Starbucks klikkar ekki
7.12.2007 | 23:07
Ég hef átt erfitt með að festa mig við lærdóminn upp á síðkastið. Þar að hluta til vegna þess að ég hef þurft að standa í alls konar snatti - kaupa jólagjafir, koma þeim heim (það kostaði mig 5000 krónur að senda smá pakka heim - hafði sem betur fer komið sumu á Gunnar sem þurfti að skjótast heim um daginn), sinna bankamálum, sækjum um nýtt SIN númer (social insurance number - nokkurs konar kennitala - þurfti nýtt út af breyttri stöðu í landinu), o.s.frv. Aðalástæðan var samt ábyggilega bara sú að ég átti erfitt með að einbeita mér og lenti alltaf í því að lesa bara fréttir eða blogga eða eitthvað.
Ég hafði þrisvar sinnum á undanförnum tveim vikum reynt að fara á Starbucks að læra því veit að þar á ég auðveldara með að einbeita mér, en þar var alltaf fullt þegar ég kom svo ég endaði á að fara á önnur kaffihús, en endist bara aldrei eins lengi þar. Held það sé af því að kaffið er ekki eins gott. Í dag fannst mér ég hreinlega verða að komast inn á Starbucks svo ég þráaðist við þegar ég mætti á staðinn og sá allt fullt. Pantaði mér kaffi og ákvað að troða mér bara hjá einhverjum ef á þyrfti að halda. Akkúrat þegar kaffið kom losnaði uppáhaldssætið mitt svo ég skellti mér niður, tók upp tölvuna og fór að skrifa. Ég hafði pantaði mér piparköku latté (gingerbread latté) með dásamlegu kryddbragði og af því að ég borðaði rautt kjöt í gær var maginn nú fullur af járni og koffíni. Akkúrat það sem ég þarf til þess að komast af stað (ég er búin að vera í heilsuátaki í tvo mánuði og borðaði sama og ekkert kjöt á þeim tíma - var fyrir vikið allt of þreytt. Rosemary vinkona mín er fyrrum hjúkka og hún skipaði mér að fá mér rautt kjöt af og til. Annars borða ég mikið spínat - það virðist bara ekki duga).
En sem sagt, dagurinn hefur verið mjög góður það sem af er og ég skrifaði næstum því stanslaust í fjóra klukkutíma (sem er mikið þegar maður er að vinna að svona verkefni), náði að útskýra hluti sem ég þurfti að útskýra betur, breytti röð á ýmsu og bætti svo við texta. Kaflinn fór úr 20 síðum í 26. Myndi segja að ég væri þá sirka hálfnuð með hann.
Um eitt leytið var ég orðin svöng svo ég fékk mér samloku og hélt áfram að læra. Stuttu síðar fóru barristurnar á staðnum að bjóða upp á alls konar smakk. Þær komu með eggnog latté (mæli ekki með því - maður á bara að drekka eggnog eitt og sér), tertubita (sem var góður) og piparmyntu mokka úr hvítu súkkulaði (sem var hrikalega gott). Ég fór ekki heim fyrr en batteríið var hér um bil búið í tölvunni (hafði ekki sæti nálægt innstungu).
Ég ætla að reyna að vinna aðeins meira í dag en jafnvel þótt það klikki þá er ég ánægð.
P.S. Og Canucks unnu síðustu tvo leiki og eru nú einir í fyrsta sæti í norðvestur riðlinum (en Minnesota á einn leik til góða og getur jafnað aftur) og í öðru sæti í vesturdeildinni. Bara Detroit hefur staðið sig betur (og Detroit ætti náttúrulega að vera í austurdeildinni - ég meina, hafið þið sér hvar Michigan er á landakorti?)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.