Um siðferðisreglur slagsmála

Bræður mínir sem raða sér nú á mismunandi ár á milli fjörutíu og fimmtíu sögðu mér einu sinni frá því að þegar þeir voru unglingar voru slagsmál all algeng, en ákveðnar siðareglur áttu þó við. Í fyrsta lagi var slegist maður á mann. Það er, tveir tóku þátt í slagsmálunum – það kom yfirleitt ekki fyrir að fleiri en einn réðust á sama einstaklinginn. Í öðru lagi var fyrst og fremst slegist með hnefum og liggjandi manneskja var ekki barin, hvað þá að sparkað væri. Þetta átti sér að sjálfsögðu undantekningar en yfirleitt þótti það heigulsháttur að brjóta þessar óskrifuðu reglur. Ég veit ekki betur en að þetta hafi enn verið svo þegar ég var unglingur. Alla vega man ég ekki eftir að hafa séð slagsmál þar sem fleiri en tveir tóku þátt.

Staðan í dag er allt öðruvísi – bæði heima á Íslandi og annars staðar. Ég var í háskóla eða á síðustu árum menntaskóla þegar tvær eða þrjár stelpur réðust á unglingsstúlku og spörkuðu svo í höfuðið á henni að hún hefur aldrei komið til. Ég var orðlaus þá og ég er orðlaus enn í hvert sinn sem ég heyri slíkar fréttir.

Og eitt það hræðilegasta við þessar árásir unglinga á aðra, er það að yfirleitt eru þær tilefnislausar. Hver sem er gæti því lent í þessu. Og þó eru það helst aðrir unglingar sem eru fórnarlömbin. Stelpurnar þarna um árið útskýrðu árás sína þannig að vinkonu þeirra væri illa við umrædda stelpu. Og þess vegna ákváðu þær að berja hana. 

Í morgun las ég frétt í blaðinu um það að fjórir unglingspiltar réðust á fimmtán ára gamlan strák sem gerði það eitt að labba fram hjá þeim á leiðinni heim til vinar síns. Þegar hann vildi ekki slást við þá hellti einn þeirra yfir hann bensíni og kveikti í. Hann er nú á sjúkrahúsi en talið er að hægt sé að bjarga honum.

En árásirnar eru ekki endilega svo alvarlegar. Á hrekkjarvökunni stoppaði strætóbílstjóri (kona) við biðstöð og kastaði sælgæti til unglinganna sem þar biðu (sem ætluðu þó ekki að taka þennan strætisvagn). Þetta voru nokkrar stúlkur og allt í einu réðust þær inn í strætisvagninn, drógu bílstjórann út og börðu. 

Þessi óheillaþróun fór af stað í Kanada heldur fyrr en á Íslandi og frá því 1970 hafa að meðaltali 40-50 unglingar verið ákærðir um morð á hverju ári. 2005 reis sú tala í 72 og 2006 fór hún yfir 80. Enginn veit hvað hægt er að gera í málunum.

Sem betur fer hafa þessar hræðilegu árásir á Íslandi yfirleitt ekki endað með morði en það er lítið betra þegar fórnarlambið er lokað í eigin heimi það sem eftir er ævinnar.  

Flestir unglingar eru yndislegt fólk og ég hef mikið unnið með sextán til nítján ára gömlu fólki. Og finnst það alveg dásamlegt. En einhvern veginn hafa siðferðisreglurnar breyst þannig að skemmdu eplin inn á milli gera hluti sem skemmdu eplunum áður fyrr hefði ekki einu sinni dottið í hug. Ég veit ekki hvort eiturlyfjum er um að kenna eða einhverju öðru. Og nú ætla ég að fara og skrifa ritgerðina mína í stað þess að blogga um eitthvað sem ég get ekkert ráðið við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband