Dómarafífl
14.1.2008 | 01:55
Einhvern tímann í vor eða sumar skrifaði ég langa færslu um dómarafífl sem dæmdi leikinn okkar í Presto og gjöreyðilagði gamanið því hann dæmdi eingöngu á okkar lið. Dómarinn í leiknum okkar í dag er í harðri samkeppni um titilinn 'Versti dómari allra tíma'. Þessi var reyndar skárri en hinn að því leyti að hann dæmi jafnmikið á bæði lið en það var yfirleitt ekki heil brú í því sem hann gerði.
Honum var sérstaklega illa við mig. Það er ástæða fyrir því. Leikurinn í dag fór fram á möl af því að spáð var rigningu og við máttum ekki við því að missa af enn einum leiknum vegna þessa. Ég hef tvisvar áður leikið á möl og í fyrra skiptið var mér hrint afturábak svo ég fékk slæmt höfuðhögg, og í seinna skiptið datt ég á hnéð og rann svo á mölinni þannig að skinnið skrapaðist af hné og fótlegg. Ég náði ekki að þrífa þetta almennilega svo sýking kom í sárið og ég varð að lokum að fara til læknis og fá fúggalyf. Svo ég fór til dómarans fyrir leikinn og bað um leyfi til þess að leika í síðbuxum. Hann var harður á því að það væri mikilvægast að allt liðið liti eins út og honum var ekki hnikað. Ég fékk ekki að leika í buxum. Ég reyndi að benda manninum á það að ég lenti næstum alltaf á jörðinni, að minnsta kosti einu sinni í hverjum leik, en það breytti engu. Hann sagðist ætla að halda brotum í lágmarki.
Leikur hófst og við áttum völlinn. Boltinn fór ekki yfir á okkar helming fyrr en eftir að við skoruðum fyrsta, og eina mark leiksins. Benita skoraði það fallega úr aukaspyrnu. Síðar í fyrri hálfleik var ég að hlaupa upp kantinn með boltann og varnarmaður úr liði North Shore hleypur í síðuna á mér og ég flaug á hausinn. Það var ekkert að þessu. Hún notaði skrokkinn til að ýta mér til og það er leyfilegt. En ég var á harðahlaupum og jafnvægið var ekki gott. Þar að auki var völlurinn ójafn og auðvelt að stíga illa niður. Ég marðist illa á læri, skrapaði skinnið af hnénu (svo úr blæddi) og lenti að auki á olnboga og fann ógurlega til. Ég komst ekki strax á fætur. Dómarafíflið öskraði á mig að hundskast á lappir og lét leikinn halda áfram. Þjálfari hins liðsins sem var rétt við hliðina á mér kallaði á dómarann að ég væri meidd og hann yrði að stoppa leikinn en það var ekki gert. Ég skreið á lappir og byrjaði að labba að varamannabekknum því ég þurfti út af til þess að hreinsa sárið. Ég ætlaði ekki að fá sýkingu aftur. Þegar boltinn fór loks úr leik kom fíflið alveg upp að mér og öskraði á mig að ef ég gerði þetta aftur þá fengi ég spjald. Ég kom af fjöllum og vissi ekki hvað ég gerði og þá hélt hann því fram að ég hefði stungið mér, látið mig detta. Ég átti ekki til orð en náði loks að öskra á móti að ég hefði bara alls ekki gert það og þá sagðist hann hafa verið alveg við hliðina á mér (sem var auðvitað ekki rétt). Hann ítrekaði að ég fengi spjald ef ég gerði þetta aftur svo ég þakkaði fyrir mig og fór útaf áður en ég segði eitthvað sem ég gæti fengið rauða spjaldið fyrir. En þið megið trúa því að það sem mig langaði að segja var ekki fallegt. Hvaða asni lætur sig detta á malarvelli, og það var ekki einu sinni eins og ég hefði grætt neitt á aukaspyrnu. Þetta gerðist við miðju.
En þetta var ekki búið. Ég kom aftur inn á í síðari hálfleik eftir að ég var búin að hreinsa sárið og plástra. Ég var greinilega í svörtu bókinni núna því hann kallaði á mig rangstöðu þar sem engin var og í annað skiptið fékk hitt liðið aukaspyrnu þegar ég hafði varla snert á manneskjunni. En það sem var fyndnast var síðar í leiknum þegar ég fór út af fyrir Benitu (við lékum með fimm framverði). Boltinn fór út af rétt á eftir og ég var að labba eftir hliðarlínunni í átt að varamannabekknum þegar fíflið sér mig og spyr hvenær ég hafi farið út af og hvort einhver hafi komið inn fyrir mig. Hann sagðist ekki hafa gefið leyfi fyrir innáskiptingu. Þá kom þjálfarinn minn og sagðist hafa beðið um skiptingu og fengið merki frá dómaranum um að hann mætti skipta. Hvað haldiði að fíflið hafi sagt þá: "Þú fékkst leyfi fyrir einni skiptingu. Ekki tveim." Hvað er eiginlega að þessum manni. Í deildinni má skipta eins mörgum mönnum í einu og hverjum og einum sýnist. Það þarf ekki að láta vita hversu margir fara út af. En dómarinn var ekki búinn að ljúka sér af. Hann horfir til okkar Akimi og öskrar: 'Haldið áfram'. Ég benti honum á að við værum komnar út af (OK, kannski ætti ég að þegja en ég hélt hann væri orðinn galinn og héldi að ég ætti að taka innkastið.) Hann endurtók öskrið og ég endurtók svarið og þá hreytti hann í mig: "Farðu þá í jakka utanyfir því það er ruglandi að hafa fólk á línunni í sama lit." Afgangurinn af liðinu okkar stóð á línunni aðeins neðar í treyjunum og hinum megin við var allt hitt liðið í sínum treyjum. Næstum enginn var í jakka.
Þarna lauk mínum samskiptum við dómarinn en hann var þó ekki búinn að rasa út. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum spurði einhver dómarann hve mikið væri eftir og var sagt að það væru tíu mínútur eftir. Þegar þær tíu mínútur voru búnar tilkynnti hann einhverjum í hinu liðinu að hann ætlaði að bæta við þremur mínútum vegna stoppa (injury time; ég man ekki eftir að leikurinn hafi verið stoppaður oft. Ekki stoppaði hann fyrir mig t.d. - enginn annar dómari bætir við tíma vegna stoppa.) Dave leit á klukkuna þá og hann lét okkur spila í fimm mínútur eftir það. Allt í allt lékum við í 100 mínútur. Það var eins og hann ætlaði ekki að hætta fyrr en hitt liðið jafnaði.
Dave, þjálfarinn okkar, talaði við hinn þjálfarann eftir leikinn og þeir ætla báðir að kvarta við deildina. Ég talaði líka aðeins við nokkrar stelpurnar í hinu liðinu eftir leikinn og þær sögðust oft fá þennan dómara (lið fá oft sömu dómara því dómarar eru yfirleitt ekki sendir langt í burtu frá heimili sínu) og hann væri alltaf slæmur en aldrei eins slæmur og þarna.
Ég átti erfitt með að segja ekki manninum að hann væri fífl en ég vildi ekki gera honum það til geðs að fá að lyft rauða spjaldinu.
Það góða var að við spiluðum býsna vel, sérstaklega fyrri hálfleikinn, og unnum 1-0. North Shore Saints sátu áður á toppnum en nú erum við jafnhliða þeim, ásamt liði frá Burnaby. Höfum öll 19 stig. Burnaby hefur leikið fleiri leiki en við og North Shore en við höfum aðeins betra markahlutfall og ættum því að vera í öðru sæti núna. North Shore hefur besta markahlutfallið. Við eigum eftir að leika þrjá leiki áður en úrslitakeppnin hefst.
Athugasemdir
Til hamingju med sigurinn Stina...ekki bara a hinu lidinu, heldur einnig a skapinu, thad er ekkert audvelt ad halda aftur af ser thegar svona aular eru ad bögga mann. Domarinn er augljoslega ekki starfi sinu vaxinn, en thu faerd bonus fyrir frammistoduna. Kannki Zidane aetti ad koma a namskeid til thin ;)
Rut (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 10:32
Hvernig stóð á því að þú tókst ekki einn Zidane-skalla í bringuna á mannkertinu?
Annars ætlaði ég að kasta á þig kveðju og óska gleðilegra hátíða, en ég gleymdi alveg að kíkja við...
Vonandi rústið þið deildinni!
E.S.
Nú ert þú reynzluríkari en ég í íslenzku máli, en mig fýsir að vita hvaðan þetta orð ,,fúggalyf" er upprunið. Ég hélt alltaf að það væru tvö ká í þessu...
Sigurjón, 14.1.2008 kl. 12:56
Þvílíkur plebbi..! En gott hjá þér að fara ekki niður á hans plan :)
Helga Fanney (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 14:44
Takk takk.
Sigurjón, ég held að það sé rétt hjá þér að algengara sé að skrifa fúkkalyf en fúggalyf en ég veit ekki hvaðan þetta orð kemur. Orðið fúkki þýðir 'ódaunn, fnykur', eða 'mygla' en fugga er líka orð fyrir 'mygla'. Þannig að ef fúggalyf/fúkkalyf kemur þaðan þá ætti að vera hægt að skrifa orðið á tvo vegu. Ef þetta er eitthvað sem við stálum úr t.d. dönsku eru káin væntanlega bara hefð. Ég veit að alla vega í mínu máli er enginn aðblástur í framburðinum og þess vegna skrifa ég þetta með géum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.1.2008 kl. 16:10
Ég skil...
Sigurjón, 15.1.2008 kl. 00:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.