - mjög meðvituð um klukkubreytinguna - og hringdi í gestamóttökuna upp úr miðnætti til að spyrja hvenær klukkunni yrði breytt um nóttina. Gestamóttakan kom ofan af hæstu fjöllum og þóttist ekkert við þetta kannast. Síðan sáum við samt klukkuna á sjónvarpinu tikka 03:00 og  næst 02:01 eða eitthvað í þá veruna.

Berglind Steinsdóttir, 4.11.2007 kl. 19:07

2 identicon

úff ég var ekkert smá stressuð þegar klukkan breyttist í sumartíma núna síðast í London ... var nefninlega að fara í flug daginn eftir ... þá langar mann ekki til að klikka á tímanum!! 

Hrabba (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 20:31

3 identicon

Mikið kannast ég við þetta. Ég hélt reyndar ég væri nú alveg búin að læra á þetta eftir að búa í Bandaríkjunum í sex ár. Fyrsta sunnudag eftir Halloween (31. október) breytist klukkan yfir í vetrartíma og maður græðir klukkutíma. Man reyndar aldrei eftir dagsetningunni á vorin, en ég var með haustbreytinguna á hreinu.... hélt ég...

En ég hef aldrei áður verið búsett til lengri tíma á meginlandi Evrópu fyrr en nú og nú er ég sem sagt búin að komast að því að í Evrópu á tímabreytingin sér stað viku fyrr.. Og ég var einmitt að fara í lest og flug og alles þennan dag fyrir viku. Sem betur fer var frænkan sem ég var í heimsókn hjá betur upplýst en ég þannig að ég naut þess að lúra aðeins lengur, frekar en rífa mig upp og bíða aukaklukkutíma á lestarstöðinni 

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 21:29

4 identicon

You are not alone Stina!! Vid tokum klukkubreytinguna med stael i ar. A laugardeginum var Oscar svo sallarolegur um hadegisbil ad eg akvad ad breyta klukkunni hja honum degi of snemma. Beid med hadegismatinn i klukkutima (og otrulegt en satt tha saetti hann sig alveg vid thad), og eftir thad var klukkubreytingin afar einfold fyrir hann. Um kvoldid stillti eg strax simann minn (sem eg nota sem klukku) a vetrartima og thannig gat eg stadfest thad ad morguninn eftir vaknadi Oscar a sinum venjulega tima, um half atta, en a vetrartima. Mer fannst vid aldeilis hafa stadid okkur vel i thessu, og vid getum sagt, so far so good. Um morguninn hafdi eg svo i ymsu ad stussa heima en their fedgar foru ut ad labba. Thegar their komu heim var klukkan 11.50, svo eg skellti matnum fyrir Oscar a bordid og svo var matast. Um 12.45 (vid erum med thyskan heraga a barninu) var hann svo settur i rumid ad sofa. Vid foreldrarnir bordudum svo eftirmatinn okkar, kveiktum a sjonvarpinu og aetludum ad sja frettirnar klukkan eitt. En thad var tha bara eitthvad skripaprogram i sjonvarpinu...! Thad gat ekki verid ad Rai vaeri farid ad breyta aldagamalli hefd um frettatima svo thetta gat bara thytt eitt...klukkan var bara 12!!!! Vid rifum Oscar ur ruminu...hann var sem betur fer enn ad leika ser og ekkert a theim buxunum ad sofna (enda ekkert threyttur enn, klukkan bara 12) og tokst ad vidhalda vetrartimanum hja honum thratt fyrir thetta hlidarspor!!! En semsagt Stina, thu ert ekki ein!

Rut (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 07:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband