Frábær leikur í kvöld

Í kvöld fór ég að sjá Vancouver Canucks spila á móti Colarado Avalance. Þetta var annar leikur liðanna í ár og Vancouver vann fyrri leikinn 4-3 í Denver um síðustu helgi. Það var fyrsti leikurinn sem Colorado tapaði á heimavelli. Vancouver hefur ekki gengið sem skildi og sérstaklega átt erfitt með að vinna heima. Aðeins einn heimasigur í höfn það sem af er. Ég skrifaði um það um daginn hversu arfaslakir þeir voru gegn jafn arfaslöku liði Nashville, en í kvöld var annað upp á teningnum.

Canucks mættu til leiks um leið of flautað var (í stað þess að horfa á eins og stundum) og áttu frábæran leik fyrstu tvo leikhlutana. Þeir spiluðu svo vel á tímabili að jafnvel Vigneault var farinn að brosa á bekknum og hann er nú ekki vanur að sýna tilfinningar á meðan leik stendur. En þetta var bara svo ánægjulegt. Liðið sem hefur leikið síðustu þrjá leiki er einfaldlega annað lið en lék fyrstu 13 leikina. Miklu meiri harka, miklu meiri agi, miklu meiri vilji til þess að sigra.

Í byrjun annars leikhluta skoraði Svíinn Henrik Sedin fyrsta mark leiksins. Henrik er ekki vanur að skora. Það er tvíburabróðir hans Daniel sem vanalega setur pökkinn í netið, vanalega eftir sendingu frá Henrik. Því er talað um þá þannig að Daniel skorar en Henrik á stoðsendingarnar. Þetta mark var reyndar umdeilt því Henrik lyfti kylfunni í loft upp og sló háan pökk í netið. Sumir vildu meina að kylfan hafi verið of hátt uppi en eftir að hafa skoðað markið frá öllum sjónarhornum benti dómarinn á miðjuna í tákn um að þetta hafi verið mark. Það var líka eins gott því stuttu áður hafði löglegt mark verið flautað af þeim vegna fljótfærni dómara sem hélt að markmaður hefði pökkinn og flautaði sekúndubroti áður en honum var skotið inn. Ef síðara markið var ekki löglegt þá bætti það alla vega upp fyrir fyrra markið sem svo sannarlega var það.

Í lok annars leikhluta braut Daniel Sedin á einum Colorado manni og fékk tveggja mínútna brottvísun. Hann byrjaði því í boxinu þegar þriðji leikhluti hófst og þetta nýtti sér Liles hjá Colorado og jafnaði metin. Eftir það komst Colorado meir inn í leikinn og mannfjöldinn var farinn að ókyrrast. En Vancouver vaknaði aftur og þeir börðust eins og ljón síðustu mínúturnar áður en leiktíminn rann út.

Jafntefli eru ekki leyfð í hokkí og því er það svo að þegar jafnt er eftir venjulegan leiktíma er leikið áfram í fimm mínútur en svo er farið í vítakeppni. Til þess kom ekki því þegar um tvær mínútur voru liðnar af framlengingunni hamraði Henrik Sedin pökkinn í netið og sigurinn var okkar. Ég öskraði hærra en ég hélt ég gæti og stökk upp í loftið eins og vitleysingur. Þetta voru bara viðbrögðin við spennunni sem hafði ríkt allan tímann. Doug, maðurinn hennar Rosemary hafði orð á því að Henrik og Daniel hlytu að hafa skipt um treyju því Henrik skorar ekki oft og að hann skuli skora tvö í einum leik...hljómar miklu meira eins og Daniel. En þetta var greinilega dagur Henriks.

Það var ánægður hópur sem fór heim úr höllinni eftir þennan langþráða heimasigur.

Þess má líka geta að þótt Vancouver hafi ekki staðið sig sem skildi það sem af er (átta sigrar og átta töp) þá hafa þeir unnið alla sex leikina gegn liðunum í norðvesturriðlinum (sem þeir leika í og sem þeir unnu síðasta ár). Næstu fimm leikir verða líka innan norðvesturriðilsins og það er vonandi að þeir haldi áfram á sömu braut. Fyrir leikinn í kvöld voru þeir í fjórða sæti af fimm í riðlinum, aðeins Edmonton hefur staðið sig verr. Með sigrinum í kvöld komust þeir upp fyrir Calgary en Colorado og Minnesota hafa staðið sig mun betur - hafa 20 stig á meðan Canucks hefur aðeins 16.

En þetta er allt að koma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Jájá, hann er löngu farinn. Honum var ekki vært hér eftir það sem hann gerði. Við seldum hann til Florida og fengum Luongo í staðinn - frábær kaup. Honum gekk ekki vel þar svo Florida seldi hann til Anaheim og hann hefur staðið sig betur þar. Spurning hvort hann berji fleiri.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.11.2007 kl. 02:21

2 identicon

Það var brotið blað í íslenskri íshokkísögu í október þegar Rúv sýndi beint frá leik SR og Bjarnarins. Rúv sá meira að segja sóma sinn í að senda þetta út á netinu svo þetta barst hingað inn í stofu í Ottawa. Bara vonandi að íshokkí fái meiri athygli heima því þetta er alveg fáránlega skemmtileg íþrótt.
Ég horfði á Ottawa-Montreal í gær, Montreal voru 1-0 yfir langt fram í síðasta leikhluta og hélt að mínir menn væru að fara að tapa tveimur leikjum í röð (eitthvað sem gerðist bara síðast einhvern tímann í fyrndinni). En Senatorarnir skoruðu 3 mörk á síðustu mínútunum. Snillingar.

AuðurA (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 17:11

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Bárður. Takk kærlega fyrir hrósið. Gaman að heyra að einhver les hokkífærslurnar. Fæstir Íslendingar hafa áhuga á hokkí (sem er synd því þetta er frábær íþrótt) og það eru því ekki margir sem nenna að lesa þegar ég skrifa um þessa ástríðu mína. Ég skrifa því fyrir sjálfa mig en það er samt gaman að sjá að einhver hefur skemmtun af. Vildi að ég gæti skrifað oftar um rokktónleika og hokkí frá eigin reynslu en þessa stundina á ég enga miða á neitt.

Ég er sammála því að ofbeldið er of mikið í leiknum en þeir eru að reyna að taka á því. Ég ár voru reglur til dæmis hertar til muna og því höfum við séð fleiri brottvísanir undanfarið en áður var. Vonandi er að deildin haldi áfram á sömu braut og taki harðar á brotum. Gallinn er að hinn meðalaðdáandi (sem yfirleitt er fremur heimskur bjórdrekkandi karlmaður í netabol) hefur meira gaman af slagsmálunum en fallegum hreyfingum með pökkinn. Þetta lið ætti bara að horfa á ultimte fighting.

Auður, láttu mig vita ef þú fréttir af öðrum leik beint á netinu. Sérstaklega ef þeir sýna eitthvað með SA.

Ég horfði á hluta af Ottawa-Montreal leiknum og legnst af spilaði Montreal miklu betur. Ég veit ekki hvort það er af því að Ottawa vantar Jason Spezza (sem ég varð að lokum að selja á Facebook því hann hefur misst svo marga leiki) eða hvað. Nema allt í einu setur Ottawa í sinn venjulega gír og Alfredson er hreint dásamlegur. Hæfileikarnir hjá Ottawa eru óumdeilanlegir og skapið á réttum stað  því bara það að koma svona til baka eftir að vera undir allan tímann er ótrúlegt. Ég veit að sumir hafa áhyggjur af því að Ottawa er ekki með nógu margar línur sem skora en ég vona að hæfileikar þeirra sem geta það séu nógir. Ég veit að Vancouver mun ekki vinna bikarinn í ár og því vona ég svo sannarlega að það verði Ottawa. Frábært lið sem öllum líkar vel við. Hef ekki enn hitt neinn sem þolir ekki Ottawa, en öll önnur kandísk lið hafa einhvern sem hatar þá - sérstaklega Toronto. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.11.2007 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband