Taugarnar þandar yfir spennandi leik
11.2.2008 | 08:13
Þið sem nennið ekki að lesa hokkílýsingu, kíkið samt á myndbandið neðst. Ótrúlega flott vítaskot sem tókst betur í kvöld en það gerði þarna.
Ég horfði á leikinn í kvöld með Mark sem er vinur minn úr Íslendingahúsi. Hann er frá Winnipeg en flutti hingað fyrir einu og hálfu ári vegna vinnu. Mark er mikill Canucks aðdáandi og við fórum upphaflega að tala saman þegar ég var að kenna yfir í Íslendingahúsi (þar sem hann leigir herbergi) af því að ég var með hálsmen með merki Vancouver Canucks. Síðan þá höfum við mikið rætt um hokkí.
Við fórum á stað sem heitir The Frog and the Firkin og fengum okkur mat á meðan við horfðum á leikinn og spjölluðum saman. Canucks léku miklu betur í kvöld en í gær en gekk þó illa að skora. Þeir komust þó í 1-0 með marki frá Burrows í fyrsta leikhluta en snemma í þriðja leikhluta jöfnuðu Chicago Blackhawks. Alla setti hljóða á pöbbnum enda þurftum við virkilega á báðum stigunum að halda út úr þessari viðureign. En þetta átti eftir að versna. Rúmum fjórum mínútum fyrir leikslok skoruðu Blackhawks ótrúlegt mark. Pökknum var skotið að marki en hann lenti á kylfunni hjá Kesler, okkar leikmanni, og hentist þaðan upp í loft og eiginlega hvarf sjónum. Luongo í markinu horfði upp í loftið en sá ekki pökkinn sem datt niður fyrir aftan hann og inn í markið. Við Mark föttuðum ekki einu sinni að mark hefði verið skorað fyrr en við sáum leikmenn Blackhawks fagna. Vá, það mátti heyra saumnál detta á barnum. Allir voru í sjokki. Mark setti hljóðan og hann stundi varla upp orði þegar ég minntist á að það væri orðið býsna langt síðan Vancouver hefði náð að koma til baka á síðustu mínútu þannig að það væri nú alveg kominn tími til.
Þegar tvær mínútur voru eftir tók Vignealt Luongo út úr markinu og setti fjórða framherjann inná. Þetta er alltaf hættulegur leikur því það er auðvelt að skora í autt markið, en aðalmálið er að halda pökknum og vona að aukamaðurinn hjálpi til við að skora. Enda er þarna um allt eða ekkert að ræða. Og ótrúlegt en satt, þetta dugði því Naslund náði að hamra pökknum í netið og staðan 2-2 þegar mínúta var eftir. Bæði lið börðust en þannig endaði venjulegur leiktími og farið var í framlengingu. Vancouver hefur ekki gengið vel í vítakeppnum í vetur, aðeins unnið fjórar af ellefu þannig að þeir spýttu í í von um að vinna leikinn í framlengingu (fimm mínútur með fjóra menn á vellinum í stað fimm). Þegar framlengingin var hálfnuð fékk Vancouver vítaskot þegar leikmaður Chicago sparkaði markinu úr stað þegar Vancouver var með pökkinn og Daniel Sedin, aðalmarkaskorari liðsins tók vítið. Þið megið þó vita að það er miklu erfiðara að skora úr vítum í hokkí en í fótbolta og það er miklu algengara að mistakast skotið en að takast það. Daniel ætlaði að draga pökkinn til hliðar og fram hjá markverði en kom ekki einu sinni skoti á markið. Svo framlenging hélt áfram en ekkert mark var skorað. Vítakeppni varð staðreynd. Við Mark giskuðum á að Vigneault myndi velja Naslund, Burrows og Linden til að taka vítin og við höfðum rétt fyrir okkur í tveimur tilfellum. Naslund tók fyrsta víti en skaut framhjá. Luongo varði þá frá aðalskorara Chicago sem hafði fram að þessu skorað fimm mörk úr sex vítaskotum. Þá var sendur á svæðið unglingurinn Ryan Shannon sem Vancouve fékk í haust frá Anaheim en sem hefur að mestu spilað með Manitoba. Mark kallaði upp yfir sig þegar hann sá Shannon. Hvernig í fjandanum stæði á því að Shannon ætti að taka víti, en ég sem hef endalausa trú á þjálfaranum var ekki eins stressuð. Vigneault veit hvað hann er að gera.
Shannon leggur af stað, tekur svo stóran sveig til vinstri kemur síðan hratt inn að markmanninum, snýst svo í hringi og skýtur pökknum í markið um leið og hann fellur niður og á markmanninn. Ótrúlegt skot og ótrúlegt mark. Markmaðurinn var hins vegar ekki hrifinn og barði Shannon í hausinn sem var alveg sama, fagnaði bara sínu marki. Ég skil hins vegar ekki af hverju markmaðurinn fékk ekki áminningu. Það er líka búist við að Chicago muni kvarta þar sem Shannon datt á markmanninn í lokinn. En markið stóð. Og fleiri mörk voru ekki skoruð. Luongo varði skotin tvö frá Chicago sem eftir voru og Linden klikkaði á því að skora, þannig að mark táningsins Shannons varð sigurmark leiksins og stigin tvo voru okkar.
Við Mark löbbuðum út í strætó og hann hélt austur eftir til New West og ég vestur eftir til Point Gray. Við vorum ákaflega hamingjusöm með úrslitin og sammæltumst um að horfa aftur saman á leik.
Hér fyrir neðan má sjá Shannon reyna nákvæmlega eins skot á Marty Turco hjá Dallas Stars í fyrra en þar tókst honum ekki að skora. Sem betur fer gekk betur nú.
Athugasemdir
Hel.... góður markvörður þarna, í myndbandinu.
Marinó Már Marinósson, 11.2.2008 kl. 09:37
Já Turco er kanadískur markvörður sem spilar fyrir Dallas. Ég var mjög hrifin af honum í fyrra þegar við spiluðum á móti Dallas í úrslitunum en var með svolitla stæla í haust svo hann hefur dottið svolítið í áliti hjá mér. Hann er mjög góður en mun varla ná að vera markvörður Kanada á Ólympíuleikunum því við höfum Luongo og Martin Brodeur sem eru betri og hugsanlega J.S. Guigere. Turco gæti komið inn sem þriðji markvörður.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.2.2008 kl. 16:30
Veit ekki hvað þessi leikur gengur út á.
Er þér að hlýna?
Þröstur Unnar, 11.2.2008 kl. 20:02
Þröstur, fyrst þegar ég fór á leik vissi ég bara að markmiðið var að koma pökknum í netið og fannst mér þetta ekkert súper spennandi. Bara enn einn leikurinn með sama markmið (bara pökkur í stað bolta). En margt hefur breyst síðan þá og nú sit ég jafn spennt yfir hokkíinu og ég sat áður yfir handbolta (sjaldan eins taugaveikluð yfir fótbolta þó ég sé fótboltamanneskja og hafi gaman af að sjá leiki). Það er líklega eins með hokkí og annað, þeim mun meira maður skilur hvað gengur á þeim mun skemmtilegra.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.2.2008 kl. 21:36
Ó, og við þetta má bæta að mér er að hlýna. Aðallega af því að ég var lasin alla helgina og lét því rafmagnshitarann ganga dag og nótt í stað þess að slökkva á næturnar og þegar ég er ekki heima. Ja, reyndar slekk ég ennþá ef ég fer út. VIl ekki hætta á eld.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.2.2008 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.