Snarvitlaust veður
12.11.2007 | 19:59
Veðrið var brjálað hér í nótt og enn gnauðar í vindinum. Rok og rigning svo húsið hristist. Ég er ekki enn búin að heyra fréttir svo ég veit ekki hvort eitthvað svipað gerðist og í fyrra þegar þúsundir trjáa brotnuðu á einni nóttu. Talið er að veðurkerfið hafi breyst vegna mengunar í Asíu og þegar vonskuveðrin gerði í fyrra sögðu veðurfræðingar að Vancouver mætti eiga von á slíkum stormum núna árlega og þeir gætu jafnvel farið versnandi - jafnvel svo að þeir næðu yfir Klettafjöllin og myndu einnig skella sér yfir slétturnar. Um daginn voru greinar í blöðum um það við hverju fólk má búast og hvað allir þurfa að eiga ef illa fer. Þar er fyrst og fremst um að ræða langtíma rafmagnsleysi en einnig er mögulegt að vatnsból spillist eins og í fyrra og því þarf maður að eiga birgðir af vatni. Ég á það aldrei enda bíllaus og erfitt að birgja sig upp, nema að fara margar ferðir. En ég ætti auðvitað að eiga nokkra brúsa inni í skáp því það var ömurlegt í fyrra þegar maður varð að sjóða allt drykkjarvatn og svo varð vatnið flatt og ógeðslegt. Ég drakk allt of lítið vatn á því tímabili.
En ég vona það besta. Vona að rafmagn haldist og að vatnsbólin séu óhult. Svo framarlega sem það er í lagi má vindurinn gnauða.
Mér þykir reyndar rétt að taka hér fram að veðrið í nótt var ekkert verra en týpískur stormur á Íslandi. Maður hefði ekki kippt sér upp við svona veður heima og það er helst að maður hefði misst af skíðaferð því fjallið hefði verið lokað. Munurinn er fyrst og fremst sá að hér liggja allar rafmagnsleiðslur ofanjarðar og það þarf því ekki mörg fallin tré til þess að rafmagnið fari af (og tréin eru alls staðar) og vatnsbólið er einnig ofanjarðar og spillist mjög auðveldlega. Því veldur svona veður einfaldlega meiri vandræðum hér en á Íslandi. Og í öðru lagi þá er svona veður mjög sjaldgæft hér. Ég hef búið í Vancouver í fjögur ár og það var ekki fyrr en í fyrra sem við fengum svona storm eins og þann sem olli sem mestum usla.
Athugasemdir
Vonandi hafið þið komist klakklaust frá þessu, þ.e. "no damages" á fólki eða eignum. Elska veðurham svo fremi hann skemmi ekki eða meiði. Það er svo notalegt að sitja inni og hlusta á veðrið. Ég veit að það er ekki alveg í lagi með mig, en ég er fædd í janúar, skiluru.
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.11.2007 kl. 20:45
Já, við megum vera þakklát fyrir vatnið og rafmagnið hér á Íslandi en hér er rok og rigning. Ég er eins og Jenný að mér líður vel í veðurham en ef von er á vondu veðri þá líður mér best ef ég þarf ekki að fara út og ísskápurinn er fullur af mat. Ég held að það sé allt í lagi með mig en ég er fædd í júlí.
En ég vona að það fari að lægja hjá þér og hafðu það gott
Þóra Sigurðardóttir, 12.11.2007 kl. 23:00
Það voru allir að tala um þetta í vinnunni hjá mér daginn eftir, kúnnar og starfsfólk...ég svaf hinsvegar eins og barn og varð ekki vör við neitt- enda á neðstu hæð. Það voru meiraðsegja nokkrir kúnnar sem voru svo móðursjúkir að þeir keyptu gasluktir og neyðarbúnað fyrir storminn...til að vera við öllu búnir he he. Horfði á veðurfréttirnar hérna í gær og fannst hálf skondið hvað er gert mikið "veður" úr þessum annars hressandi stormi...komandi frá Íslandi. Þó ekki nema furða að þetta valdi ursla þegar stoðirnar undir rafmagnslínurnar eru ekki sterkari en ræfilslegir trjádrumbar og húsin úr spónaplötum og timbri. Skál & vona að þú sért að hressast. Kveðja frá Maple/L
Lína (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 08:22
Málið er að fólk hér er almennt verr undirbúið undir svo margt sem við eigum að venjast heima. Ég var til dæmis algjörlega hneyksluð þegar ég upplifði minn fyrsta snjóstorm hér í Vancouver og meira og minna allt lokaðist. Almenningssamgöngur lögðust af o.s.frv. Þetta var varla nema föl á jörðinni. En svo fór ég að hgusa málið og fór að hugsa um það að hér er enginn á vetrardekkjum, hvað þá nagladekkjum, og borgin er byggð á mörgum hæðum. Hálkan var alveg ógurlega og ekki nokkur leið að fara niður sumar brekkurnar (eða upp) án þess að valda slysi. Það var sem sagt ekki svo að fólk væri fast í sköflum heldur var það hálkan sem stoppaði allt. Þannig er það líka með þessa storma. Þeir gerðu lítinn usla á Íslandi en hér þar sem risastór tré geta fallið og lagst ofan á hús (jafnvel best byggðu húsin þola ekki þunga stærstu trjánna) er öðru máli að gegna. Ég er ekki hissa þá viðskipti hafi aukist hjá þér. Ástandið var nú ekki skemmtilegt hér í fyrra þegar ið máttum búa við bæði rafmagnsleysi og vatnsleysi í þó nokkurn tíma.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.11.2007 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.