Bölvuð magakveisa

Laugardagurinn átti að vera skemmtilegur. Planið var að hitta Juliönnu vinkonu mína og mömmu hennar í bröns, leika síðan fótboltaleik og fara svo á þorrablót Íslendingafélagsins. En þetta gekk ekki eftir.

Ég vaknaði klukkan fimm á laugardagsmorguninn með stingandi verk í maganum og ógleði. Ég náði að sofna aftur en þegar ég vaknaði á ný voru bæði verkurinn og ógleðin enn til staðar. Klukkan níu hringdi ég í Juliönnu til að afboða mig í brönsinn enda gat ég ekki hugsað mér að borða. Ég hélt enn í einfeldni minni að ég gæti samt leikið fótbolta og farið á þorrablót um kvöldið. Ég skreið upp í rúm og svaf. Vaknaði um hádegi, enn lasin og skjálfandi af kulda. Hringdi í Rosemary vinkonu mína sem er hjúkrunarkona og hún vildi að ég mældi mig. En ég fann hann ekki svo ég fór aftur að sofa. Vaknaði aftur og varð að hringja í bílstjórann minn og afboða mig á leikinn. Enn nokkrir klukkutímar í þorrablót og því enn tími til að láta sér batna. Svaf, vaknaði enn skjálfandi af kulda með magaverk. Eftir nokkra leit fann ég loks hitamælinn og reyndist vera með 38.4 stiga hita. Það er svo sem ekki mikið en ég fæ aldrei hita. Hef varla fengið hita síðan ég var krakki. Þorrablótið var tekið af dagskrá. Rosemary og Doug komu þó við á leiðinni á blótið og færðu mér Tylenol til að lækka hitann, flösku af jarðaberjaengiferöli og grænmetissoð. Ég yrði að nærast á einhverju. Eina bótin í málinu var að ég gat nú horft á Canucks spila á móti Detroit, toppliðinu í deildinni. En ég sá kannski helminginn. Svaf yfir hinum. Náði þó að vera vakandi síðasta hlutann þegar Kesler skoraði tvö dásamleg mörk og við unnum 4-1. Og svo sofnaði ég. 

Ég vaknaði af og til alla nóttina, enn með magaverk, en klukkan átta um morguninn var ég orðin frísk. Bara voðalega svöng. Fór á opna æfingu hjá Canucks (sem þeir halda einu sinni á ári) og fékk að horfa á þjálfarann minn (ja þeirra – minn (fótbolta)þjálfari er ekki dúlla) í heilan klukkutíma. Fór svo heim og talaði við Tim í tvo tíma. Hann hefur mikla reynslu af atvinnuviðtölum því hann hefur verið í ráðningarnefndum undanfarin sjö eða átta ár, svo hann setti á svið atvinnuviðtal til að þjálfa mig fyrir mánudagsmorguninn. Ég held það hafi bara virkað. Það var kannski þess vegna sem ég var svona afslöppuð í viðtalinu.

Ég hef þegar sagt ykkur frá mánudeginum en ekki því að þegar ég kom heim af kaffihúsinu, eftir að fara yfir öll heimaverkefni nemenda, var ég aftur komin með verk í magann. Ekki eins slæman og á laugardeginum, og enginn hiti að þessu sinni, en slæmur verkur samt. Gat ekki hlaupið á fótboltaæfingunni og spilaði þess vegna í marki...bíddu, var ég kannski búin að segja ykkur frá þessu?

Ég er farin að halda að þetta hafi ekki verið magaflensa heldur hvað það nú er sem hefur angrað mig í maganum síðastliðin tíu ár. Nokkrir læknar hafa kíkt á mig en ekki fundið neitt ennþá. Líklega af því að enginn hefur sent mig í magaspeglun og enginn hefur heldur kíkt á garnirnar. Það gæti komið að því einn daginn að ég þurfi að láta mig hafa það að gleypa myndavél. Það skrítna er samt að ég hef aldrei fengið hita með þessu áður.

En ég get ekki borðað neitt flókið þessa dagana. Fékk mér kjúklingasúpu og banana í kvöldmat. Allt feitt virðist gera mig lasna. Lán í óláni, fitna ekki á meðan!

Og nú er ég farin að sofa. Ætla að reyna að koma mér í rúmið klukkan tíu á kvöldin. Hvort sem það gengur til lengdar eða ekki. Gódnæt tú jú oll (þótt það sé reyndar bara ég sem er að fara að sofa).

P.S. Mæli enn og aftur með að íslenska sjónvarpið kaupi kanadísku sjónvarpsþættina MVP. Horfði í kvöld og stóð á öndinni helminginn af tímanum. Öndin var ekki ánægð með það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er bara spurning um að taka mataræðið í gegn ef þú ert með auman maga. Fara í próf, hvað þú mátt borða og ekki !

Þórey Harpa (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 08:48

2 Smámynd: Guðrún Ösp

hljómar eins og gallblöðrukast.

Guðrún Ösp, 27.2.2008 kl. 14:04

3 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Að vera í marki er nú ekki alslæmt Kristín, vertu ánægð meðan þú ert ekki fest í þá stöðu án þess að ráða því sjálf..
En ég verð að spyrja þig, ertu í alvörunni Arsenal manneskja?
Haha, finnst það bara skrítið..
Hafðu það gott

Róslín A. Valdemarsdóttir, 27.2.2008 kl. 16:56

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það er rétt hjá þér Þórey. Ég hef oft hugsað um það.

Guðrún Ösp. Ég er sammála. Gallinn er að  það hefur tvisvar sinnum verið litið á gallblöðruna hjá mér (og nýrun) og ekkert fundist. En pabbi og mamma og bróðir minn hafa öll fengið steina í þessi svæði svo það er í ættinni.

Róslín. Já, búin að vera Arsenal aðdáandi síðan ég var átta eða níu ára. Bræður mínir áttu mikið af fótboltamyndum og mér fannst Arsenalbúningurinn flottastur. Hef síðan staðið með þeim í gegnum þykkt og þunnt og mun halda áfram að standa með þeim. Ég er líka hrifin af Arsene Wenger, jafnvel þótt hann eigi það til að væla svolítið. Hann mætti laga það. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.2.2008 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband