Tónlist ársins
18.12.2007 | 19:21
Það er svo skrítið að ég hef aldrei heillast mikið af söngkonum og það hafa vanalega verið karlmenn sem skipa efstu sæti vinsældarlista míns. Þegar ég lít til baka yfir síðustu mánuði verð ég hins vegar að segja að nokkrar stórkostlegar söngkonur hafa vinninginn þegar spilun er annars vegar. Þá er ég ekki endilega að segja að bestu plötur ársins komi frá konum heldur fyrst og fremst að ég uppgötvaði nokkrar frábærar söngkonur á árinu.
Ég ætla nú að eyða svolitlum tíma í að segja ykkur frá þessum söngkonum, þótt sjálfsagt komi hér lítið á óvart. Þessi stutti listi er ekki í neinni sérstakri röð.
Ane Brun. Ane Brunvall er norsk söngkona sem hefur verið að gefa út plötur síðan 2002. Ég heyrði fyrst í henni í auglýsingu í sjónvarpinu og varð svo heilluð af laginu að ég gafst ekki upp fyrr en ég fann út hver söng það. Hef síðan hlustað mikið á hana og er sérstaklega hrifin af lögunum Song nr. 6 (sem hún syngur með Kanadamanninum Ron Sexsmith - setti það lag í spilarann), Are they saying goodbye, To let myself go, Lift me (ásamt hljómsveitinni Madrugas). Þetta er mjög falleg og notaleg tónlist og erfitt að fá leið á henni.
Katie Melua. Ég kynntist Katie fyrst í gegnum moggann því ég las einhverja frétt um veru hennar á Íslandi og varð forvitin. Ég hafði aldrei heyrt minnst á hana áður og geri ráð fyrir að hún sé ekki mjög stór hér vestanhafs. Það er svo sem ekkert nýtt. Ég reyni yfirleitt að fylgjast með því sem er að gerast í Evrópu til að uppgötva tónlist sem ég heyrði annars ekkert. Ég hef t.d. tvisvar sinnum farið á tónleika með Muse í pínulitlum tónlistarsölum fyrir skít á priki af því að þeir hafa ekki náð að slá almennilega í gegn hér. Sama með Travis og fleiri bönd. Tónlist Melua er alveg stórkostleg og ég er ekki viss um hvaða lög ég ætti helst að nefna. Ég er reyndar mjög hrifin af Blame it on the moon, Thank you stars, Nine million bicycles og svo mörgum fleiri.
Feist. Feist er kanadísk söngkona sem ég kynntist fyrst á Bluesfest í Ottawa í fyrra. Martin, minn fyrrverandi, er mjög hrifinn af henni og dró mig á tónleika með henni. Ég man að það var á sama tíma og Great big sea var að spila á stóra sviðinu og mig langaði eiginlega meira að sjá þá en ákvað að hlusta á Martin sem gat ekki hætt að lofa þessa ungu söngkonu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum því hún var stórkostleg. En það var þó ekki fyrr en með nýja disknum hennar nú í ár, Reminder, sem ég virkilega sá hversu góð hún er. Það er erfitt að velja lög af Reminder en ég get sagt ykkur frá því að eftir að lagið 1234 var notað í auglýsingu fyrir iPod Nano sló Feist virkilega í gegn. Þetta er reyndar alls ekki besta lagið á disknum en reyndar er diskurinn allur mjög góður. Feist spilar líka reglulega með kanadísku hljómsveitinni Broken Social Scene sem er virkilega spennandi hljómsveit og þess virði að hlusta á. Í spilaranum hér til hliðar má heyra lagið La meme histoire úr myndinni Paris, je t'aime, en ég held að Feist syngi bara lagið - held að hún hafi ekki samið það.
Regina Spector. Ég heyrði fyrst í Reginu Spector hér á blogginu. Einhver bloggaði um hana og setti inn tóndæmi. Mér fannst hún strax frábær og fór að hlusta meira á hana. Ég hef reyndar ekki hlustað eins mikið á hana og fyrrnefndar konur en margt af því sem hún er að gera er samt sem áður frábært. Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hafði ekki heyrt í henni fyrr. Lagið Samson er t.d. alveg magnað.
Amy Winehouse. Mig langaði eiginlega ekkert að hlusta á Amy Winehouse því ég heyrði bara leiðinlegar fréttir af henni. En ég hef nú alltaf litið þannig á að maður megi ekki láta listamennina skyggja á listina (annars hefði ég aldrei hlustað á t.d. Oasis) svo ég tékkaði á henni og var að segja að hún er að gera alveeg frábæra hluti. Raddbeitingin minnir stundum of mikið á Pink (ekki það að ég sé ekki hrifin af Pink, mér finnst bara eins og verið sé að stæla hana) en að öðru leyti er tónlistin hennar mjög flott. Vonandi að hún hætti í þessu bölv. rugli og einbeiti sér að flottri tónlist. Ekki þar fyrir að stundum koma bestu verkin frá fólkinu í mesta ruglinu. Held t.d. að besti sólótími Johns Lennons hafi verið týnda helgin.
Kimya Dawson. Ég er bara nýbúin að uppgötva Kimyu Dawson og það var í gegnum myndina Juno þar sem hún á stóran hluta laganna. Kimya er allt öðru vísi söngkona en þær sem hér eru nefndar á undan. Hún er t.d. ekki góður söngvari en lögin eru flott og textarnir magnaðir. Hún er aðalsöngkonan í hljómsveitinni The Moldy Peaches sem eiga lög eins og Anybody but you sem er nokkurs konar þema myndarinnar. Ég mæli eindregið með að þið tékkið á Dawson.
Af karlmönnum hef ég undanfarið mest hlustað á kanadíska blúsarann Colin James, bandaríska blúsarann Eric Lindell, svo og nýju plötuna með Paul McCartney. Í sumar og í haust hlustaði ég líka mikið á þyngri tónlist eins og Alice in Chains, Godsmack, Mad Season og System of a down, og eins var hljómsveitin Death Cab for Cutie mikið á fóninum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.