Lasin

Ég er með kvef. Höfuðið er fullt af grænni drullu sem lekur út úr nösunum, fyllir ennisholurnar og veldur höfuðverk og þreytu. Ég er ekki sérlega ánægð með þetta en það er ekki eins og mér hafi komið þetta á óvart. Ég var búin að vera að berjast við veikindi í rúma viku og hélt að ég hefði unnið baráttuna en á miðvikudagskvöldið fékk ég hálsbólgu og hún versnaði á fimmtudag og föstudag. Hún er núna búin að ég lendi alltaf í sama farinu. Fyrst hálsbólga, svo kvef með hnerra sem síðan breytist í hósta. Er búin að hnerra af og til í allan dag þannig að ég verð líklega farin að hósta á morgun.

Sleppti innflutningspartýi hjá Sonju í gær út af þessu og kaffiboði hjá Rosemary í dag. Á morgun á ég svo að spila fótboltaleik en veit ekki hvort ég verð orðin nógu góð til að spila. Annars eru engar líkur á að leikurinn verði spilaður. Það er búið að rigna í allan dag og á að rigna í alla nótt og allan morgundaginn. Það má ekki leika á völlunum þegar svoleiðis stendur á því það eyðileggur grasið.

Ætti hins vegar að vera orðin nógu góð annað kvöld til að fara og hitta Mark vin minn. Hann er frá Winnipeg og er mikill Canucks aðdáandi. Við ætlum því að fara eitthvert á bar og horfa á leikinn með öðrum æstum aðdáendum. Liðið verður hreinlega að vinna á morgun því þeir töpuðu í kvöld og eru að síga aftur úr í baráttunni. Við verðum að ná að vera á meðal átta efstu í vor þegar úrslitakeppnin hefst því annars verður hokkívertíðin stutt í ár. Gallinn er að liðið hefur átt í svo miklum meiðslum að stríða, að þeir hafa aldrei leikið í vetur með alla sex varnarmennina sína. Á tímabili í kvöld voru allir fimm strákarnir á vellinum (fyrir utan markmanninn) strákar úr Manitoba Moose - sem sagt algjört varalið. Þeir eru góðir en skortir alla reynslu og það sást í kvöld. En ég vona að gangi betur gegn Chicago á morgun svo við Mark höfum um eitthvað skemmtilegt að tala. 

Ég verð líka að vera nógu frísk á morgun til að geta unnið vel. Ég þarf að halda fyrirlestur í deildinni á miðvikudaginn og ég verð líka að klára abstract fyrir ráðstefnu fyrir lok vikunnar. Vann aðeins við það í dag en var of máttlaus til að sitja lengi við tölvuna. Núna í kvöld er ég orðin miklu hressari og get setið lengur við og ætti því að vera að vinna núna í stað þess að blogga. En ég þoli ekki að vinna of seint á kvöldin. Á morgun verð ég frískari og þá sest ég við skriftir. Lofa sjálfri mér því.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Ouch!  Vonandi endar þetta ekki með því að það þurfi að blása út úr ennisholunum.  Það er ekkert gaman!

Farðu vel með þig, og láttu þér batna! 

Einar Indriðason, 10.2.2008 kl. 12:46

2 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Láttu þér batna..

Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.2.2008 kl. 17:15

3 identicon

Taktu lýsi

Frændi 

bh (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband