Önnur hótun á UBC, meira hokkí, ákæruóðir Norður Ameríkanar

Önnur hótun á UBC
Aftur hefur verið send inn hótun um hryðjuverk á kampus UBC. Það er einmitt liðin vika síðan líffræðibyggingunni var lokað vegna hótunar og um 1000 manns voru lokuð inni í sirka klukkutíma. Í gær eða nótt var send inn ný hótun nema að þessu sinni var hvorki tiltekinn staður né tími. Líffræðibyggingunni var því lokað aftur af öryggisráðstöfunum en aðrar byggingar eru opnar. Lögreglan er víst á staðnum en enginn veit í raun hvort alvara er að baki þessa hótana og ef svo, hvar hættan er. Ég þarf upp í skóla. Ég funda með Gunnari klukkan tíu og fer svo í tíma klukkan ellefu - í efnafræðibyggingunni beint á móti líffræðinni. Þaðan þarf ég svo austar á kampus í rannsóknabyggingu málvísindanna. Verð því þokkalega á ferðinni og finnst það pínulítið óhugnanlegt. Við vitum ekki ennþá hverju þessi manneskja hefur hótað - lögregla og skólayfirvöld vilja ekkert segja. Eftir síðustu hótun var sagt að ekki væri um sprengju að ræða en það var allt sem þeir sögðu. Maður veit því ekkert. Er einhver á ferð með haglabyssu? Eða eitthvað þaðanaf verra? Er fólk í hættu við að vera plammað niður hvar og hvenær sem er? Mér finnst þessi þögn ekkert sniðug.

Meiddir hokkíleikmenn
Af mínu elskulega hokkíliði er það að frétta að meiðsli halda áfram að plaga liðið. Í leiknum gegn Florida meiddist Aron Miller, eini varnarmaðurinn sem ekki hafði misst leik. Ofan á það bættist að Matthias Ohlund varð að fljúga heim til Vancouver út af persónulegum ástæðum. Sami Salo sem hafði verið meiddur kom aftur inn í hópinn og var því eini reglulegi varnarmaðurinn sem spilaði. Hinir fjórir voru ungir strákar sem vanlega spila með Manitoba í lægri deild. Þetta þýddi auðvitað alls konar mistök í vörninni sem leiddu til tveggja marka Dallas. Nýjasti meðlimurinn var ekki einu sinni í eigin skautum því hann hafði verið staddur í Milwaukee með Maniotba Moose þegar hann fékk boð um að koma til Dallas að spila og varð því að keyra til Chicago og fljúga þaðan til Dallas. Skautarnir hans og annar útbúnaður voru ennþá í flugvélinni í Milwaukee. Þrátt fyrir þetta náði Vancouver jafntefli en tapað svo í vítakeppni. Þeir fengu hins vegar eitt stig úr viðureigninni sem var mjög mikilvægt þegar teflt er fram hálfgerðu varaliði. Við þetta má samt bæta að Alex Edler getur varla talist Manitoba leikmaður lengur því hann er búinn að spila með Vancouver síðan snemma í haust því það er alltaf einhver varnarmaður meiddur.

Ákæruóðir Norður Ameríkanar
Þið hafið heyrt um það hversu brjálaðir Norður Ameríkanar eru þegar kemur að því að fara í mál út af alls kyns hlutum. Kanadamenn eru ekki eins slæmir og Bandaríkjamenn en heldur ekki mikið skárri. Fyrir nokkrum mánuðum keyrði gamall maður á pikköpp jeppa inn í þvögu af brúðkaupsgestum sem voru á gangi á fáförnum sveitavegi í Abbotsford. Sex létust. Aldrei hefur verið fundið út hvort ökumaður hafði drukkið eða hvort hann var hálfsofandi eða bara utanviðsig. Nú er búið að kæra ökumanninn (fyrir skort á aðgát), eiganda bílsins (fyrir að hafa bílinn ekki í nógu góðu ástandi og fyrir að leyfa ökumanni að keyra) og yfirvöldum í Abbotsford fyrir að hafa ekki gagnstétt meðfram veginum og fyrir að hafa veginn ekki nógu upplýstan.

Þetta er geðveiki. Það er eitt að kæra ökumanninn en að kæra eiganda bílsins og þá sérstaklega að kæra yfirvöld. Ég meina - þetta er sveitavegur! Hvenær eru þeir upplýstir? Hvenær hafa þeir gangstéttir? Enda hafa yfirvöld bent á að fólkið ætti að taka einhverja ábyrgð sjálft þar sem það var augljóst að vegurinn var ekki upplýstur og að það var ekki pláss fyrir um tuttugu manns að labba saman í hnapp þarna í  myrkrinu. Þar að auki var enginn með endurskinsmerki eða neitt sem gerði fólkið sýnilegra. Ætlunin hafði verið að hafa bíl með blikkandi ljós með í ferð en einhverra hluta var hann ekki kominn á svæðið. Af hverju ekki kæra hann? Fólk er klikkað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mummi Guð

Ef þetta væri í Bandaríkjunum þá væri bílstjórinn farinn í mál við aðstandendur þeirra látnu vegna skemmda á bílnum!

Mummi Guð, 6.2.2008 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband