Hinn sanni James Bond - William Stephenson
5.11.2007 | 02:58
Ég var að horfa á heimildamyndina 'The True Intrepit' sem fjallar um leyniþjónustumanninn William Stephenson, sem var fyrirmynd Ians Flemings af James Bond. Það er ekki víst að allir Íslendingar viti að William þessi var sonur Guðfinnu Jónsdóttur frá Íslandi og William Hunger Stanger frá Orkneyum, en var frá þriggja ára aldri alinn upp af Vigfúsi og Kristínu Stephenson, í Winnipeg, Manitoba. Það má því segja að James Bond hafi verið íslenskur, rétt eins og Mjallhvít.
Fyrir nokkrum árum þegar ég bjó í Winnipeg hjólaði ég um Íslendingasvæðið í Winnipeg og tók myndir af öllum húsunum sem ég vissi að tengdust íslenskri sögu. Þar á meðal var húsið þar sem William Stephenson ólst upp. Þá var ég tiltölulega nýbúin að heyra af honum og sögu hans. Til eru a.m.k. tvær bækur sem fjalla um líf Williams, en samkvæmt þessum sjónvarpsþætti er margt rangt sem þar eru fjallað um.
Þessi mynd var almennt mjög athyglisverð og þar er skýrt frá hlutverki Williams í síðari heimsstyrjöldinni, og hlutverki hans sem aðalmannsins í leyniþjónustu Bandaríkjanna. Sagt var að J. Edgar Hoover hafi ekki verið mjög hrifinn af honum, enda átti hann það víst til að sveigja reglur eftir hentugleika. Þarna er því meira að segja haldið fram að Stephenson og hans menn hafi falsað upplýsingar sem þeir síðar gáfu Bandaríkjamönnum (þá unnu þeir fyrir Breta) og þessar upplýsingar áttu stóran þátt í því að Bandaríkin skelltu sér að lokum í stríðið.
Ef ekki er búið að sýna þessa heimildamynd í íslensku sjónvarpi þá mæli ég eindregið með því að það verði gert.
Athugasemdir
"The True Intrepid" mun bókin heita.
ESG (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 09:00
Já, önnur bókin heitir það (og ég tek eftir að ég víxlaði stöfum þegar ég upphaflega skrifðai intrepid). Hin bókin heitir A Man Called Intrepid.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.11.2007 kl. 16:38
Jæja? Það er þá engin ný uppfinning að falsa upplýsingar til að blekkja Bandaríkjamenn í stríð! Það óvenjulega við þetta mál var kannski að einhverjir aðrir en Kanarnir sjálfir fölsuðu upplýsingarnar.
Kveðjur til Könödu
Matthías
Ár & síð, 5.11.2007 kl. 21:39
Ég væri til í að sjá þessa mynd ... spurning um að hvernig þrýstir maður á stöðvarnar hér til að gera það???
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 01:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.