Laugardagur til leti

Ég hef haft þetta spakmæli að leiðarljósi í dag. Svaf til tíu eða svo, borðaði morgunverð á meðan ég horfði á seinni helming myndarinnar Dave sem var í sjónvarpinu. Ég er búin að sjá þessa mynd nokkuð oft en hef alltaf gaman af henni. Hvað varð annars að Kevin Kline. Hann er svo dásamlegur leikari en ég hef hvergi séð hann nýlega.

Búin að leggja nokkra kapla líka. Hef verið að spila 'spider' með tvær sortir og af því að maður getur næstum því alltaf unnið þar ef maður bara nennir að hugsa þá hef ég verið að keppast við tíma. Hef náð að komast undir átt mínútur nokkrum sinnum en aldrei undir það. En þið sjáið að hægt er að eyða heilmiklum tíma svona.

En þetta hefur ekki bara verið letidagur. Ég hef líka unnið í ritgerðinni minni og náði að gera nokkrar mikilvægar breytingar. Það er eins og ég þurfi alltaf að tæma hugann reglulega því ef ég geri það og sný  mér svo aftur að ritgerðinni þá er auðveldara að koma einhverju í verk. Ég get aldrei setið við lengi í einu. Þá fer allt að hringsnúast í hausnum á mér. En ég er búin að vera í vinnustuði undanfarið og ég veit að ég hef gert kaflann betri. Ég held ég muni koma honum í enn betra lag áður en helgin er búin.

Nú ætla ég í IKEA. Mig vantar nokkra hluti og þar að auki er alltaf gaman að fara í IKEA. Eini gallinn er að það er heilmikið fyrirtæki. Það er ein verslun í Richmond hér fyrir sunnan og önnur í Coquitlam sem er austan við Vancouver. Það er lengra í þá síðarnefndu en sú búð er nýrri og stærri og skemmtilegri. Ég ætla því að leggja á mig 40 mínútur í strætó, þá 30 mínútur í lest og svo aðrar fimm í öðrum strætó. Plús bið eftir strætóunum sem er lengri af því að það er helgi. En það er þess virði held ég.  

Bið að heilsa ykkur hinum. Vona að þið hafið líka notað laugardaginn í afslöppun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Kolbeinsdóttir

Heyrðu ég er rétt nýbúin að læra Spider líka og að berjast við 2 sortir! Ég er nú ekki orðin alveg eins fær og þú, mér finnst alveg nóg að berjast við að láta kvikindið ganga upp. En það er gott að vita að megi dunda við Spiderinn lengi enn :)

Kolbrún Kolbeinsdóttir, 13.1.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þetta er ávanabindandi fjandi. Annars koma löng tímabil þar sem ég spila ekkert og svo dett ég í þetta aftur. Gangi þér vel.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.1.2008 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband