Um dauðarefsingar og framsal fanga á dauðadeild

Dauðarefsing er ekki lögleg í Kanada og er engin umræða um að breyta því. Hins vegar hefur ein breyting verið gerð sem tengist dauðarefsingum. Hingað til hafa kanadísk stjórnvöld gert allt sem í þeirra valdi er til þess að fá heim kanadíska fanga sem sitja á dauðadeildum annarra landa. Þetta kostar auðvitað alveg óhugnanlegan pening en hefur þótt réttlætanlegt þar sem þeir hafa ekki viljað sætta sig við það að kanadískir ríkisborgarar verði teknir af lífi af stjórnvöldum annarra landa.

Nú hefur lögunum hins vegar verið breytt þannig að ekki verði farið fram á að fá fanga heim frá lýðræðislöndum þar sem sannað þykir að fanginn hafi fengið sanngjörn réttarhöld. Það þýðir t.d. að ekki er beðið um heimsendingu fanga frá Bandaríkjunum, þar sem dauðarefsing ríkir í fjölmörgum fylkjum. Reyndar segja þeir að þetta sé ekki undantekningarlaust og að hvert mál verði skoðað fyrir sig. Þykir hins vegar ljóst að fjöldamorðingjar munu fá að taka út sína refsingu. 

Þetta er mjög umdeild ákvörðun hér í landi og berjast ákveðnir hópar við að fá þessa breytingu tekna til baka.

Sjálf er ég ekki viss um það hvað mér finnst. Ég er á móti dauðarefsingum en mér finnst ekki endilega sjálfsagt að Kanada standi í því að fá heim kanadíska glæpamenn sem hafa brotið af sér erlendis. Það kostar mikinn pening og þann pening mætti nota í að bæta réttarkerfið heimafyrir. Mér finnst líka að ef þú brýtur lög í ríki eða landi þar sem dauðarefsing ríkir þá eigir þú ekki endilega rétt á því að heimaland þitt standi að baki þér. En af því að ég er á móti dauðarefsingum almennt þá finnst mér líka að ríki eigi að reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk sé tekið af lífi. Kannski les ég eitthvað eða heyri eitthvað sem hjálpar mér að taka afstöðu, en eins og er veit ég ekki hvað ég á að halda.

Það er annað mál í réttarkerfinu sem fær mig til að hugsa. Nú er ljúka réttarhöldum yfir svínabóndanum Robert Picton sem er sakaður um að hafa drepið 26 konur hér nálægt Vancouver. Kviðdómur er að störfum. Að þessu sinni var Picton aðeins ásakaður um morð á sex þessa kvenna en aðstandendum hinna 20 hefur alltaf verið lofað öðru réttarhaldi. Nú hefur þetta réttarhald hins vegar staðið yfir í heilt ár og hefur kostað skattgreiðendur marga milljarða. Það er því spurning um það hvort það borgi sig að saksækja Picton fyrir morðin sem eftir eru - þ.e. ef hann fær lífstíðardóm fyrir þessi fyrstu sex. Aðstandendum kvennanna finnst hins vegar að þeirra konur fái ekki réttlæti ef hann er ekki saksóttur fyrir öll morðin. Ég veit það ekki. Ef hann er á bak við lás og slá það sem eftir er ævinnar, er það ekki réttlæti fyrir allar konurnar...sama hverjar þeirra voru tilteknar í dómnum? Ég skil aðstandendurna en ég skil líka stjórnvöld. Það mætti taka þessa peninga og bæta hag þeirra kvenna sem búa í austurhluta miðborgarinnar, en öll fórnarlömb Pictons voru gleðikonur úr því hverfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mummi Guð

Góð grein hjá þér.

Þar sem þú talar um að ríkið eigi ekki endilega að standa að baki þeim sem brjóta af sér í landi þar sem dauðarefsing er leyfð. Þá vil ég taka undir það og segi líka að það eigi ekki bara við lönd þar sem dauðarefsingar eru leyfðar. Ef þú brýtur af þér í einhverju landi og færð sanngjörn réttarhöld, þá áttu að taka út þína refsingu samkvæmt þeim lögum.

Ég nefni þetta þar sem fyrir örfáum árum (eða mánuðum) þá var ungur Íslendingur tekinn fyrir að smygla eiturlyfjum til Brasilíu. Hann fékk sanngjarnan dóm, en þurfti að sitja af sér í brasilísku fangelsi sem þykir ekki mannsæmandi. Þegar aðstandendur mannsins höfðu tekist að vekja samúð með honum á Íslandi og fengið yfirvöld til að reyna fá hann framseldan, þá er annar Íslendingur tekinn fyrir eiturlyfjasmygl í Brasilíu. Það á ekki að eltast við alla glæpamenn og gera þeim lífið auðveldara, Þó þeir voru svo óheppnir að lenda í því að vera teknir í Brasilíu. Menn verða að bera ábyrgð á gjörðum sínum, þó þeir séu glæpamenn.

Mummi Guð, 5.12.2007 kl. 09:23

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, þetta er svolítið svipað og það sem mér finnst. Fólk á náttúrulega ekkert að vera að brjóta af sér.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.12.2007 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband