Loksins fótbolti
17.2.2008 | 08:02
Það lítur út fyrir að ég fái loksins að spila fótbolta á morgun. Við höfum ekki leikið nema einn leik á nýja árin því ýmist hefur verið allt á kafi í snjó, allt rennandi blautt af rigningu eða svo frosin jörð að ekki má leika. Nú hefur hins vegar verið sól og blíða og stefnir í að það haldi áfram á morgun.
Það er líka kominn tími til. Leikurinn á morgun er okkar fyrsti leikur í úrslitakeppninni þar sem við munum leika þrjá leiki í von um að komast áfram. Það er því mikilvægt að vinna. Ég er náttúrulega nýskriðin upp úr bólinu og lungun ekki alveg upp á það besta eftir kvefsóttina, en ég verð bara að passa mig. Ég veit að ég mun geta tekið góða spretti en þarf svo að blása úr nös inn á milli.
Það eina slæma við þetta er það að ég missi af skíðaferð í staðinn. Lína hringdi í dag og bauð mér með til Whistler en ég varð að afþakka út af fótboltanum. Óheppni að svona illa hitti á. En það koma dagar eftir þessa daga og ég verð komin á skíði áður en ég veit af. Kannski meira að segja í vikunni því það er miðsvetrarfrí hjá okkur í næstu viku og því engin kennsla. Ég fæ því frí frá krökkunum og get einbeitt mér að ritgerðinni, en það þýðir líka að ég get farið á skíði ef tækifæri gefst.
Og nú er ég farin í háttinn því ég þarf að vakna snemma og koma mér austur í bæ fyrir níu.
P.S. Vona að liðið mitt standi sig eins vel og Canucks gerðu í kvöld þar sem þeir sigruðu Edmonton 4-2 í hörkuleik. Með sigrinum komust þeir aftur upp í úrslitasæti. En ekkert má út af bregða í þeim leikjum sem eftir eru því keppnin á toppnum er hörð.
Athugasemdir
Mín bara alltaf í boltanum!
Rakst á síðunar þína á mbl skoða hana betur síðar.
Alltaf gaman að rekast á gamla vini, hafðu það sem allra best í Kanada.
Bestu kveðjur
Sif slippari
Sif Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 16:49
Blessuð Sif. Gaman að heyra frá þér. Einhvern daginn verðum við (þú, ég, Dóra, Helena) að fara saman í gufu, borða osta og tala um stráka - alveg eins og í gamla daga.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.2.2008 kl. 07:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.