Flensutími
12.10.2006 | 06:35
Haustið og fyrri hluti vetrar eru yfirleitt undirlögð í flensu og kvef. Ég hef fengið flensusprautu undanfarin ár og finnst það alveg stórkostlegt uppfinning. Vanalega verð ég nefnilega svo ógurlega veik ef ég fæ flensu að ég er lengri tíma að ná mér. Þannig að ég byrjaði á þessu þegar ég var að kenna í Manitóba og hef haldið því áfram. Man ekki hvenær ég varð síðast almennilea lasin. Ég fæ reyndar kvefpestar og svoleiðis en það er nú yfirleitt viðráðanlegt.
Þessa dagana er ég að berjast á móti kvefi. Nefið er fremur stíflað og ég finn það á því hversu máttlítil ég er að ónæmiskerfið er að berjast á móti einhverjum fjandanum. Ég held að ég ætli að vinna. Ég er búin að vera að bryðja sólhatt, drekka vatn, taka inn töflur sem hreinsa nefgöngin (alveg nauðsynlegt) o.s.frv. og ég er alla vega ekki lasin ennþá. Reyndar fer ég í flugvél á morgun sem gæti breytt ýmsu. Flugvélar eru náttúrulega besti staðurinn til að ná sér í bakteríur og veirur. Maður er lokaður inni í lítilli dós í marga klukkutíma þar sem bakteríur og veirur sveima um loftið. Og ef ónæmiskerfið er þegar veiklað á því að berjast við aðrar pestar þá er nú ekki von á góðu. Ég flýg til Chicago. Síðast þegar ég var í Chicago var ég þar á ráðstefnu og ég var veik hér um bil allan tímann. Fyrsta daginn hafði ég reyndar tíma og heilsu til að labba um og skoða borgina (sem er ágæt en svo sem ekkert merkileg) en strax á öðrum degi var ég komin með kvef og hálsbólgu og ég eyddi megninu af ráðstefnunni í rúminu. Af og til skreiddist ég niður til að hlusta á fyrirlestra (guði sé lof að ég gisti á ráðstefnuhótelinu - annars hefði ég líklega ekkert séð af ráðstefnunni) en það var ekki mikið. Ég vona að þetta skiptið verði betra. Reyndar verð ég lítið í Chicago. Ráðstefnan er í Urbana/Champaign um þrjá tíma í burtu. Ég ætla að stoppa einn dag í Chicago á leiðinni til baka og heimsækja Matt sem var hérna postdoc hjá okkur í UBC í fyrra. Við klifruðum saman.
Kannski skrifa ég eitthvað hérna inná á meðan ég er í Illinois en þið skulið nú ekki treysta því.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.