Nýr sjónvarpsþáttur
13.2.2008 | 06:52
Ég er dottin í nýjan sjónvarpsþátt. Hann er ekkert sérlega góður en samt algjörlega ómögulegt að hætta að horfa. Eins og ávanabindandi eiturlyf. Þessi þáttur kallast MVP (sem í íþróttamáli stendur fyrir 'most valuable player') og fjallar um eiginkonur og kærustur hokkímanna.
Aðalstjarnan er fyrirliðinn Gabe sem er góði gæinn. Hann er nýbyrjaður að vera með ungum ljóshærðum leikskólakennara sem þangað til í þættinum í kvöld var hrein mey.
Damon er vondi strákurinn sem berst við djöfla úr fortíðinni. Konan hans og barn létust þegar hann keyrði fullur. Í staðinn sefur hann hjá öllu sem hreyfist.
Trevor er nýliðinn úr hjólhýsahverfinu og kærastan hans á fremur erfitt með að passa inn í hóp fínu eiginkvennanna. Þar að auki þarf hún að berjast við hinar svokölluðu 'puckbunnies' (nafn yfir hokkí grúppíur) sem sitja um leikmennina.
Auk þess spila stórar rullur ekkja og dóttir fyrirliðans fyrrverandi sem deyr í fyrsta þættinum. Sú eldri er að reyna að koma undir sig fótum eftir að eiginmaðurinn lét allar eigur sínar renna til liðsins en ekki til fjölskyldunnar, og sú yngri, sem saknar ríkidæmisins, gerir allt til þess að komast yfir nýliðann svo hún nái aftur stöðu prinsessunnar.
Ég veit ekki af hverju ég horfi en ég get bara ekki hætt. Kannski það hafi eitthvað að gera með vonda strákinn sem sjá má hér á síðunni!
Athugasemdir
Hljómar spennandi. Er þetta kanadískur eða amerískur þáttur? Ég er náttúrulega rosalega hneykslaður yfir því hverning þú hlutgerir vonda strákinn. Neinei.
"Puckbunnies"! Fyndið hugtak.
Wilhelm Emilsson, 14.2.2008 kl. 00:20
Þetta er kanadískur þáttur, tekinn upp í Ontario. Búnir aðeins fimm eða sex þættir þannig að þú ert ekkert of seinn að detta ofan í þetta líka. Og já, ég er skelfileg. Sérstaklega af því að Damon er svona náungi sem ég myndi aldrei vera með (nema ef vera skyldi til þess að ...!)
Ef þú ferð á CBC þá geturðu horft á þættina sem búið er að sýna: http://www.cbc.ca/mvp/index.html
Það tók mig reyndar um tvo þætti að verða forfallin þannig að það er hugsanlegt að einn þáttur sé ekki nóg.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.2.2008 kl. 00:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.