Enn setur snjórinn strik í reikninginn

Athyglisverð staða í háskólunum hér í Vancouver. Sama dag og lögreglan sveimaði um UBC í leit að einhverju sem við þessi óbreyttu vitum ekki hvað er (og vitum ekki enn) varð SFU fyrir árás af annars konar völdum. Að ofan.

SFU (Simon Fraser University) er staðsett uppi á fjalli í Burnaby og það er heilmikil brekka þangað uppeftir. Í dag fór að snjóa og hefur líklega snjóað stanslaust síðustu sjö eða átta tímana. Af því að enginn er með nagladekk og strætisvagnar hér eru ekki útbúnir keðjum þá hættu allir vagnar að ganga fyrir nokkrum klukkutímum (klukkan er hálf tólf að kvöldi þegar ég skrifa þetta). Vegurinn uppeftir er opinn en mönnum ráðlagt að vera ekki á ferðinni og nú þegar hafa orðið margir árekstrar þarna. En hvað gerist í háskóla þegar strætó hættir að ganga og aðeins örfáir eru á bílum? Jú, liðið verður annað hvort að gista í skólanum eða koma sér heim á annan hátt. Sumir lögðu í að ganga niður brekkuna (sem er býsna löng - tekur tíu eða fimmtán mínútur í strætó) þótt fæstir væru útbúnir til þess, aðrir fengu gistingu hjá vinum á heimavist eða leigðu sér herbergi þarna uppfrá, enn aðrir söfnuðust saman í íþróttahúsinu og munu sofa á dýnum á gólfinu. Einhvern veginn grunar mig að liðið hafi nú bara gaman af því. Já, okkur Íslendingum finnst athyglisvert hvernig allt lamast hér þegar snjóar en það er einfaldlega svo að hér er enginn búinn undir þetta hvíta. Vanalega snjóar hér aðeins einu sinni eða tvisvar á ári. Þetta hefur verið óvenjulegt nú í vetur.

Hræðilegar fréttir annars frá Bandaríkjunum. Ég horfði á fréttirnar áðan og sá hvernig nýjasti hvirfilbylurinn lék Tennessee. 50 látnir og alla vega 100 alvarlega slasaðir. Mikið er ég fegin að við erum ekki á svæði sem fær þessa rosalegu vinda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband