Íþróttahelgi

Þetta verður sannkölluð íþróttahelgi hjá mér ef marka má plönin.

Helgin hefst hjá mér opinberlega eftir hálftíma þegar hefst í sjónvarpinu leikur Vancouver og Minnesota Wilds. Minnesota er næst fyrir ofan Vancouver í riðlinum með nokkuð fleiri stig og þetta ætti því að verða nokkuð erfiður leikur. Reyndar eru tveir eða þrír leikmenn Minnesota meiddir en við erum auðvitað enn með hálft varnarliðið okkar á bekknum með alls konar meiðsl þannig að það gagnast ekki mikið. Þá unnu Minnesota Wilds Edmonton í gær en við töpuðum fyrir þeim á miðvikudaginn. Vonandi eru þeir þreyttir.

Í fyrramálið mun ég sjálf reima á mig takkaskóna og leika á PNE leikvanginum gegn Vancouver Geckos. Þær eru sex stigum á eftir okkur með einungs tvo sigra og eitt jafntefli og vilja ábyggilega hefna ósigursins gegn okkur fyrr í haust. En við höfum nú annað í huga. Við erum nú í þriðja sæti, aðeins tveimur stigum á eftir fyrstu tvö liðunum (sem eru jöfn) og höfum spilað jafnmarga leiki og liðið í fyrsta sæti en tveimur leikjum færra en liðið í öðru sæti. Við getum því skotið okkur upp í fyrsta eða annað sæti með sigri á morgun. Og að sjálfsögðu er það stefnan.

Eftir hádegi á morgun fer ég svo í skautatíma númer tvö. Mér gekk vel síðast en tel þó að strákurinn sem kenndi okkur ætti ekki að vera leyft að kenna svona tíma. Hann gerði sama og ekkert. Sagði manni bara að skauta afturábak eða stoppa og sýndi aldrei hvernig ætti að gera það. Á þessum þrjátíu mínútum sem ég var þarna kom hann aldrei til mín til að segja mér til. Ég geri ráð fyrir að ég hafi þá bara verið að gera allt rétt en þætti samt vissara að fá staðfestingu á því. Svona var þetta líka þegar ég lærði á snjóbretti á sínum tíma. Maður varð svona hálfpartinn að finna út úr þessu sjálfur.

Á sunnudaginn ætla ég svo á leik í kanadíska fótboltanum. Það er í annað skiptið á ævinni. Ég fór fyrir einum sex árum á leik BC Lions og Winnipeg Blue Bombers þar sem ég hélt að sjálf sögðu með Blue Bombers enda í Winnipeg. Ég mun nú fá annað tækifæri til þess að hvetja BC ljónin áfram því að þessu sinni spila þau gegn Saskatchewan Rough Riders. Saskatchewan hefur gengið vel í sumar og þetta verður því erfiður leikur. Það er hins vegar mjög mikilvægt að vinna þennan leik því sigurvegarinn mun leika til úrslita um Gráa bikarinn (The Gray Cup). BC vann í fyrra og ætlar sér að hampa bikarnum aftur í ár. Við skulum vona það besta.

Og nú ætla ég að búa mér til kjúklingapítu og hreiðra svo um mig fyrir framan sjónvarpið því hokkíið fer að byrja. Ég krossa fingurna í von um sigur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband