Áramótin 2007-2008
1.1.2008 | 23:11
Jæja, þá er árið 2008 runnið upp og mitt fyrsta blogg að líta dagsins ljós. Ég er ekkert búin að vera lengi á fótum, svaf fram að hádegi enda fór ég seint í rúmið.
Gærdagurinn var rólegur svona framan af. Ég fór og klifraði svolítið og gekk bara ágætlega. Fékk töluverða hjálp frá ungum strák sem þarna var og sem sýndi mér ýmislegt gagnlegt. Ég stoppaði á nokkrum útsölum á leiðinni heim en keypti ekki neitt enda vantar mig svo sem ekkert. Þegar ég kom heim horfði ég á áramótaskaupið og hló mikið. Fannst þetta gott skaup. Sá á lestri bloggsíðna að ég var í minni hluta. Mér finnst það allt í lagi.
Um fimm leytið fór ég til Rosemary og Dougs þar sem ég borðaði roast beef a la Doug með kartöflum og ýmsu grænmeti. Í eftirmat var bland af súkkulaðiköku og ostaköku sem ég hafði hvort tveggja keypt í Capers af því að ég vildi koma færandi hendi og hafði ekki tíma til að baka sjálf. Við horfðum svo á hokkíleik kvöldsins, sem því miður tapaðist, og spjölluðum svo fram undir ellefu.
Þá rauk ég niðreftir til Martinu, eins kennara míns. Þar voru nú ekkert rosalega margir og sumir farnir, sérstaklega barnafólk. Mætti líka Peter vini mínum sem var á leið í annað partý. En þarna var góður hópur og mikið spjallað. Á miðnætti var drukkið kampavín og maðurinn hennar Martinu opnaði opinberlega vefsíðu sem hann hefur unnið að undanfarin ár. Síðan dönsuðu þau hjón vals sem er víst austurrískur siður á nýársnótt (Martina er austurrísk). Við horfðum líka á myndina 'Dinner for one' sem er sýnd í þýsku og austurríski sjónvarpi á gamlársdag á hverju ári.
Um tvö leytið fórum við fjögur, ég Mark, Martin og Beth niður að English bay sem er ströndin neðan við miðbæinn þar sem Martin og Beth ætluðu í nýárssund. Martin hafði fengið boð frá einhverjum vinum um að fara í sund klukkan hálf þrjú en þegar við komum þangað fundum við engan. Í ljós kom að Martin var 12 klukkutímum á undan áætlun, allir hinir hafa synt nú í dag. En hann fór nú samt út í og tók nokkur sundtök áður en hann flúði upp úr. Beth guggnaði hins vegar og lét nægja að vaða út í. Ég stakk nú bara fingri ofaní enda ætlaði ég aldrei með í sundið. Fór bara sem móralskur stuðningur.
Ég kom heim um fjögur leytið og hringdi þá í mömmu og pabba og talaði við þau í um klukkutíma. Pabbi á afmæli á nýársdag þannig að ég varð að óska afmælisbarninu til hamingju. Ég fór því ekki að sofa fyrr en um fimm leytið.
Þannig að þetta voru bara ágæt áramót þótt engum flugeldum væri skotið upp.
Athugasemdir
Mér þótti skaupið líka gott. Við erum bara hinn þögli minnihluti!
Mummi Guð, 1.1.2008 kl. 23:49
já þetta var hið fínasta skaup og átti sko alveg all nokkra góða punkta ;) en einhvern vegin þá þótti mér síðasta atriðið best - þó að það var alls ekki atriðið til að hlægja af - það bara snart svo þjóðarstolltið að maður næstum vöknaði ;p
Hrabba (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 02:35
Gleðilegt ár frænka og takk fyrir gamla árið! Ég fór í matarboð til mömmu og pabba og við hringdum í pápa þinn í Þverholtinu og heyrðum aðeins í honum hljóðið... sem var bara gott. Hann var búinn að fara í labbitúr og sund!
Þú sérð á síðunni minni að mér fannst skaupið líka bara gott, en það hefði samt getað verið svo miklu betra. Sjá: gunnarkr.blog.is
Gunnar Kr., 2.1.2008 kl. 03:05
Gleðilegt ár..ég var nú bara nokk ánægð með skaupið...
Halla Rut , 2.1.2008 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.