Um ókurteisi Íslendinga

 Í fyrsta skiptið sem ég kom heim til Íslands eftir að ég flutti til Kanada varð ég fyrir miklu sjokki yfir því hversu mikið vantaði á kurteisina í Íslendingum. Ég man sérstaklega eftir því að ég fór í Hagkaup rétt fyrir jólin og það var auðvitað mikill troðningur í fólki - allir að flýta sér. Ég stóð og var að skoða eitthvað þegar kona með innkaupakerru kom á fullri ferð og keyrði kerruna sína beint á mig. Ekki það að hún hafi miðað á mig heldur var hún að reyna að komast framhjá mér og í stað þess að segja: "Fyrirgefðu, en værirðu til í að hleypa mér framhjá", reyndi hún bara á það hvort hún og kerrann slyppu framhjá - sem þær gerðu ekki. Í sjálfu sér var ég ekkert of sjokkeruð yfir því einu og sér, en ég bjóst nú við að hún myndi nú skammast sín ógurlega og segja "Æ, fyrirgefðu, er allt í lagi með þig?" En nei, hún reyndi aftur að komast fram hjá - og hún keyrði kerruna aftur beint á mig. Ég var sjokkeruð og ég veit ekki hvernig ég náði að færa mig frá konunni og kerrunni hennar. Ég held ég hafi verið gráti næst. Ekki vegna þess að hún hafi meitt mig heldur vegna þess að ég átti ekki til orð yfir því að hún skyldi a) hafa keyrt á mig, b) ekki beðist afsökunar. En þetta reyndist ekki vera síðasta sinn í þessari fyrstu heimferð minni sem svipaðir hlutir gerðust. Ég var oft nærri gengin niður í þrengslum í verslunum, fólk skellti hurðum næstum á nefið á mér þegar ég gekk á eftir þeim inn í byggingar og allir virtust hugsa hver um sig. Og þegar kemur að röðum þá finnst Íslendingum ekki alltaf nauðsynlegt að fylgja þeim reglum sem þar gilda.

Kanadamenn eru algjörar andstæður. Þeir eru alltaf að segja fyrirgefðu ef þeir troða einhverjum um tær og það hefur meira að segja komið fyrir mig ef ég rekst óvart á einhvern að þeir segja fyrirgefðu. Finnst þeir líklega hafa verið fyrir mér. Ég er orðin alveg eins, segi fyrirgefðu í tíma og ótíma. Nei, það er ekki alveg satt, ekki í ótíma. En ég hef tekið upp flestar kurteisisvenjur Kanadamann. Og þeir gera fleira en að biðjast afsökunar. Ef maður er að fara inn í verslun, skóla, eða aðra opinbera staði, og einhver annar gengur stutt á eftir manni og er líka að fara inn, þá heldur manni hurðinni opinni fyrir viðkomandi. Jafnvel þótt maður þurfi að bíða svolítið. Og þetta er ekki einhver karlremba því karlar halda hurðum opnum fyrir öðrum körlum rétt eins og konum og konur halda hurðum opnum fyrir hvoru kyninu sem er. Hér er líka miklu meiri þolinmæði þegar kemur að biðröðum. Ef það er röð, þá fara Kanadamenn í hana og svindla sér ekki framar, hleypa ekki endalaust inn í hana vinum og kunningjum og svo framvegis. Og svo eru þeir líka hjálpsamir. Fyrst þegar ég flutti út var ég auðvitað græn og ég man að ég stóð fyrir framan kaffideildina í Safeway (svipað og Hagkaup) og þar var svo margt í boði að ég vissi ekkert hvað ég átti að gera (sem átti reyndar við flest í matvöruverslunum). Komu þá að eldri hjón og spurðu hvort þau gætu hjálpað mér. Við enduðum á því að spjalla heillengi. Þetta var langt því frá eina skiptið sem ég fékk hjálp án þess að þurfa að biðja um hana. Og svo er manni oft heilsað út á götu þótt maður þekki ekkert fólkið. Sérstaklega þegar maður labbar um íbúðagötur. Og þegar maður kemur inn í strætó býður maður vanalega ökumanninum góðan daginn og þakkar svo fyrir sig þegar maður fer. Ég man að þegar ég var í HÍ bauð ég einu sinni strætóstjóranum góðan daginn því ég var að reyna að vera kurteis við alla. Hann starði á mig og sagði svo: "Þekki ég þig?" Greyið maðurinn, sennilega ekki vanur því að Íslendingar bjóði honum góðan daginn.

En sem sagt, í sjö ár trúði ég því að Íslendingar væru bara sérstakir dónar (sem ég hafði alls ekki tekið eftir þegar ég bjó þar því ég var sjálfsagt eins og allir aðrir). Þegar ég fór til Noregs í fyrra fannst mér reyndar Norðmennirnir svipaðir og Íslendingar þannig að ég víkkaði út skilgreininguna þannig að það væru Skandinavar sem væru svona dónalegir, en núna í haust þegar ég fór til Spánar varð ég að endurskoða þetta allt saman. Mér finnst nefnilega Íslendingar bara kurteisir að mörgu leyti miðað við Spánverjana. Það er nefnilega einn mikill munur. Þótt Íslendingar hafi ákveðið ruddafas yfir sér eru allir sammála um það að ef maður biður um hjálp þá fær maður hana. Þetta segja mér Vestur Íslendingar sem segja að Íslendingar vilji allt fyrir þá gera. Á Spáni, hins vegar, vilja þeir helst ekkert fyrir mann gera. Þjónarnir eru ruddalegir (kannski bara við mig af því að ég var ein og keypti ekki vín með matnum), þegar ég lenti í veseni á flugvellinum og þurfti að hringja til Kanada vildi enginn hjálpa mér og ég var að brotna niður yfir öllu sem ég lenti í. Og þetta er auðvitað ofan á allt sem ég gat kvartað yfir á Íslandi. Fólk gekk mig niður án þess að segja neitt. Einu sinni var ég í röð til að komast á klósettið á túristastað og vinkonur kerlingarinnar fyrir framan mig tróðu sér allar inn í röðina hjá henni, o.s.frv. o.s.frv. Spánverjarnir voru að öllu leyti miklu verri en Íslendingar.

Nýja skoðunin er sem sagt sú að Íslendingar séu ekkert sérlega sneiddir kurteisi miðað við Evrópubúa almennt. Það eru bara Kanadamenn sem eru sérlega kurteisir (Bandaríkjamenn eru það almennt líka en ekki alveg eins og Kanadamenn). Það var sem sagt gott fyrir mig að fara til Spánar og uppgötva þetta. Ég vona að það þýði að næst þegar ég fer heim pirri þetta mig ekki eins mikið.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband