Síðast
26.1.2008 | 16:48
Ég fór á tónleikana þegar þeir voru haldnir í háskólabíói. Það hlýtur að hafa verið fyrir tíu eða fimmtán árum. Þá var verið að fagna tuttugu og fimm eða þrjátíu ára afmæli plötunnar.
Ég man að ég var ekkert sérlega spennt fyrir tónleikunum. Mér finnst Bítlarnir frábærir og Sgt. Peppters er náttúrulega snilld, en ég hef aldrei verið sérlega hrifin af því að hlusta á aðra flytja verk Bítlanna. Aðallega af því að enginn getur gert það eins vel. Eina Bítlalagið sem hefur verið flutt betur af einhverjum öðrum en Bítlunum er With a little help from my friend í útgáfu Joe Cockers.
En það voru sögusagnir fyrir tónleikana um það að eftirlifandi Bítlar yrðu þarna allir, og tilhugsunin um að sjá Paul var öðru yfirsterkari. Svo ég keypti miða og fór.
Auðvitað voru engir Bítlar þar, veit ekki einu sinni hvort þeir höfðu íhugað að koma, eða hvort þeim var boðið, en tónleikarnir reyndust alveg magnaðir samt sem áður. Lögin voru almennt vel flutt og enginn reyndi að gera eitthvað ógurlega sérstakt. Almennt voru tónlistarmennirnir þokkalega trúir upphaflega útgáfunum sem oftast er langbest. Ég man að einn af hápunktunum var þegar lagið Within you withoutyou var flutt - sem er svolítið skrítið því mér hefur alltaf þótt það langleiðinlegasta lagið á plötunni. En það var bara svo flott að sjá liðið sitja á gólfinu með allar græjur, meira að segja sítarinn sjálfan, og skapa þessi ógurlegu hljóð sem koma þarna í byrjun lagsins. Mér hefur aldrei fundist þetta eins flott og þegar ég sá þá spila.
Ég man hins vegar hversu hissa ég var þegar þeir voru klappaðir upp í lokin. Ég meina, tónlistarmennirnir höfðu nýlokið við að flytja A day in the life og þeir náðu meira að segja þessum tvöfalda píanótóni í lokin og platan var búin. Hvernig gátu þeir farið aftur upp á svið og spilað eitthvað annað. Það væri eins og að syngja eitthvert lag í messu á eftir Heims um ból. Hreinlega óhugsandi. Enda voru tónlistarmennirnir sammála mér og létu ekki eftir áheyrendum að spila fleiri lög. Flott hjá þeim. En það var þó gott að fólki líkuðu tónleikarnir.
Ég er viss um að þessir tónleikar verða líka flottir og mæli með að fólk fari á þá.
Bítlalög í Höllinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
En frábær tilviljun, Stína frænka! Ég fór líka á tónleikana í Háskólabíói og ég man hvað Daníel Ágúst náði Lennon hrikalega vel. Það er vonandi að jafn vel takist til núna.
Annars er ég að fara á morgun norður til Akureyrar og mun hvílast í ró og næði innan um skíðamedalíur og bikara í kjallaranum í Þverholtinu.
Gunnar Kr., 27.1.2008 kl. 01:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.