Gungan Harper
29.1.2008 | 17:57
Þegar ég las fyrirsögnina á þessari frétt "Kanadamenn hóta að draga herlið sitt frá Afganistan" hélt ég rétt sem snöggvast að Stephen Harper væri loksins farinn að átta sig almennilega á stöðu mála, en svo sá ég að hann er bara að hóta að draga herliðið heim ef önnur lönd sendi ekki sín lið inn í Kandahar.
Ég hef búið í Kanada í átta ár og setið í gegnum stjórnir þriggja forsætisráðherra, og hafa þeir farið versnandi með hverjum. Þegar ég flutti hingað sat 'framsóknarmaðurinn' Jean Chretien við stjórnvöldin og þegar maður komst yfir það að hlæja að framburði hans (frankófón með andlitslömun - ekki sniðugt að hlæja að honum en erfitt að gera það ekki) var augljóst að það var heilmikið í hann spunnið. Hann þorði t.d. vel að standa uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum.
Þegar hann hætti tók við flokksbróðir hans Paul Martin sem var ekki hálfkvistur á við Chretien. Hann kom mér þó á óvart þegar hann neitaði að senda herlið til Íraks og reitti Bandaríkjamenn til reiði. Þetta varð svo slæmt á tímabili að Kanadamenn lentu í því að bílar þeirra voru rispaðir ef þeir fóru yfir landamærin. Fjöldi Ameríkumanna taldi að Kanada væri óvinveitt þjóð. Ég er ekki að grínast. Það var gerð könnun og ég held að þeir hafi verið nálægt 25% sem héldu að Kanadamenn væru óvinir Bandaríkjanna - bara af því að þeir tóku ekki þátt í innrásinni í Írak.
Paul Martin tapaði svo síðustu kosningum og formaður íhaldsmanna, Stephen Harper tók við. Þótt Martin hafi ekki verið góður þá versnaði ástandið til muna. Harper er enginn leiðtogi og frá upphafi hefur hann kúrað sig í rassgatinu á Bush. Það hefur t.d. verið mikill þrýstingur á hann að draga heim herliðið í Afganistan en hann hefur ekki neitt gert í málum. Þessi hótun er það fyrsta sem hann gerir í þá átt, og þá er hún ekki einu sinni byggð á réttum forsendum. Svei þér Stephen Harper.
Kanadamenn hóta að draga herlið sitt frá Afganistan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.