Hokkí, Bjólfskviða og stórkostleg grínleikkona

Ó hvað það var gaman að horfa á hokkí í kvöld. Vancouver tók á móti Anaheim, núverandi Stanleymeisturum, og hreinlega rúlluðu þeim upp ... 4-0. Todd Bertuzzi kom og spilaði hér í fyrsta skipti síðan honum var skipt fyrir Roberto Luongo í fyrra en setti ekki mark sitt á leikinn. Og hann höfuðkúpubraut engan. Leikmenn Anaheim urðu ótrúlega pirraðir í öðrum leikhluta þegar þeir lentu undir og þeir fóru að spila óheiðarlega og uppskáru 16 brottvísanir í síðustu tveim leikhlutunum. Helmingur marka Vancouver kom þegar þeir spiluðu fimm á móti fjórum þannig að þessar brottvísanir voru Anaheim dýrar. Skemmtilegast var þegar seint í síðasta leikhluta brutust út almenn slagsmál þar sem flestir sem á svellinu voru lentu í stimpingum. Hinn risastóri kanadíski varnarmaður Anaheim, Chris Pronger, greip þá tvo Canucks, hvorn í sína hönd og datt mér í hug: Tekið hef ég hvolpa tvo - hvað skal við þá gera. Pronger var annars óvinsælasti leikmaður kvöldsins eftir að hann hrinti Kesler í svellið þegar Kesler fagnaði marki. Eftir það var púað á Pronger í hvert sinn sem hann snerti pökkinn. Ég held hann hafi bara haft gaman af því. Ég er lúmskt hrifin af Pronger.

Vancouer tryggði sér fyrsta sætið í norðvestur riðlinum en hafa spilað fleiri leiki en Colorado sem er í öðru sæti. Á fimmtudaginn spila þeir á móti Columbus Blue Jackets og þann leik ætla ég að fara á.

Í dag fór ég í bíó að sjá Bjólfskviðu. Michael Feld, vinur okkar Tims frá Winnipeg bauð mér í hádegisverð og bíó á eftir. Hann og Kitty kona hans fluttu hingað til Vancouver þegar þau fóru á eftirlaun. Michael er fyrrum heimspekiprófessor og mjög sérstakur náungi. Ég held að það séu liðin tvö ár síðan hann bauð mér á þessa mynd því hann gerði það eftir að hafa séð Bjólfskviðu Sturlu Gunnarssonar.

 Ég varð fyrir vonbrigðum með myndina. Reyndar ekki miklum því ég bjóst ekki við að hún væri sérlega góð. Mér fannstatriðin með Grendel virkilega grótesk og ég leit yfirleitt undan þegar hann var sýndur. Hljóðin í honum voru líka ógurleg og minntu mig á hljóðin á fljúgandi skepnunum í Hringadróttinsögu. Mér fannst Angelina Joli ömurleg (sorry Doddi) og sagan varð mjög undarleg í síðari hluta. Samkvæmt því sem Michael segir, sem hefur lesið Bjólfskviðu, fylgdi fyrri hlutinn sögunni nokkuð vel en sá síðari alls ekki. Það langbesta við myndina var skrokkurinn á Ray Winstone sem leikur Beowulf.
 

Hápunktur bíóferðarinnar var í röðinni að miðasölunni. Fyrir framan okkur (reyndar einn náungi á milli) var engin önnur en Jane Lynch sem er frægust fyrir að vera í grínhópnum sem leikur í öllum Christopher Guest myndunum. Þetta eru myndirnar Best in Show (ein af mínum uppáhaldsmyndum), A mighty wind, Waiting for Guffman og For your consideration. Þessar myndir eru allar gerðar í heimildamyndastílnum og yfirleitt er ekkert handrit notað heldur bulla leikararnir bara eitthvað. Alveg magnaðar myndir. En Jane Lynch hefur ekki bara leikið í Christopher Guest myndunum. Hún hefur leikið í yfir hundrað myndum og sjónvarpsþáttum, m.a. Two and a half men The new adventures of old Christine, The L word Boston legal, Criminal minds, Talladega Nights: The Ballad of Ricky Bobby, Desperate Housewives, CSI, Veronica Mars, Friends, Arrested Development, Monk, NYPD Blue, 7th Heaven og ekki má gleyma 40 year old virgin. Þar leikur hún yfirmann Steve Carell - þá sem segir honum að hún sé alveg til í að taka frá honum sveindóminn. Hann þurfi bara að nefna það. Alla vega, ég er alveg viss um að þið hafið öll séð hana. Þegar ég kom út af Bjólfskviðu kom hún út af myndinum sem hún hafði farið að sjá og brosti til mín. Alltaf gaman að sjá stjörnurnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég á enn eftir að sjá Beowulf, og kem til með að gera það. En Angelina ömurleg?? No worries, don't be sorry, ég hef heyrt þennan áður frá mörgum öðrum. Ég öfunda þig samt smá yfir því að hafa hitt Jane Lynch... hún er nefnilega svo frábær, ferlega fyndin. Brostirðu ekki örugglega til baka?

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband