Áskorun til íþróttafréttamanna

Á Íslandi taka fjögur lið þátt í Íslandsmótinu í íshokkí, þótt eitt þeirra spili einungis í karlaflokki. Leikið er í fjórum flokkum karla og einum flokki kvenna. Þótt þetta sé því lítið íþróttasamband miðað við t.d. knattspyrnusambandið eða handknattleikssambandið er ljóst að þó nokkur fjöldi manns leikur íshokkí á landinu. Því er það ófyrirgefanlegt að þessi íþrótt skuli ekki fá neitt pláss í fjölmiðlum.

Um þessar mundir stendur yfir Heimsmeistaramótið í hokkí meðal leikmanna undir tvítugu. Í dag er verið að leika til undanúrslita. Ég sá ekkert í Mogganum um þetta mót og ekkert á Vísi. Á báðum stöðum eru oftar fréttir úr ameríska fótboltanum sem er þó enn minna stundaður á Íslandi en hokkí.

Hvernig væri að fjölmiðlar fari að sýna þessari íþrótt aðeins meiri áhuga. Ágætt væri að segja t.d. reglulegar fréttir af Íslandsmótinu, en einnig mætti segja frá - og jafnvel sýna frá - stórmótum eins og heimsmeistarakeppnum og ég er viss um að margir vildu sjá af og til leiki úr NHL deildinni enda hvergi leikið eins frábært hokkí.

Sumir myndu kannski segja að hokkí væri ekki nógu vinsælt á Íslandi til þess að það sé þess virði að segja/sýna frá því, en hvers vegna er það? Af því að íþróttin hefur aldrei verið almennilega kynnt fyrir Íslendingum. Hversu margir hafa farið á leik? 1% kannski. Íshokkí er hröð og spennandi íþrótt og þótt minna sé skorað en í handbolta eða körfubolta er hraðinn ekki minni. Ég veit alla vega að ég sit með hjartað í maganum þegar ég horfi á  leiki. Ef af og til væru sýndir leikir í sjónvarpi og sagt frá í blöðunum er ég viss um að fleiri fengju áhuga.

Fjölmiðlamenn, gerið nú eitthvað í málinu og sýnið þessari íþrótt svolitla virðingu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Íþróttar menn á Íslandi hafa bara áhuga á boltaíþróttum og stafar af því að þeir eru allir fyriverandi handbolta eða fótboltamenn, ég er sjálfur í motocrossi og eru iðkendur þar vel á 5 þús á íslandi en við fáum enga umfjöllun nánast þó svo að það hafi skánað aðeins það var t.d ekki eitt orð á Ruv eða Stöð 2 þegar okkar árlega þolaksturkeppni var haldin á Kirkjubæjarklaustri og keppendur um 500....... ´þú hefur samúð mína vegna áhugaleysis fjölmiðla á íslandi á sportinu sem þú elskar......

Óli Rúnar (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 09:09

2 Smámynd: Viðar Garðarsson

Ágæta Kristín ég verð að taka undir hvert orð í pistli þínum, fréttamat á íþróttum hér heima er oft skrítið. Sem betur fer er áhugi alltaf að aukast hér a klakanum fyrir þessari frábæru íþrótt. Enn gleðilegra er þó að þeir sem kveikja á perunni og byrja að fylgjast með halda því reglulega áfram. RUV eru að sýna hokkí smá áhuga og verða með beina útsendingu í janúar. Því miður gengur ekki jafn vel að kveikja áhuga prentmiðlanna. En þeir hljóta að vakna á endanum.

Viðar Garðarsson, 5.1.2008 kl. 17:23

3 identicon

Ég þarf líklega ekki að segja þér hve sammála ég er þér... laugardagsbíó er varla þekkt í sjónvarpinu í Kanada heldur er "Hockey Night in Canada" öll laugardagskvöld. Úrvals íþrótt og frábært sjónvarpsefni!

AuðurA (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband