Um jólaköttinn, Kurt Wallander og manninn sem brosti
14.11.2007 | 08:19
Ég er öll að skríða saman. Enda eins gott. Ég þurfti út í Íslendingahús í dag að kenna. Þetta var næstsíðasti íslenskutími vetrarins. Í næstu viku ætlum við að hafa jólatíma og þá mun ég segja þeim frá íslensku jólasveinunum. Kannski ég kenni þeim vísuna um jólasveinana eða kannski Grýlukvæði. Annars er ég alltaf fremur hrifin af laginu um jólaköttinn. Sérstaklega þegar Björk söng það. Kannski ég taki með mér geislaspilara og spili það.
Eftir að hálsbólgan breyttist í kvef var eins og allur máttur væri úr mér dreginn. Ég veit ekki af hverju ég held þokkalegum kröftum á meðan ég er með verk í hálsinum en er eins og drusla þegar bakterían fer í nefið. Í gær og í fyrradag lá ég mest uppi í rúmi og svaf eða las, eða þá ég skreið fram í stofu og horfði á sjónvarp. Sem betur fer var ég nýbúin að fá mér bókina The man who smiled eftir Henning Mankell þannig að það var bara notalegt að skríða upp í rúm. Ég elska Wallander. Ég er svo sorgmædd yfir því að Mankell er hættur að skrifa um hann. Skrítið annars með ensku þýðinguna á bókunum hans. The man who smiled er held ég fimmta bókin í röðinni en var bara þýdd núna í ár og er nýkomin út í kilju. Það er töluvert síðan bækurnar þar á eftir komu. Ég las í vor t.d. bókina þar sem Linda dóttir Kurts er orðin lögreglukona. Hef ekki hugmynd um af hverju þessi bók var ekki þýdd á réttum stað í röðinni.
Hefur annars einhver annar tekið eftir því hversu Erlendur hans Arnalds er líkur honum Kurt Wallander?
Athugasemdir
Sæl og blessuð Kanadabúi. Ég er búin að vera að ræða það að mér finnst Wallander og Erlendur sláandi líkir og teymið í kringum þá líka. RÚV hefur undanfarið verið að sýna myndir eftir sögum Mankell. Mér finnst Mankell frábær höfundur hann hefur skrifað að ég held 10 sögur um Wallander en þær hafa ekki allar komið út á íslensku. Bókin sem þú ert að lesa núna er mjög góð. Bestu kveðjur til þín og láttu þér batna Ingigerður á Fróni.
Ingigerður Friðgeirsdóttir, 14.11.2007 kl. 20:13
Já, bækurnar eru tíu ef maður telur með smásagnasafnið. Ég hef ekki lesið Sjöwall og Wahlöö. Hef reynt að fá bækurnar þeirra hér í Kanada en það hefur ekki gengið mjög vel. Man að þessar bækur voru þýddar á íslensku fyrir löngu því ég man alltaf eftir því hversu hrikalega Ívar bróðir mömmu hló við lestur einnar þeirra þegar við vorum öll í sumarbústað í Öxarfirðinum þegar ég var sirka þrettán ára.
Ég er búin að lesa bókina um dansmeistarann - það er bókin um hann Stefán sem síðar varð kærasti Lindu. Ég las þá bók í vor eða síðastliðinn vetur. Allar þessar bækur eru nú komnar út á ensku nema smásagnasafnið. Að auki tvær bækur Mankells sem ekku eru glæpasögur - Djúpið og ein önnur (man ekki hvað sú heitir). Frábærar bækur.
Þetta með líkindi Wallenders og Erlends (og þá eins karakterins hjá Sjöwall og Wahlöö). Þeir eiga líka margt sameiginlegt með Inspector Morse. Alla vega tónlistarsmekkinn og einsemdina. Ef ég væri bókmennafræðingur myndi ég skella mér í úttekt á einmana óperuelskandi lögreglumönnum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.11.2007 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.