Á ferð um Hellisheiði og Þrengsli í vondu veðri - raunasaga

Þegar ég var á fyrsta ári á háskólanum bjó ég með bróður mínum sem þá var sjómaður á einu skipanna frá Þorlákshöfn. Hann var vanur að lána mér bílinn sinn á meðan hann var á sjó og í staðinn keyrði ég hann stundum til Þorlákshafnar eða sótti hann þangað. Eitt þessa skipta var veður óvenju slæmt. Það var búið að snjóa nokkuð mikið og heilmikil blinda. Við höfðum ekki áttað okkur á því hversu slæmt veðrið var í raun fyrr en við vorum komin á Hellisheiðina. Bróðir minn bað mig að keyra ekki til baka þetta kvöld heldur gista í Þorlákshöfn. Sagði að ég gæti ábyggilega fengið að gista hjá móður eins skipsfélaga hans. Tilhugsunin um að fara og gista hjá ókunnugu fólki höfðaði ekki til mín og ég sagði að það yrði ekkert mál fyrir mig að keyra heim. Þetta væri ekki svo slæmt.

Ég skilaði Hauk niður á bryggju og lagði í brekkuna upp Þrenglsin. Ég var á lítilli Toyota Corolla á góðum dekkjum. Aflmikill bíll. Uppáhaldsbíllinn minn af öllum þeim sem ég hef keyrt um ævina. Neðarlega í brekkunni sat bíll fastur en Toyotan hélt áfram upp brekkuna, hægt og silandi. Brekkan var allt of löng til að ætla að taka hana á blússinu. Áfram hélt ég og keyrði framhjá fleiri bílum sem sátu fastir. Það var ekki alltaf auðvelt enda sátu þeir oft fastir á miðri götu, en ég náði að komast fram hjá. Ég fann hvernig dekkin gripu í svellið og varð gripið æ verra sem ofar dró. Ég var orðin skíthrædd um að komast ekki upp, sérstaklega þegar ofar í brekkunni sat enn einn bíllinn fastur. Toyotan var farin að missa kraft og bíllinn rétt mjakaðist áfram - en áfram héldum við - fram hjá fasta bílnum - og allt í einu var ég komin alla leið upp brekkuna. Ég andaði léttar og tók eftir því hvernig axlirnar á mér höfðu verið fastar í sömu stellingu alla leið upp. Ég hélt áfram yfir að Hellisheiðarveginum og reyndi að slaka á. Það versta var búið.

Það snjóaði stöðugt og snjórinn varð þykkari á veginum. Það sást lítið út um gluggann en ég pírði augun og hallaði mér fram til að sjá til þess að ég væri enn á veginum. Ekkert væri verra en að fara útaf núna. Ég var komin vel fram hjá Bláfjallaveginum þegar bíllinn sat fastur. Það var sama hvað ég reyndi, hann færðist ekki fet. Ég beitti öllum akureyskum ráðum en ekkert dugði. Ég hafði ekki tekið eftir því að ég færi út af veginum en ég var viss um að ég hlyti að hafa gert það. Ég gæti ekki verið svona föst á miðjum vegi. Það reyndist þó vera staðan. Snjórinn var hreinlega svo mikill þarna að lítil dekk Toyotunnar náðu ekki upp úr. Eftir stutta stund var bankað á gluggann hjá mér og maður spurði hvort ég væri með skóflu. Nei. Væri ég með kaðal? Nei. Ég fékk skammir fyrir að leggja í heiðina án skóflu og kaðals og tók skömmunum þokkalega vel. Enda hafði maðurinn rétt fyrir sér. Hvað hafði ég verið að hugsa. Sem betur fer hafði hann skóflu og kaðal og eftir stutta stund var búið að moka frá dekkjunum og bílinn dreginn úr versta skaflinum. Landslag þarna hlýtur að hafa verið tilfallið fyrir skaflamyndun því um leið og ég var laus varð vegurinn næstum því auður það sem eftir var leiðarinnar og ég komst átakalaust heim.

Ég minni því alla á að leggja hvorki í Hellisheiðina né Þrengslin án þess að vera á vel útbúnum bíl með skóflu og kaðal og hlý föt að auki. Best er að vera alls ekki á ferðinni þegar veður er slæmt. 


mbl.is Ætla yfir þrátt fyrir lokun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Bendi þér á svar mitt hérna... það eru einmitt þessir sem að "botna ekkert í að ekki skuli vera hægt að halda þessu opnu" sem valda megninu af vandræðunum.

http://thingmadur.blog.is/blog/thingmadur/entry/437308/#comment1046173

Heimir Tómasson, 7.2.2008 kl. 17:32

2 identicon

Ég hef sjálf lent í álíka á Öxnadalsheiðinni, rétt hjá Bakkaseli. Þá hafði ég skutlað Hrefnu sys norður fyrr um kvöldið og var heiðskýrt og gott veður þá. Þegar ég lagði af stað tilbaka uppúr 22, gegndi hinsvegar öðru máli og komið snarbrjálað veður á heiðinni og ég sat einn í myrkri og brjáluðum blindbyl, alveg pikkföst, komst ekki áfram og þorði ekki að snúa bílnum þar sem var ekkert skyggni (ef kynni vera að kæmi bíll og sæi mig ekki þvert á veginum fyrr en of seint, auk þess sem ég vildi alls ekki lenda útfyrir kantinn, þar sem ég var á brattasta kaflanum),  þangað til kom vöruflutningabíll sem var á norðurleið og bílstjórinn hjálpaði mér að snúa bílnum. Fannst ég greinilega algjört fífl, en bara 4-5 tímum áður hafði verið blíða á heiðinni! Þetta var verulega ónotaleg reynsla!

Helga Fanney (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 17:44

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Gott svar hjá þér þarna. Fólkið sem er úti í vondu veðrunum að reyna að halda vegunum hreinum á hrós skilið. Stundum gerir fólk sér ekki grein fyrir því hversu slæmt veður er á heiðunum (eins og gerðist hjá mér þarna um árið) en oft er um að ræða einhvers konar afneitun á aðstæðum. Liðið heldur að það geti allt. Eftir þessa reynslu á leiðinni heim frá Þorlákshöfn hef ég aldrei farið fjallvegi þegar veður er slæmt. Sumir virðast hins vegar ekkert læra.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.2.2008 kl. 17:50

4 Smámynd: Mummi Guð

Maður þarf ekki að lenda í hrakningum á löngum leiðum. Ég er búinn að sitja fastur meira og minna í allan dag og ég þurfti bara að fara 4-500 metra! en komst ekki nema hálfa leið!

Mummi Guð, 7.2.2008 kl. 18:28

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég snerist í hálfhring á veginum milli Hellu og Selfoss fyrir nokkrum vikum (sjá bloggið hjá mér) og lenti útaf hægra megin. Sem betur fer komst ég hjálparlaust upp á veginn aftur.

Það er ekki hægt að brýna of mikið fyrir fólki að vera ekki að fara á illa búnum bílum þegar færð og veður er slæmt. 

Theódór Norðkvist, 7.2.2008 kl. 20:57

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég hef líka lent í svona fyrirvaralausri blindhríð. Svo hefur það líka hent mig að keyra Hellisheiðina í eðalfínu veðri og færi en heyra í útvarpinu varað við heiðinni. Það er erfitt að sjá við öllu en þeir sem eru mikið á ferðinni ættu vitaskuld alltaf að hafa skóflu í skottinu.

Stína, ég hef tröllatrú á akstursfærni þinni, er ekki fúlt að geta ekkert keyrt þarna úti?

Berglind Steinsdóttir, 7.2.2008 kl. 22:38

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk hólið Berglind. Jú, það fer stundum í skapið á mér að hafa ekki bíl. Sérstaklega þegar ég hef skíðasvæði svona nálægt mér en samt í svo mikilli fjarlægð þegar maður þarf að fara þangað með strætó. Ef ég fæ vinnu held ég að ég fái mér bíl.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.2.2008 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband