Þjónninn sem eitraði fyrir mér

Þjónn á alþýðuhúsi (pöbb) fór illa með mig á þriðjudagskvöldið. Julianna var í bænum og við ákváðum að fá okkur kvöldverð saman áður en hún héldi suðreftir til White Rock. Við fórum á pöbb sem kallast Nevermind því það var leikur í gangi og við vildum fylgjast með honum.

Ég ákvað að forðast þetta týpíska pöbbfæði – hamborgara, kjúklingavængi, o.s.frv. – og prófa eitthvað nýtt. Þeir voru þarna með einhvern asískan rétt, eitthvað dæmi grillað á teini og seszhuan baunir í meðlæti. Ég er alltaf hrifin af seszhuan baunum svo ég ákvað að skella mér á þetta. En ég varð samt að hafa allan vara á því ég er með ofnæmi fyrir fiski. Ég verð ekki hættulega veik en mér verður óglatt og stundum verð ég náhvít í andliti ef ég læt þennan þjóðarmat Íslendinga ofan í mig. Svo ég spurði þjóninn hvort þetta væri ekki örugglega kjötréttur. Jújú, hann jánkaði því, svo ég pantaði. 

Maturinn kemur og virðist þetta óþekkta kjöt vera kjúklingur. Vel grillaður á teini á kafi í einhverri sterkri sósu. Bráðnaði í munni. Ég hafði meira að segja orð á því við Juliönnu að ég hefði aldrei áður fengið kjúkling sem væri svona mjúkur undir tönn. Ég var ekki búin að borða mikið af matnum þegar mér fór að líða illa. Svona eins og mér líður þegar ég borða fisk. Ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri fiskisósa í réttinum. Það er alltaf sett fiskisósa í Thailenska rétti en yfirleitt ekki í kínverska. En maturinn var góður þótt hann væri vel kryddaður og ég hélt áfram. En mér leið ekki vel. Og þetta lagaðist ekki. Tveimur tímum eftir kvöldmat var mér enn óglatt og ég skyldi það ekki. Vanalega hef ég reyndar hætt að borða mat þegar ég fatta að það eru fiskiafurðir í honum og kannski leið mér óvenju illa þarna af því að ég borðaði allan matinn. En þetta var samt óvenjulegt.  Ég lagaðist þó að lokum og gleymdi þessu.

En í dag var ég að spjalla við Marion og sagði henni þá frá því að ég hefði fengið þennan undarlega mat á Nevermind og ég héldi að það hlyti að hafa verið fiskisósa í þessu. Hún spurði mig hvað ég hefði borðað og ég sagði að það hefði verið kjúklingur í einhverri kryddsósu, maó maó eða eitthvað svoleiðis. "Piri piri?" spurði Marion. "Nei", sagði ég, "pottþétt mai mai eða eitthvað". "Uh, mahi mahi?" spurði hún. "Já, einmitt. Það var það sem það kallast." Marí horfði á mig og sagði: "Það er fiskur. Hawaískur fiskur." Helvítis þjónninn. Ekki furða þótt ég hefði orðið lasin. Hann plataði mig til að borða fisk. Eins gott að ég er ekki með hættulegt ofnæmi. Þá hefðu nú getað orðið vandræði. En þetta bragðaðist ekki eins og fiskur og leit ekki út eins og fiskur og þegar mér var sagt að þetta væri ekki fiskur....þá borðaði ég fjandann. Og þjáðist svo fyrir. Ég er hrædd um að ég muni passa mig á mahi mahi í framtíðinni.  

P.S. Ég athugaði með mahi mahi á Wikipedia og þar stóð þetta m.a.: Mahi-mahi have a chicken-like taste and texture...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

en hey þetta var samt gott - og þér líður vonandi betur í dag - smá vanlíðan fyrir góðan mat uss ég geri þetta oft ... fæ mér oft ís þó ég sé méð mjólkuróþol hehe :p

Hrabba (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 15:03

2 Smámynd: Kolbrún Kolbeinsdóttir

Æi nei - leiðinlegt að heyra.  Ég var með andlegt ofnæmi fyrir fiski á yngri árum en er öll að koma til og finnst einmitt mahi mahi sérstaklega ljúffengur.  Ég skal þá bara borða þinn skammt líka

Kolbrún Kolbeinsdóttir, 9.2.2008 kl. 04:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband