Að hittast eða að hittast ekki
7.12.2007 | 16:42
Það sem ég vil helst fá að vita er hvers vegna Íslendingar eru allt í einu farnir að 'hittast'? Ég tók eftir þessu þegar ég var heima um jólin í fyrra og leit í slúðursíður blaðanna - þar voru hinir og þessir farnir að 'hittast'. Fólk virðist ekki vera saman lengur. Ég skil ekki af hverju þessi notkun þykir allt í einu nauðsynleg. Íslendingar hafa átt í ástarsamböndum í rúm þúsund ár og höfum við haft ágætis orð fyrir það. Nú þarf allt í einu að fara að nota orð sem þýða í raun allt annað. Ég hitti vini mína t.d. oft, bæði karla og konur, og vil helst ekki að það sé skilið þannig að ég sé að 'hitta' allt þetta lið.
Kannski er hér verið að reyna að koma með eitthvað svipað og það sem í enskunni kallast 'to date', að deita, en það er nú svo óskilgreint hugtak líka að það er engin ástæða til að reyna að komast því á. Fyrir tveim árum fór ég t.d. á tvö stefnumót með manni áður en okkur var báðum ljóst að þarna var engin framtíð, en ég komst að því síðar að við hefðum 'deitað'. Það sagði hann. Ég hélt við hefðum bara farið tvisvar í kaffi. Sama orðatiltæki var notað af fyrrverandi kærasta mínum þegar við vorum búin að vera saman í sex mánuði. Mér fannst ástæða til þess að halda þessu aðskildu og nota eitt orð um það ef maður fer á örfá stefnumót og annað ef maður er kominn í samband, þótt það sé kannski ekki orðið mjög alvarlegt ennþá.
Þetta með hittinginn virðist svipað. Ég tók einmitt eftir því í blöðunum þarna um jólin að fólk virtist vera að hittast ef sést hafði til þeirra tvisvar á veitingastað, og það virtist vera að hittast ef það var búið að vera saman í tvo mánuði. Ekki það sama að mínu mati. Og almennt ljótt að nota þetta orð á þennan hátt. Minnir mig á þegar mamma spurði mig einu sinni hvort ákveðin stelpa 'ætti vin'. Ég vissi vel að hún meinti hvort hún ætti kærasta, en ég ákvað að þykjast ekki skilja því ég sá enga ástæðu til þess að tala ekki beint út. Held ég hafi sagt mömmu að hún ætti fullt af vinum, en engan kærasta.
Og ef þetta fólk í fréttinni var áður saman og er nú byrjað saman að nýju, af hverju segir gaurinn að þau séu farin að hittast aftur?
Ég tek það fram að þótt ég hafi bara tekið eftir þessari hittings-notkun í fyrra þá getur auðvitað vel verið að þessi hún hafi verið orðin algeng löngu áður; en þegar ég flutti frá Íslandi 1999 þá man ég ekki eftir að hafa heyrt þetta.
Og almennt nenni ég ekki að æsa mig yfir þróun tungumálsins, en mér leiðist svona málbreytingar alveg ógurlega.
Fyrrum herra Ísland endurheimtir ástina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er alveg sammála þér hérna Stína, asnalegt og alveg ferlega tilgerðarlegt. Fólk er saman eða sundur, svo hittir maður vini sína og fjölskyldu og alla aðra sem maður á ekki í sambandi við. Jösses hvað það þarf að breyta öllum sköpuðum hlutum.
Þegar ég var á mínum "vera saman árum" þá var ekki til neitt sem heitir að deita, það var annaðhvort eða.
Ég er íhaldssöm.
Jenný Anna Baldursdóttir, 7.12.2007 kl. 17:20
Ég er nokkurn veginn sammála þér, það er alltaf svo óvíst hvort maður sé bara að „deita“/hittast eða hvort maður sé saman. Ég veit um nokkur tilfelli þar sem einn aðilinn í „sambandinu“ vissi ekki hvort þau væru saman eða hvort þau væru bara að deita, og var víst ekkert samræmi í frásögnum þeirra, þ.e. einn aðilinn sagði að þau væru bara að deita, en hinn aðilinn sagði að þau væru saman. Þó mér finnist persónulega ekkert að þessari skrefaskiptingu, finnst mér að fólk ætti að tjá sig meira við hvort annað og komast til botns í því hvort þau séu saman eða hvort þau sé bara að deita eða hittast.
Góð pæling hjá þér.
Guðjón Jónsson, 7.12.2007 kl. 18:21
Akkúrat Jenný. Guðjón, ég er alveg sammála. Fólk þarf að tala meira saman. Annars er ég sammála því að það er ekkert að skrefaskiptingunni, og það var einmitt mitt vandamál að fólk notar sömu orðin um mismunandi skref. Ég komst einmitt að því að 'dating' á ensku, og þessi íslenski hittingur virðist eiga við bæði samband og bara það að fara á einstaka stefnumót. Ég varð annars vitni að því um daginn þegar vinir mínir sem eru búnir að vera gift(ir; vinir karlkynsorð, þau, eitt af hvoru kyninu) í eitt ár voru ekki sammála um samband sitt á ákveðnu tími. Hún sagði að þau hefðu verið að 'casually dating' og hann benti á að hann hefði nánast búið hjá henni. Hún leit sem sagt þannig á að þetta hefði verið 'casually dating' af því að þau voru ekki búin að gera neinar skuldbindingar, en hann sá þetta meira eins og ég, að ef fólk er nánast alltaf saman þá er það í sambandi.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.12.2007 kl. 18:44
Nú er að verða komið ár síðan ég byrjaði að lesa Moggabloggið og mér finnst einhvern veginn að við höfum spjallað um þetta þá, Stína. Sögnin að „hitta“ ER ranglega notuð fyrir sögnina að kynnast. Þetta með að „hittast“ er af sama meiði. Þetta fullyrði ég, ræræræ. Fólk kynnist einhverjum í upphafi en hittist (eða hittir einhvern á kaffihúsi) eftir það.
Berglind Steinsdóttir, 7.12.2007 kl. 21:13
En Berglind, hér er ekki verið að nota sögnina í merkingunni að kynnast, heldur í sömu merkingu og 'dating' í ensku. Þ.e. þegar fólk er farið að vera saman, sofa saman, hanga saman öllum stundum, o.s.frv., en kallar það samt að 'hittast'. Þannig var það notað í þessari frétt. Par hafði hætt saman en var nú byrjað saman aftur, nema hvað náunginn sagði að þau væru farin að hittast aftur (ekki af tilviljun).
Og ég held að það sé rétt hjá þér að ég röflaði um þetta fyrir um ári. Líklega fyrir tæpu ári því ég held að það hafi verið heima á Íslandi í jólafríinu sem ég fór að skammast yfir þessu. Mundu bara, aldrei er góð vísa of oft kveðin!
Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.12.2007 kl. 22:46
Ég var ekki að kvarta ...
Berglind Steinsdóttir, 8.12.2007 kl. 15:03
Gott að "hitta" er ekki þýðing á "to hit". Og hver verður "þýðingin"/aðlögunin á "deit" (no.)? "Hittingurinn" minn, "hittingin" ef það er stelpa? Hmm ... Sögnin "að hitta" er ekki sérlega virk að upplagi meðan "to date" í þeirri merkingu sem hér um ræðir er það, kannski var hún það ekki áður, eða varð hún til í þessari merkingu?
Annars var ég í vikunni með námskeið um learning outcomes (sem menntamálaráðuneytið lætur kalla þekkingar- og hæfniviðmið) og assessment criteria (matsviðmið). Þar bar á góma gríðarlangan lista um virkar sagnir (active verbs) í ensku. Setningafræðin er mikilvægt hjálpartæki í námskrárfræðum.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.12.2007 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.