Annir
10.1.2008 | 07:45
Ég hef aðeins dottið út úr blogginu undanfarna daga. Það er aðallega vegna þess að skólinn er kominn á fullt og eins og ég sagði í síðustu færslu (þar sem ég var víst mjög leiðinleg) þarf ég að kenna þessa önnina.
Nú eru búnir tveir tímar og hópurinn er ekki farinn að minnka ennþá. Það mun sjálfsagt gerast þegar liðið fær fyrsta heimaverkefnið. Það er fremur erfitt en aðallega víst vegna þess að fólk tekur ekki auðveldustu leiðina - eða þannig hefur það víst verið undanfarin ár. Verkefnið er þannig að nemandinn á að lýsa samskiptum manneskju og vélar/tækis (machine) í smáatriðum og margir fara víst út í það að velja tölvu eða síma og detta svo út í það að tala í raun um samskipti manneskju við aðra manneskju í gegnum vélina/tækið. En það er alls ekki það sem á að gera. Auðveldara væri að lýsa samskiptum manneskju við t.d. sjálfsala eða eitthvað svoleiðis. Ég hef heyrt að það sé hræðilegt að fara yfir þessi verkefni og mér verið ráðlagt að taka frá alla vega tólf tíma til verksins. Gallinn er að ég á ekki að vinna meira en tólf tíma á viku. Reynt er að láta aðstoðarkennara vinna ekki of mikið því þá höfum við ekki almennilegan tíma fyrir ritgerðina. Ef ég ynni t.d. 40 tíma vinnuviku þá er ég þarna komin niður í 28 tíma fyrir ritgerð. Fjóra klukkutíma á dag alla daga...bíddu...það er svo sem ekkert langt frá því. Það eru takmörk fyrir því hvað maður getur setið við skriftir lengi í einu. Alla vega þarf ég alltaf að fá mér pásu reglulega. Best vinn ég þegar ég fer á kaffihús og sötra latté á meðan ég vinn. Gallinn er að ég þarf helst að drekka "megrunarlatté" (slim latté, 90 kaloríur hjá Starbucks) svo ég fitni ekki á allri kaffidrykkjunni, en það er bara ekki eins gott.
Marion er komin til baka frá Ástralíu þar sem hún var um jólin (maðurinn hennar er Ástrali) svo við fórum í gær að klifra í nýja klifursalnum. Ég hafði farið þangað og bólderað en hafði ekki klifrað í reipi ennþá. Hafði engan til að klifra með. Var komin á fremsta hlunn með að hringja í Dave sem ég kjafta reglulega við þegar ég klifra en rakst svo á hann einn daginn og þá var hann að fara norður í fylkið í ísklifur. Fór svo beint þaðan til foreldra sinna sem búa í Prince George, og var þar um jólin. Svo ég varð að bíða eftir Marion. Svo rákumst við reyndar á Dave sem sagði okkur frá ísklifur ævintýrinu. Hann og félagi hans duttu meðal annars í gegnum ís og ofan í vatn. Sem betur fer voru þeir nálægt bakkanum og félagi hans bjó þar að auki nálægt svo þeir gátu farið þangað og hitað sér. Ég ætla að halda mig við klettaklifur.
Var ég búin að segja ykkur frá því að Rosemary og Doug komu til mín í mat á sunnudaginn og á boðið var upp á hangikjöt með alles. Þetta var reyndar kanadískt hangikjöt sem er reykt einhvers staðar yfir á eyju. Það er náttúrulega ekki eins gott og okkar. Bæði af því að það er ekki reykt nógu mikið (en þó meir en það sem reykt er í Manitoba) og af því að þetta er kanadískt lamb. Ekki eins bragðgott og íslenskt lamb. En þetta var samt gott. Ég bar þetta fram með kartöflum, uppstúf (jafningi fyrir ykkur sem ekki þekkið uppstúfs nafnið), grænum baunum (því miður ekki ORA - þær fást ekki hér) og rauðkáli (heimatilbúnum - enn betra en úr dós). Það vantaði bara laufabrauðið. Ég hugsaði um það í alvöru að búa til laufabrauð fyrir jólin en guggnaði svo á því. Kannski af því að laufabrauðsgerð er eitthvað sem maður á að framkvæma í góðum félagsskap en ekki einn.
Á morgun býð ég Marion og Ryan í mat af því að þau eru nýbúin að kaupa hús í Victoriu og Ryan mun flytja þangað í næstu viku og Marion síðan í vor. Ég verð því að ná í skottið á þeim áður en ég missi Ryan yfir. Ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að elda en ég ætla að hafa súkkulaði ganache í eftirrétt. Og það verður það síðasta sem ég borða af súkkulaði í langan tíma. Ekki að mig langi ekki í það, en ég borðaði of mikið um jólin og hef bætt á mig. Var búin að leggja of mikið á mig til að leyfa því að gerast.
Ætli ég hefji ekki hollustuna um helgina.
Og nú er ég farin að sofa.
Athugasemdir
Dugleg stelpa
Þóra Sigurðardóttir, 10.1.2008 kl. 20:51
Jæja já, bara að kenna.Aldeilis flott hjá þér og ferlegur dugnaður!!
Segðu mér,
veistu af einhverjum af gömlu skólafélögum okkar sem eiga blogg síðu?
Góða helgi !
Rakel (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 23:22
Takk stelpur. Rakel, nei, ég veit ekki um neinn annan úr gamla bekknum með heimasíðu. Bara þig og Helgu Dóru.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.1.2008 kl. 00:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.