Af hverju væla boltamenn svona?
10.2.2008 | 22:56
Mér hefur alltaf fundist það athyglisvert í boltanum hvernig menn eru alltaf að afsaka sig og sína. Þetta gera knattspyrnustjórar iðulega og oft leikmenn sjálfir. Ég sé að ýmsir bera þetta sérstaklega upp á Man Utd. en ég hef nú tekið eftir þessu hjá mjög mörgum knattspyrnustjórum og aðstoðarstjórum og að sjálfsögðu hjá aðdáendum (og ég tek fram að ég er ekki að verja Man Utd. hér. Ég er Arsenal manneskja og mér er því eðlilega ekki vel við Man Utd. en málið er að Arsenal gerir þetta jafnmikið og United og önnur lið).
Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að ég fylgist mikið með hokkíinu í NHL deildinni og þar bara hreinlega heyrir maður ekki svona væl. Liðið mitt var í vikunni með fimm af sex varnarönnum meiddum og liðið var því skipað ungum strákum úr varaliðinu. Við aðdáendur notuðum þetta auðvitað sem afsökun en þjálfari og leikmenn neituðu að gera það. Þegar þeir töpuðu enn einum leiknum bentu þeir einfaldlega á að þeir hefðu ekki spilað eins vel og hitt liðið og ekki langað eins mikið að sigra. Þegar þjálfarinn var spurður að því hvort það væri ekki slæmt fyrir liðið að missa svona marga menn sagði hann bara að maður kæmi í manns stað. Þeir kvarta heldur ekki þegar þeir eru látnir spila fjóra leiki á fimm dögum eins og t.d. núna.
Eina skiptið sem ég hef heyrt þjálfara Canucks kvarta yfir ósanngirni var á tímabili í haust þegar liðið var látið spila sjö leiki á ellefu dögum þar sem fyrst komu tveir útileikir tvo daga í röð í miðvestur ríkjunum, næsta dag var flogið heim til Vancouver og leikinn einn heimaleikur, þeir flugu svo næsta dag til LA spiluðu þar einn leik, fengu einn dag frí, spiluðu svo tvo leiki á tveim dögum í Kaliforníu, og flugu svo til Edmonton og léku þar þriðja leikinn á fjórum dögum. Þannig að á ellefu dögum var aðeins einn dagur þar sem hvorki var leikið né flogið fjögurra til fimm tíma flug.
Og svo væla menn í enska af því að liðið þurfti að leika landsleik stuttu fyrir deildarleik. Iss piss, við hlustum bara ekki á svona.
Ég hef skrifað um þetta áður, ég veit það, en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Knattsyrnumenn og -stjórar ættu að taka hokkíið sér til fyrirmyndar og sætta sig við tap án þess að þurfa að koma með afsakanir.
![]() |
Landsleikirnir tóku sinn toll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nokkurn veginn er þetta rétt hjá þér að það er vælt mikið í knattspyrnunni. Samt ekki hjá mér í mínu liði, þá er það bara hvort liðið er betra einmitt þann daginn
..
Þessar afsakanir yfirleitt eru bara svona til að sýna að það liðið sem tapaði hefði eflaust getað gert betur og maður ætti að vorkenna greyjunum...
Róslín A. Valdemarsdóttir, 10.2.2008 kl. 23:02
Bíddu Línbergur, ertu að meina mig þegar þú talar um fólk sem étur upp allt sem kemur í fjölmiðlum? Verðum við ekki að gera ráð fyrir því að aðstoðarknattspyrnustjóri hafi sagt þetta? Þótt blöðin eigi það til að ýkja og taka hluti úr samhengi þá eru þau nú ekki vön að búa fréttirnar til upp úr engu (nema slúðurblöðin kannski). Ég hugsa því að náunginn hljóti því að hafa nú eitthvað reynt að bera þessa þreytu fyrir sig.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.2.2008 kl. 23:35
Það má líka geta þess að þessir blessuðu íslensku fréttamenn virðast ekki kunna að þýða úr engilsaxnesku...
"The assistant manager pointed to key players being away on international duty as another reason for a less than impressive performance by the Reds.
"We don’t usually like to emphasise these things but we had seven or eight players playing 90 minutes on Wednesday night.
"We cannot talk about that as an excuse but in my opinion, the players were affected." (http://www.manutd.com/default.sps?pagegid=%7BB4CEE8FA%2D9A47%2D47BC%2DB069%2D3F7A2F35DB70%7D&newsid=531485)
Þarna segir hann mjög skýrt að hann sé ekki að nota það sem afsökun, en að þeir hafi orðið fyrir áhrifum og auðvitað hafi það spilað eitthvað inní.
RÉTT SKAL VERA RÉTT :)
Guðný (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 23:52
Fólk sem horfir á fótbolta er tapsárt.
Að nöldra er t.d. ein leið til að rasa út og finna leið til að kenna öðrum um tapið.
Marinó Már Marinósson, 11.2.2008 kl. 00:06
Langar bara að benda ykkur og öðrum á að degi fyrir leik kemur sir Alex fram og segir að ekkert annað en sigur komi til greina og svo kemur aðst.maður hans eftir að þeir eru búnir að kúka á sig og afsakar tapið með þreyttum leikmönnum og að jafnvel sumir leikmenn hafi verið hálf utan við sig vegna slysins sem ég ætla svo sannarlega ekki gera lítið úr. MAN UTD eiga hætta að gráta svona, hysja upp um sig buxurnar og hugsa um næsta leik. Það verður engin heimsendir þótt þeir tapi einum leik, eins og þeir reyna láta líta út. Það mætti halda að þeir væru þegar búnir að átta sig á því að Aresenal verði meistari í ár :o) og þeir séu þegar farnir að finna hinar ýmsu afsakanir fyrir því. Bendi þeim á að það getur aðeins eitt lið orðið meistari og það er engin skömm að vera í öðru sæti hehehehehahahaha.
Kær kveðja
Bobby
Rúnar Gunnarsson, 11.2.2008 kl. 00:07
Takk öll fyrir umræðuna. Guðný, það er rétt hjá þér, íslensku þýðingarnar eru ekki oft mjög góðar. Það fyndna við þessa ræðu aðstoðarþjálfara er samt það að þótt hann segist ekki ætla að nota þetta sem afsökun er hann að sjálfsögðu að gera það. Af hverju væri hann annars að tala um þetta. Og það að leikur á miðvikudag hafi haft svona mikil áhrif á leikinn í dag!!! Mínir menn í hokkíinu leika í kvöld og þeir hafa leikið tvo leiki síðan á miðvikudag! Þetta eru íþróttamenn í góðu formi. Það á ekki að hafa svona mikil áhrif á þá að spila oftar en einu sinni í viku.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.2.2008 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.