Jólapakkar og fleira

Þetta var hinn mesti rólyndisdagur. Ég vaknaði snemma, tók mér góðan tíma í lestur morgunblaðsins (ekki þó moggans), setti súkkulaði á nokkrar smákökur, skaust með kökur til Rosemary sem er nýkomin úr uppskurði, fór svo á fund með Hotze, öðrum umsjónarkennara minna. Það var góður fundur og hann segir að ég sé á réttri leið. Ítrekaði líka að ég verð ekki að útskýra allt. Ég hef tilhneigingu til þess að verða pirruð ef ég á ekki svör við öllu.

 Eftir þann fund fór ég á kaffihús með Akimi sem er einn framherjanna í fótboltaliðinu mínu. Hún byrjaði með okkur í haust og er alveg fínasta manneskja. Ég fæ oft far með henni á leiki og æfingar og ég held við gætum orðið góðar vinkonur. Við erum líka á svipuðum aldri.

Á leiðinni heim af kaffihúsinu kom ég við á pósthúsinu að sækja pakka sem hafði verið sendur heim í gær en enginn var heima svo þeir fóru með hann aftur. Þetta var jólapakkinn frá mömmu og pabba, drekkhlaðinn jólagjöfum og súkkulaði. Ég er búin að vera að háma í mig fyllta konfektmola frá Nóa Siríusi. Er örugglega búin að bæta á mig þessum sjö kílóum sem ég var búin að missa. En svona í alvöru, mikið er konfektið frá Nóa Siríusi gott. Og mamma og pabbi eru algjörir snillingar því þau keyptu kassa sem hefur bara fylltu molana - uppáhaldið mitt. Þá eru þeir allir jafngóðir. Ég fékk líka Ópal og Tópas og lakkrís og Siríus rúsínusúkkulaði. Það eina sem þau klúðruðu var appelsínusúkkulaðið. Ég er svo hrifin af appelsínusuðusúkkulaði frá Mónu en fékk í stað þess appelsínurjómasúkkulaði frá Lindu. En þeim fyrirgefst þessi yfirsjón algjörlega því ég fékk allt annað sem mér líkar. Mikið er gott að eiga svona yndislega foreldra sem sjá til þess að maður fá það sem mann langar í. Ég veit líka að ég fæ enn meira nammi því tveimur dögum fyrr kom pakkinn frá Geira bróður og hann er alltaf svo rausnarlegur og sendir mér góðar gjafir og hann sendir líka alltaf nammi með að auki. Að þessu sinni var því pakkað inn en svona þokkalegt þukl kemur upp um slíkt.

Ég er ennþá algjört barn þegar kemur að jólagjöfum. Ég þarf alltaf að þukla pakkana og reyna að geta hvað er í þeim. Að þessu sinni var það reyndar ekki of erfitt. Þarna má finna bækur, geisladiska, lopapeysuvesti (OK, fattaði það ekki á þuklinu, mamma var búin að segja mér það) og svo tvo undarlega pakka sem ég get ekki alveg áttað mig á. Mig langar að opna þá strax en verð að stilla mig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Björgvin

Þekki svona pakka úr Þorpinu. Fékk heilmarga slíka á þessu tíu ára tímabili sem ég bjó í Þýskalandi. Rauður Opal og Tópas var á meðal þess sem var alger nauðsyn og svo reyndar Cocoa Puffs því slíkt er ekki hægt að kaupa í Þýskalandi.

Annars var ég að reyna að muna hér um daginn hvernig nammi hefði verið til sölu í litlu búðinni hjá Regin í Langholtinu. Fullyrti við krakkana mína að þar hefði ekki verið hægt að kaupa ,,Bland í poka" en mundi svo ekkert hvernig nammi var til sölu þar. En örugglega Tópas og Opal, Vallas og Jolly Cola, Síríus súkkulaðiræma ...

Pétur Björgvin, 15.12.2007 kl. 07:49

2 identicon

wtf! Regin í Langholtinu??? hmmm ég sem hélt að ég myndi eftir öllum sjoppum fyrr og síðar á "eyrinni" .... en greinilega ekki

Hrabba (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 15:54

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hrabba þú mátt ekki kalla þorpið eyrina. Við þorparar erum mjög viðkvæmir

En Reginn var ábyggilega ekki þarna lengur þegar þú varst að vaxa úr grasi. Ég var ekki nema krakki þegar búðinni var lokað.

Pétur, ég held að það hafi ekki verið hægt að kaupa bland í poka en það var hægt að fá kúlur og karmellur. Málið var auðvitað að maður átti aldrei neinn pening á þessum árum. Ég man að ef ég fór í búðina fyrir ömmu þá fékk ég borgað fyrir það sem samsvaraði einni karmellu. Einni! Og maður var bara ánægður með það. Held að margir krakkar í dag nenntu ekki að skreppa út í búð fyri eina karmellu. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.12.2007 kl. 17:16

4 Smámynd: Riddarinn

já ég er nú líklega svolítið frekur að skrifa þetta í athugasemda dálkinn þinn en ég var bara svo asskoti ánægður með hvað þú ert á sömu línu og ég með hann Robbie w. Allveg eins og úr mínum huga þetta með lögin hans og greinilega að þú ert með sama smekkinn fyrir bestu lögunum hans og ég.

Kannski ekki furðilegt því þetta eru einfaldlega lang lang bestu lögin hans og ef þú hefur ekki séð DVD diskinn hans fra tónleikunum í Knebworth þá ferð þú strax og þú getur og verslar hann eða downlodar honum og þú ert í himnaríki.I promish you that

Að horfa á þannann disk á stórum skjá með góðum græjum tæki ég fram fyrir að leggjast með gullfallegum kvennmanni og það eru nú ekki margir hlutir sem fengju mig til þess he he

Hey! ég og þú bloggvinir með de samme :) ég kann bara ekki að gera þaðferli svo ef þú kannt það þá endilega reddaðu málinu sem fyrst .pronto ....

Takk gott comment

RIDDARINN Eini sanni (ríður út í sólarlagið)

Riddarinn , 16.12.2007 kl. 00:56

5 identicon

já nei sko Stína "eyrin" er stutting á AkurEYRI ;) ... piff mundi nú aldrei detta til hugar að kalla ástkæra þorpið eyri ... aldrei ;)

Hrabba (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 14:05

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Svo er það Vesturbakkinn sem hvorki tilheyri Eyri, Þorpi, Brekku né Innbæ

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 16.12.2007 kl. 21:05

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Riddari, sendi bloggvinabeiðni á þig. Ég las fyrir nokkrum árum bók um Robbie. Þetta var alveg þrælgóð bók og mjög athyglisverð. Merkilegt líf sem þessir tónlistarmenn lifa.

Hrabba, ég skil. Fyrir mér þýðir 'eyrin' alltaf Oddeyrin. Kannski af því að maður talaði alltaf um að fara niður á eyri.

Ingólfur, hvar er Vesturbakkinn?

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.12.2007 kl. 04:55

8 identicon

Tek undir með þér Kristín ... fyrir mér er "eyrin" alltaf Oddeyrin.

En annars er alltaf gaman að fá pakka, maður verður svo skemmtilegt barn í sér stundum og mér finnst yndislegt að halda í þá tilfinningu.

Annars ert þú ein af mínum jólasveinum þetta árið (þú átt alla vega eitt af skemmtilegustu sörpræsunum hjá mér!), og ég veit að þú átt marga góða að, en ef þú einhvern tíma vildir fá einhverja sendingu frá Akureyri - þá er ég boðinn og búinn að senda þér. Ég býst fastlega við því að addressan þín sé aftan á umslaginu sem þú sendir mér. 

Ef þú ert til í að senda mér email-addressuna þína, þá máttu gjarnan senda póst á doddi.jonsson@vortex.is 

Annars sendi ég þér kærar kveðjur héðan úr Brekkugötunni (já, ég er kominn í vinnuna) og vona að þú hafir það gott. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 09:16

9 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Vesturbakki Glerár = hér um bil það sama og Giljahverfið. Á Vesturbakkanum(eða vesturbakkanum) eru svo mjólkurfernurnar (Mjólkurfernurnar?, sumt af því stúdentagarðar), og nokkru innar í hverfinu, í því miðju, eru mörg lík hús (sem eru frekar lítið fyndin þegar um þau er skrifað og þurfa að auki að vera í nf. flt. til að vera fyndin).

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 17.12.2007 kl. 11:14

10 identicon

Ég sem hélt að Vesturbakkinn væri fyrir botni Miðjarðarhafs... Greinilega orðið of langt síðan ég flutti frá Akureyri. En Eyrin er að sjálfsögðu niðri á Eyri (Oddeyri), hvar annars staðar?

Ég á það líka til að þukla pakka en ég myndi aldrei þora að segja frá því á bloggsíðu...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 09:08

11 identicon

heeh ok ok ég er skotin í kaf hérna ;) en ég er kalla nú oddeyrina alltaf eyrina en hmm já þetta með að kalla akureyri sem eyri er komið frá egilsstaðarbúa piff .. ég mun hætta þessu hér með ;)

en hmm foreldrar mínir búa sem sagt á Vesturbakkanum núna ;) og ég gerði það áður en ég flutti suður og á reyndar íbúð þar núna ... merkilegt heeh ætla að skjóta þessum að þeim þegar ég kem heim á föstudaginn :Þ 

Hrabba (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband