Hvassviðri og skíðaferð
15.1.2008 | 06:03
Hér er vaðvitlaust veður. Húsið hristist í rokunum. Í dag fauk í burtu tjalddúkur á nýbyggingunni við hliðina. Ég var ákaflega ánægð með það því dúkurinn var búinn að sveiflast í vindinum í marga klukkutíma og varð af því mikill hávaði. Annars hefur þetta svona gengið á með kviðum. Á tímabili í dag var mígandi rigning en ekki svo hvasst. En undir kvöldið versnaði veðrið. Það kæmi mér ekki á óvart þó einhver tré brotni í nótt ef þetta heldur áfram.
Annars á að lægja fyrir morgundaginn sem er mjög gott því ég fæ loksins tækifæri til þess að komast á skíði. á morgun. Peter vinur minn hringdi í kvöld og spurði hvort ég vildi fara til Whistler. Ég vil það að sjálfsögðu enda var ég að verða vitlaus á skíðaleysinu. Ég athugaði meira að segja rútuverðið um daginn því ég var næstum því til í að leggja á mig rútuferð, en það er svo fjandi dýrt; yfir 2000 krónur. Þegar um 4000 kr. dagskort kemur ofan á má sjá að þetta er heilmikið fyrirtæki. Það er ódýrara að fara með Peter. Þótt ég borgi í bensíninu þá er það samt miklu ódýrara en rútuferð. Reyndar er ferðalagið ekkert styttra því Peter býr í Norður Vancouver og ég þarf að koma mér yfir á norðurbakkann með ferjunni. En ég tek bara bók með mér. Það er líka skemmtilegra að hafa félagsskap á skíðum.
Ég hef reyndar ekki tíma til að fara því kennslan er byrjuð og í dag þurfti ég að fara yfir 200 heimaverkefni. Ég þarf að lesa greinar fyrir miðvikudaginn og það verður ekki mikið gert á morgun eftir að ég kem heim úr fjallinu. En hey, ég mun ekki fá mörg tækifæri til þess að komast á skíði svo ég gríp þau sem gefast.
Athugasemdir
Þokkalega! Góða skemmtun :)
Hrabba (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 09:20
Njottu skidaferdarinnar. Eg vona ad solin skini og faerid verdi draumur...
Rut
Rut (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 20:40
Takk kærlega báðar. Sjá nánar í nýrri færslu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.1.2008 kl. 06:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.