Einn þessa letidaga þar sem lítið er gert

Stundum verður maður hreinlega að liggja í leti. Í dag gerði ég næstum ekki neitt. Kláraði reyndar bókina sem ég var að lesa en það var ekki skólabók svo ég er ekki viss um að það telji.

Ég sendi reyndar eintak af þriðja kafla ritgerðarinnar til kennara míns, borgaði alla reikninga sem ég hafði ekki borgað og fór út á pósthús að auki. Kom við á útsölu í búð í hverfinu sem er að loka. Fékk þessar rosalega fínu buxur á $25 í stað $70 dollara. Góður afsláttur. Og buxurnar, sem eru svona venjulegar svartar fínar buxur, pössuðu ótrúlega vel. Það var ákaflega ánægjulegt því ég á erfitt með að fá sparibuxur sem passa mér. Það virðist alltaf gert ráð fyrir því að allar konur séu grannar í mitti með breiðar mjaðmir, og ef maður er ekki svoleiðis þá er lítið hægt að gera. Flestar buxur eru eins og pokar utan á mér.

Þegar ég kom heim horfði ég svolítið á hæfniskeppnina í hokkíinu. Nú er svokölluð stjörnuvika því á morgun mun vestrið leika gegn austrinu. Það þýðir að bestu leikmenn allra liða spila hver gegn öðrum. Þarna eru vissulega samankomnar flestar stjórstjörnurnar og leikurinn á morgun ætti að vera athyglisverður. Við munum reyndar ekki sjá bestu markverðina því Luongo frá Canucks og Brodeur frá New Jersey Devils komust ekki. Í dag léku ungu strákarnir, nýliðarnir í deildinni, og vann austrið með yfirburðum. Við verðum því að hefna þess með því að vinna aðal  leikinn á morgun.

Áðan horfði ég á DVD spóluna mína Little Miss Sunshine. Þessi mynd er alveg dásamleg og jafn góð í annað sinn og hún var við fyrsta áhorf. Ég sá aðra frábæra mynd áðan sem ég sá í gegnum PayPerView (nema hún var ókeypis). Þetta var norsk/kanadíska teiknimyndin Danska ljóðskáldið. Myndin er ekki nema fimmtán mínútur en það eru yndislegar fimmtán mínútur. Ég mæli með því að þið horfið öll á þessa litlu mynd.

Nú langar mig í popp og kók. Ég held ég láti það eftir mér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Sunnudagur er hvíldardagur!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 27.1.2008 kl. 18:40

2 identicon

Gud se lof fyrir letidagana, taer upp i loft og batteriid hladid...thad maetti alveg vera meira af theim!

Rut (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 20:32

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Rétt hjá ykkur báðum. Gallin er að stundum verða þessir letidagar of margir.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 29.1.2008 kl. 07:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband