Nágrannaerjur

Það ríkir stríð í húsinu mínu en sem betur fer hefur mér tekist að vera Sviss og halda mig fyrir utan það. Það eru þrjár íbúðir hér. Ég er í risinu, Rita á miðhæðinni og Alison í kjallaranum. Rita hefur stjórn mála því hitastiginu er stjórnað í hennar íbúð og við Alison getum ekkert gert. Það er dýrt að kynda og Rita er annað hvort fátæk eða nísk (en býr þó í langstærstu íbúðinni) þannig að hún heldur hitanum niðri. Verst er að hún lækkar hitann yfir daginn þegar hún er lítið heima þannig að það er ískalt í húsinu sem er verst fyrir mig því ég vinn heima og stundum eru fingurnir loppnir af kulda. Ég keypti mér lítinn rafmagnshitara og suma daga gengur hann allan daginn. Sagt er að hitinn rísi og samkvæmt því ætti að vera hlýjast hjá mér en ég held að gluggarnir og þakið séu ekki mjög þétt því það er alls ekki hlýtt hérna. Stundum fer hitinn niður í fimmtán stig inni í íbúðinni en oft hangir hann í kringum sautján átján. Ég vil hafa tuttugu stig inni hjá mér, að minnsta kosti. Kannski er það Winnipegreynsla mín. Fólk í Winnipeg hefur alltaf hlýtt inni hjá sér því það er svo kalt úti og maður vill geta komið inn úr kuldanum, rifið sig úr köldu fötunum og samt verið hlýtt samstundis.

Þegar ég fæ nóg fer ég niður til Ritu og bið hana að hækka hitann sem hún gerir en þó með smá röfli. Stundum er hún ekki heima og þá verð ég bara að vefja mig í teppi þar til ég næ á henni. En þetta er ekki oft vandamál því þessi litli hitari nær að gera sitt gagn. 

Málið er verra hjá Alison. Í fyrsta lagi er hún í kjallaranum og þar verður að sjálfsögðu kaldara yfir höfuð. í öðru lagi hefur hún bara tvö blásaragöt eins og ég. Rita hefur eitt í hverju herbergi. Hitinn hér er í stokkum þannig að honum er blásið út um göt á gólfinu (hjá mér og Ritu) eða á veggnum (hjá Alison). Hjá Ritu hitast því öll herbergi jafnt en hjá okkur Alison þarf hitinn að dreifast frá þessum tveim ristum og út um afganginn af íbúðinni. Alison er verr sett en við af því að hennar ristar eru í veggnum upp undir lofti og þaðan stígur hitinn upp. Það sem gerir svo málið enn erfiðara er að það er ekki gott á milli hennar og Ritu (veit ekki af hverju) þannig að Rita hundsar vanalega Alison þegar hún biður hana um að hækka hitann. Um síðustu helgi var virkilega kalt úti og Rita hækkaði ekki hitann á húsinu (hann var settur í kringum 18 stig). Hjá Alison var því sirka fimmtán stigi hiti inni svo hún hringdi upp til Ritu og sagði henni að það væri virkilega kalt í íbúðinni. Rita svaraði einfaldlega: Too bad, og skellti á. Að lokum varð Alison að fara upp til Ritu (það er innangengt á milli íbúða þeirra) og hækka hitann sjálf. Rita varð auðvitað fokill og sagði að Alison yrði þá að borga hærri hitareikning. Alison endaði á því að skrifa bréf til húseigendanna (eftir að hafa reynt að hringja) til að kvarta yfir þessu. 

Hún hefur ekki heyrt frá eigendunum en Rita talar ekki við Alison (hvort sem það er vegna síðasta rifrildis eða vegna þess að eigendurnir töluðu við hana) og hefnir sín á Alison með því að sturta niður í klósettinu í hvert sinn sem Alison fer í sturtu. Það þýðir að allt kalda vatnið fer beint í klósettið og Alison fær bara heitt vatn úr sturtunni. Þetta er auðvitað stórhættulegt. Fyrsta árið mitt í Kanada bjó ég einmitt í húsi þar sem þetta kom iðulega fyrir.

Ég hef sem betur fer náð að halda mér fyrir utan þetta enda þarf Rita á mér að halda. Ég skipti um perur fyrir hana og opna fyrir hana dósir og þvíumlíkt. Henni er því vissara að vera ekki með leiðindi við mig. Hún reyndi reyndar að vaða yfir mig fyrst þegar ég flutti inn en ég lét hana vita frá upphafi að ég léti ekki ráðskast með mig þannig að við höfum átt ágætt samband. Ég vona að það haldi áfram því ég nenni ekki að standa í neinum deilum. Ég vona hins vegar að þær hinar nái að sætta ágreininginn því það er ekki gott þegar nágrannar eiga í deilum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Á móti þessu kemur að leigan er verulega hagstæði ... eða hvað?

Berglind Steinsdóttir, 10.2.2008 kl. 21:30

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já. Þótt leigan sé há miðað við fjárhaginn þá er hún hagstæð miðað við Vancouver og sérstaklega miðað við hvar í Vancouver ég bý. Allt sem er nálægt háskólanum er dýrt. Og með því að vera að drepast úr kulda þá helst hitareikningurinn aðeins niðri. Hins vegar held ég að það hækki bara rafmagnsreikninginn því við Alison þurfum báðar að vera með rafmagnshitara á fullu, og stundum þegar mér er kalt fer ég í heitt bað og það kostar líka sitt. Þannig að ég veit ekki hversu mikið við spörum. En ég vil alls ekki fara úr þessari íbúð. Ég fengi ekkert eins gott á þessu verði.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.2.2008 kl. 21:58

3 identicon

uff puff þetta er ótrúleg - grrr einginlega það eina sem ég fíla ekki við útlönd ... þetta hitadæmi!!

Elska að kinda ofnana mína hér heima opna svo glugga og skríða svo undir góða dúnsæng hehe ;p 

Hrabba (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 12:55

4 identicon

Held algerlega með Alison og þér í þessu máli. Í mörgu er ég til í að spara, en ekki því að hafa hlýtt og notalegt inni hjá mér. Lenti í svipaðri togstreitu þegar ég bjó í Seattle. Stelpan sem leigði með mér tímdi ekki að borga fyrir rafmagnið og vildi helst hafa 15-18 gráður. Hún var að vinna á skrifstofu daginn, og þegar hún var heima var hún yfirleitt að gera eitthvað innandyra, en sat sjaldan við. Ég þurfti að sitja og læra og varð fljótt kalt. Hún stakk upp á að ég yrði bara í úlpu við lærdóminn. Ég sagði nei takk. Ég vann...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 21:27

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk stuðninginn. Já, það er sko mikilvægt að manni sé hlýtt.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.2.2008 kl. 21:38

6 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Hæ og hó! Það er ótrúlegt hve mörg hús eru illa einöngruð og illa kynt hér á vesturströnd Bresku Kólumbíu. Það er skömm að þessu.

Gangi þér vel í baráttunni. Þessi Rita virðist vera hálfgerð tík.

Home Depot selur mjög góða keramík hitara. Nýjasta tækni og virkar vel. Eins og þú bendir réttilega á, það er mjög mikilvægt að manni sé hlýtt.

Wilhelm Emilsson, 14.2.2008 kl. 00:28

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Er Rita fjölfötluð? Hvers vegna getur hún ekki skipt um perur og opnað dósir sjálf?

Wilhelm Emilsson, 14.2.2008 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband