Um slóðaskap annarra

Ég sagði frá því fyrir tveim mánuðum eða svo að ég hefði fengið grein samþykkta í þekktu hljóðfræðitímariti. Þetta er grein sem ég vann í samvinnu við Bryan Gick, hljóðfræðikennara hér við UBC, og tvo aðra nemendur.

Ritið er hluti af JASA (Journal of Acoustic Society of America - eða Tímarit hljóðfræðisambands Bandaríkjanna) og hefur undirskriftina Express Letters, sem þýðir að ferlið er allt miklu skilvirkara. Stundum tekur einhver ár að fá greinar birtar því fyrst sendir maður þær inn, svo fara þær til aflestrar hjá sérfræðingum sem taka sér sumir marga mánuði til þess að lesa greinina og gefa álit. Ef greinin er samþykkt óbreytt þá fer hún beint til ritstjóra en annars er hún send til baka til höfundar. Stundum er henni hafnað algjörlega og þá reynir maður að koma henni eitthvert annað, en stundum fær maður ábendingar um hvað betur má fara og manni er boðið að senda greinina inn aftur (stundum með loforði um að hún verði birt af maður lagar það sem bent er á).

Express letters er fyrst birt á netinu og síðan prentað í tímariti félagsins. Þeir stæla sig af því að eingöngu örfáir mánuðir líði frá því að grein er send inn og þar til hún er birt. En til þess að þetta sé hægt þarf maður að borga fyrir birtinguna. 

Ég sendi greinina okkar inn einhvern tímann í haust og það leið og beið án þess að við heyrðum eitthvað. Loksins kom svar þar sem okkur var sagt að þeim líkaði greinin en það væri sitthvað sem við þyrftum að laga til þess að hægt væri að birta hana. Þar var um margt tímafrekt að ræða en samt fengum við ekki nema um fjóra daga til þess að laga þetta og senda greinina inn aftur. Við settum á fullspítt og við Bryan skiptum með okkur verkum og náðum að senda greinina inn aftur. Ástæða þess að þetta var tímafrekt var m.a. sú að þeir vildi frekari útreikninga á ýmsum tölum, öðruvísi tölfræði, breyttar myndir o.s.frv.

Enn liðu margar vikur og við heyrðum ekkert. Loks kom bréf þar sem beðið var um skýrslu yfir það sem við hefðum gert til lagfæringar svo ritstjóri gæti fullvissað sig um að við hefðum tekið allar athugasemdir til greina. Ég hafði skrifað slíka skýrslu og sent hana með greininni. Hafði meira að segja sent hana á tvo staði til að öruggt væri að hún kæmi til skila. Svo ég endursendi þessa skýrslu.

Einhverjum vikum síðar kom bréf þar sem sagt var að greinin væri nú orðin birtingarhæf en það væru enn nokkur atriði sem við þyrftum að laga. Við fengum 48 klukkutíma til að laga þetta. Það var gert og greinin var send aftur inn einhvern tímann í desember.

Síðan heyrðum við ekkert þangað til í gær. Þá kom bréf sem sagði að nú væri greinin tilbúin í lokaformi og við beðin um að lesa hana yfir og sjá til þess að fontar og annað væri í lagi og að engin mistök væru í töflum ofl. Aftur voru okkur gefnir aðeins tveir sólarhringar til þess að sjá um okkar hluta.

Ástæðan fyrir því að þeir ná að gera hlutina fljótar en aðrir er sem sagt sú að höfundar þurfa að sitja og standa eftir því sem þeim hjá tímaritinu hentar. Við þurfum að henda öllu til hliðar og vinna bara að þessu verkefni þegar við heyrum frá þeim. Þess á milli taka þeir sér margar vikur og jafnvel mánuði. Og við þurftum að borga!!! Hvað hefði gerst ef við hefðum t.d. bæði verið stödd einhvers staðar á ráðstefnu þegar lokaútgáfan kom?

En það góða er að greinin ætti að fá birst fljótlega, aðeins um hálfu ári eftir að hún var send inn. Ég mun setja inn tengil á hana þegar hún er komin á netið og þá getið þið lesið allt um Tadoma aðferðina og hvernig hún nýtist venjulegu heyrandi fólki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju med greinina -thad ad hun er komin ut er mikilvaegast! Eg thekki thetta med stuttu fyrirvarana...ef thessi blod bara gaetu sent vidvorun 1/2 manudi adur svo madur se vid thvi buinn ad thurfa ad kasta fra ser ollu thegar kallid kemur! En svo er svo gaman ad sja greinina tilbuna, eins og ad sja barn faedast (naestum), ad tha gleymir madur ollu stritinu og fornunum (eins og thegar born faedast...!). Min grein var annars ad koma ut nuna um midjan feb (get sent ther linkinn ef thu att vid svefnvandamal ad strida), eg var svo heppin ad tvaer stelpur a labbinu voru settar i min storf thegar "Kallid kom" svo eg thurfti ekki ad setja mommustarfid a "hold" a medan sidustu tilraununum var reddad!!!

Rut (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 14:19

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Innilega til hamingju með þína grein. Ég á doktorsritgerðina þína einhvers staðar. Algjört léttmeti sem maður gat lesið í strætó!!!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.2.2008 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband